Tennur og tannhirða

Höfundur Hanna G. Daníelsdóttir

Þetta er wikibók um tennur og tannhirðu, efni og áhöld sem hægt er að nota við tannhirðu. Hún hentar til kennslu um tennur og tannhirðu fyrir fólk á öllum aldri.

Flest okkar fá tvö sett af tönnum. Barnatennur sem hafa það hlutverk að örva vöxt kjalkanna og halda rýminu fyrir fullorðinstennurnar. Sumir þurfa á þriðja tannsettinu að halda en eru það þá gervitennur sem eru sér smíðaðar fyrir hvern einstakling.

 
Uppbygging tannar

Aðalhlutverk tanna er að tyggja fæðuna og búa hana undir meltinguna. Tennur eru mismunandi að lögun og stærð. Hlutverk þeirra er mismunadi eftir hvar þær eru staddar í munninum. Framtennur eru beittar og til þess gerðar að klippa eða hluta fæðuna í bita. Framtennur eru skóflulaga og beina fæðunni inn í munnin. Augntennur eru lengstu tennurnar í munninum og eru með einum tyggihnúð. Þær eru sterkar stingast eða grípa í fæðuna og rífa hana í sundur. Þetta sjáum við glögglega hjá dýrum þ.e. vígtennur. Framjaxlar og jaxlar eru til þess að mylja, merja og tæta fæðuna.

Tennur skipta miklu máli fyrir hljóðmyndun. Það er erfitt að ná framburði vissra hljóða ef framtennur eru ekki heilar. Í nútímaþjóðfélagi þar sem tíska og útlit skiptir miklu máli það hafa tennur og fallegt bros mikil áhrif á vellíðan fólks.

Tennur skiptast í krónu og rót. Krónan er sjáanlegi hlutinn í munninum en rótin situr í kjálkabeininu. Tannkrónan er með hart lag af glerungi sem er harðasti vefur líkamans með 95% steinefni, hitt er vatn og lífræn efni. Rótin er hulin steinungi. Inni í rót tannarinnar er holrúm sem kallast tannkvika. Tannkvikan er oft kölluð "taug". Tannkvikan flytur næringu til tannarirnnar.

Tannsýkla

breyta

Tannsjúkdómar sem orsakast af tannsýklu eru tannáta og tannholdssjúkdómar. Tannsýklan er skán sem sest utan á tennurnar. Um 70% hennar eru sýklar. Sýklagróðurinn er fjölbreytilegur og vaxa sýklarnir með súrefni og án þess. Eftir því sem tannsýklan eldist verður samseting sýklagróðursins fjölbreyttari. Tannsýklu er skipt í sýklu í tyggiskorum, á sléttum flötum, á tannkrónu og á rótarflötum undir tannholdi eða í tannholdspokum.
Við tíða neyslu sykurs fjölgar sýklum í sýklunni. Þannig hefur sykurát áhrif á skýklumyndun. Oftast er sýklan þykkust á milli tannanna og niður við tannholdið. Því er mikilvægt að nota tannbursta og tannþráð við munnhirðu áður en sýklarnir valda skaða.

Glerungseyðing

breyta

Glerungseyðing er eyðing glerungs af völdum sýru en er óháð sykri og bakteríum og því óskyld tannskemmdum. það eru sýrur frá bakflæði maga eða vélinda eða sýrur frá súrum mat eða drykkjum eins og gos- og ávaxtadrykkjum. Einkenni glerungseyðingar er aukin næmni fyrir hita og kulda.
Glerungseyðing er alvarlegur sjúkdómur vegna mikils sársauka og eyðingar tanna. Það er því nauðsynlegt er að vera meðvitaður um áhrif þeirra drykkja og fæðutegunda sem við neytum daglega.

Tannburstun

breyta
 
Tannburstun

Með tannburstun erum við að hreinsa í burtu tannskýkluna sem situr á krónum tannanna og niður við tannholdið. Mikilvægt er að nota réttan tannbursta. Hann á að vera mjúkur með mörgum þéttum hárum. Tannbursti sem er of harður veldur sliti á tönnum og sárum á tannholdinu. Slitinn tannbursti með skældum hárum hreinsar lítð sem ekkert. Því þarf að skipta reglulega um tannbursta ca. á 3ja mánaða fresti. Það eru til margar mismunandi aðferðir við tannburstun. Mestu máli er að sú aðferð sem er notuð skili góðum árangri. Eftir tannburstun skaltu skola burstan vel og láta hann þorna. Best er að bursta tennur tvisvar á dag. Tannburstun á að taka ca. 2 mín og best er að bursta á morgnana og áður en gengið er til náða og nota tannþráð einu sinni á dag.

