Matreiðslubók/Huggulegur tebolli

„A nice cup of tea“ er hin hefðbundna lausn Breta á vandamálum hversdagsins. Góður tebolli drukkinn í hópi vina eða ættingja þykir allra meina bót.

Aðferð

breyta

Setjið vatn í ketil og hitið að suðumarki. Meðan vatnið hitnar skulið þið undirbúa tepottinn. Leirpottar eru æskilegir þó sumir noti pott úr ryðfríu stáli. Pottinn skal hita með því að hella heitu vatni í pottinn og leyfa því að hita pottinn vel. Hellið vatninu þegar potturinn er orðinn vel heitur og setjið te í stað þess. Hvaða tegund af tei sem þið veljið (mælt er með sterku indversku tei eða Kenía-blöndu ef geðshræringin er mikil); þið skulið ekki nota tepoka heldur laust te. Þið þurfi að leyfa telaufunum að fljóta frjáls, auk þess sem pappírsbragð er hvimleiður fylgikvilli tepokanna.

Setjið telauf eftir smekk og stærð tepottsins. Til er heilræði sem segir: „Setjið eina skeið á mann og eina fyrir pottinn“. Þetta er bersýnilega þvæla. Fyrir stóran tepott (fyrir fjóra bolla) gefa tvær teskeiðar frekar veika blöndu, sem hugsanlega dugar til að hughreysta þann sem hefur týnt regnhlífinni sinni á regnvotum degi, á meðan fjórar teskeiðar ættu að duga þeim sem er sagt upp á föstudagseftirmiðdegi. Ástarsorg kann að krefjast sex teskeiða. Bætið við vatninu um leið og það sýður og leyfið teinu að standa í fimm mínútur áður en það er á borð borið. Notið fant ef þið endilega viljið, en mun siðmenntaðra er að brúka bolla og undirskál.

Samkvæmt hefðinni skal nota nýmjólk, en léttmjólk er sömuleiðis nothæf. Sértu nokkuð sjóaður í telögun getur þú æft þig í tækni sem nefnist „mjólkin fyrst“. Að öðrum kosti skaltu bæta mjólkinni við teið þar til óskuðum lit er náð. Bætið við sykri eftir smekk og stærð áfallsins sem tebollinn á að hjálpa þér að sigrast á.

Borið fram með einni eða tveimur kexkökum (eða gúrkusamlokum) og búið ykkur undir vellíðan.