Jólasveinarnir breyta

  Vitað er um 77 mismunandi nöfn á jólasveinum. Almennt er talað um að jólasveinarnir séu 13. Þeir voru frekar ófríðir lengi framan af og voru börn almennt hrædd við þá. Nú til dags fara þessir sveinar ekki lengur rænandi um byggðir landsins heldur færa góðum börnum gjafir í skóinn en þeim óþægu kartöflur. Um 1930 fara jólasveinarnir að koma fram í rauðu klæðunum og er Sá jólasveinn sem allir þekkja einna best nú til dags. Hann klæðist rauðum skrúða með hvítum földum, svörtum skóm, svörtu belti og er alþjóðlegur. Á þessum tíma fóru þeir að finna til gjafmildinnar og um miðja síðustu öld fóru þeir að gefa börnum í skóinn að norðurevrópskum sið. Þrátt fyrir að jólasveinarnir séu núorðið vanir að sýna sig aðeins í nýju rauðu fötunum sínum hafa þeir frá árinu 1988 heimsótt Þjóðminjasafn Íslands í gömlu klæðunum síðustu 13 dagana fyrir jól.

Jólasveinarnir 13 heita Stekkjarstaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottaskefill, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur, Kertasníkir

Stekkjarstaur breyta

Fyrsti jólasveinninn sem kemur til byggða heitir Stekkjarstaur og kemur hann til byggða þann 12.desember. Í gamla daga reyndi hann að sjúga mjólk úr ánum.

Giljagaur breyta

Á eftir Stekkjarstaur kemur Giljagaur og kemur þann 13.desember. Giljagaur var talinn fela sig í fjósinu og fleyta froðuna ofan af mjólkurfötunum þegar enginn sá til.

Stúfur breyta

Á eftir Giljagaur kemur Stúfur til byggða þann 14. desember. Eins og nafnið gefur til kynna er hann minnstur jólasveinanna. Hann stalst í matarleifarnar sem eftir urðu á pönnunum.

Þvörusleikir breyta

Á eftir Stúfi kemur Þvörusleikir sem kemur 15. desember. Eftir að potturinn var skafinn með þvörunni þótti honum gott að stelast til að sleikja hana í von um að finna eitthvað bragðgott á henni.

Pottaskefill breyta

Á eftir Þvörusleiki kemur svo Pottaskefill ofan úr fjöllunum þann 16. desember. Hann vildi skafa að innan pottana sem ekki var búið að þrífa eftir matseld, og þótti honum skófirnar hið mesta hnossgæti.

Askasleikir breyta

Á eftir Pottaskefil kemur síðan Askasleikir þann 17. desember. Hann var kaldur karl sem laumaði sér inn í bæina og undir rúm fólksins. Þegar fólkið lagði frá sér askana á gólfið fyrir framan rúmin, þreif hann askinn og sleikti innan úr honum.

Hurðaskellir breyta

Á eftir Askasleiki kemur síðan Hurðaskellir ofan úr fjöllum þann 18.desember. Hann er hinn mesti hávaðabelgur, og gerir sér að leik að skella hurðum harkalega svo ekki er næði.

Skyrgámur breyta

Á eftir Hurðaskelli kemur Skyrgámur eða þann 19.desember. Skyrgámur vissi ekkert betra en skyr. Hann stalst því í búrið á bæjunum og hámaði í sig eins mikið af skyri og hann gat í sig látið.

Bjúgnakrækir breyta

Á eftir Skyrgámi kemur Bjúgnakrækir þann 20.desember.Honum þóttu bjúgu af öllum stærðum og gerðum hið mesta hnossgæti. Því stal hann þeim hvar og hvenær sem hann komst í tæri við þau.

Gluggagægir breyta

Á eftir Bjúgnakræki kemur Gluggagægir til byggða þann 21.desember. Hann er án efa forvitnasti jólasveinninn. Ekki mátti hann sjá glugga eða ljóra án þess að leggjast á hann og athuga hvað heimilisfólkið hefðist að.

Gáttaþefur breyta

Á eftir Gluggagægi kemur síðan Gáttaþefur þann 22. desember. Hann er með eindæmum þefnæmur, og veit ekkert betra en ilminn af laufabrauði og kökum. Til að hann geti fundið sem mesta lykt er hann með ógnarstórt nef. Hann er grunaður um að gera meira en að þefa af bakkelsinu, því að ein og ein kaka á það til að hverfa þegar hann er nærri.

Ketkrókur breyta

Á eftir Gáttaþef kemur Ketkrókur til byggða þann 23.desember á Þorláksmessu. Hann veit ekkert betra en ket(kjöt). Ketkrókur er nokkuð útsjónarsamur þegar kemur að því að verða sér úti um það. Hann setur krókstaf niður um eldhússtrompinn og krækir sér þannig í hangikjötslæri sem hengd eru í rjáfrin eða nær sér í heitan hangikjötsbita beint úr pottinum.

Kertasníkir breyta

Á eftir Ketkrók kemur síðan Kertasníkir síðastur jólasveinanna til byggða á aðfangadag sem er 24.desember. Hann situr um að hnupla kertum frá fólki sem slysast til að leggja þau frá sér. Helst vill hann hafa þau úr tólg, svo hann geti nartað í þau um leið og hann horfir hugfanginn á logana sem þau gefa frá sér.


Verkefni breyta

Skrifaðu sögu um uppáhaldsjólasveininn þinn.

Svaraðu spurningum um jólasveinanna.

Heimildir breyta