Tannburstunar aðferð

breyta

Byrja skal alltaf á sama stað t.d. hægra megin að utan verðu. Tannburstahárin eiga að snerta tennurnar og vísa á ská upp að tannholdinu. Ýta skal létt á burstann þannig að hárin á honum þrýstast inn á milli tannanna og að tannholdsbúininni. Nudda skal burstanum upp við svæðið með stuttum hreyfingum fram og til baka eða í hringi sem nemur hálfri tannbreidd. Svo er tannburstinn færður framar. Þá er innri fletir burstaðir og ekki má gleyma að fara aftur fyrir öftustu tönnina. Þegar búið er að bursta efri góm er neðri burstaður á sama hátt. Þá eru bitfletir jaxlanna burstaðir og hafa þarf í huga að fara vel ofan í bitskorurnar til þess að fjarlægja tannsýkluna sem þar situr. Þegar framtennur að innan eru burstaðar þarf að reisa tannburstan upp á endann og nudda upp og niður bæði í efri og neðri góm. Að tannburstun lokinni skaltu skirpa tannkreminu út úr þér en ekki skola restina af tannkreminu því í því er flúor sem við viljum hafa upp í okkur sem lengst. Enda skaðar það ekki þó svo þú kyngir flúortannkremi.

Áhöld og efni til tannhreinsunar

breyta
 
Tannþráður

Nauðsynlegt er að nota tannþráð til þess að hreinsa á milli tannanna þar sem tannburstinn nær ekki til. Þar sem tannhold fyllir upp í bilin á milli tannana er hann heppilegur. Þegar tannþráður er notaður skal taka ríflegan bút og er þræðinum rennt varlega upp á milli tannanna. Renna skal honum upp í glufuna milli tannar og tannholds. Strekktur þráðurinn er færður upp og niður í tannbilinu fyrst öðru megin tannbilsins síðan hinu megin. Hreinsa þarf öll tannbil í munninum á þennan hátt.

Hjá einstaklingum sem eru með opin tannbil eins og hjá mörgum fullorðum þar sem tannhold hefur rýrnað eða vegna tannholdsskjúkdóma er heppilegt að nota tannstöngla eða millitannabursta.
Rannsóknir hafa sýnt fram á það að Flúor er langvirkasta efnið til varnar tannskemmdum. Því er mikilvægt að nota gott tannkrem með flúor. Þegar við notum flúortannkrem dregur glerungurinn í sig flúor þannig að tennurnar verða torleystari í sýru.
Tannskolun með flúorlausn (0,20%) á 1-2 vikna fresti varnar sannanlega tannskemmdum. Því má mæla með almennri notkun þess í samfélögum þar sem tannskemmdir eru tíðar.

Heimildir

breyta

Doktor.is. (e.d.). Tannvernd barna. Sótt af http://doktor.is/grein/tannvernd-barna#Tannbursti
Gunnar Þormar og Sigfús Þór Elíasson. (1989). Tennur og tannhirða. Offsetfjölritun hf. Reykjavík.
Tannlæknafélag Íslands. (e.d.). Tennur og tannhirða. Sótt af http://tannsi.is/fraedsluefni

Ítarefni

breyta

Tannburstun
Tannþráður
Tannhirða fatlaðra
Tannsýkla og tannskemmdir

Spurningar

breyta
  1. Hvert er hlutverk tanna?
  2. Hvað er tannsýkla?
  3. Hvað endist tannbursti að jafnaði lengi?

Krossaspurningar

breyta

1 Hvað fáum við mörg tannsett?

Eitt
Fjögur
Þrjú
Tvö

2 Hvað orsakar glerungseyðingu?

Drykkir með röngu sýrustigi og bakflæði
Vatn
Sykur
Mjólk

3 Hvað á að bursta tennur oft á dag?

Eftir hverja máltíð
Þegar maður nennir
Tvisvar á dag
Einu sinni á dag