Handverkfæri í áfanganum Trésmíði 109/Áfangalýsing
TRÉ 109 Trésmíði
breytaUndanfari: GBM (Grunnnám bygginga- og mannvirkjagreina)
Áfangalýsing Í áfanganum eru kennd grunnatriði trésmíða með áherslu á þekkingu og færni í notkun handverkfæra og rafmagnshandverkfæra, trésamsetningar, límingar, pússning og yfirborðsmeðferð. Haldið er áfram umfjöllun um efnisfræði tréiðna þar sem ítarlegar er farið í ýmsa eðliseiginleika viðar, flokkun, merkingar og þurrkun. Nemendur kynnast notkun algengra tegunda viðarlíms og yfirborðsefna og tekið er fyrir val og umhirða á verkfærum s.s. stillingar, brýnsla, vinnubrögð og öryggisþættir. Nemendur læra að nota hefilbekki og stilla með áherslu á góða vinnuaðstöðu við mismunandi verk. Kennslan byggist að hluta á fyrirlestrum þar sem kennari útskýrir grunnatriði fyrir nemendum en stærsti hlutinn eru fjölbreytileg smíðaverkefni sem byggjast á markmiðum áfangans. Áfanginn er bæði ætlaður húsasmiðum og húsgagnasmiðum.
Áfangamarkmið
Nemandi
- kunni skil á algengasta smíðavið og smíðisfestingum
- þekki helstu eðliseiginleika viðar og þurrkun timburs
- geti valið smíðavið fyrir einstök verkefni og rökstutt valið
- þekki flokkun og merkingar timburs eftir styrk og útliti
- geti flokkað timbur með hliðsjón af leiðbeiningum
- kunni skil á smíðisfestingum sem notaðar eru í trésmíði
- geti notað algengustu hand- og rafmagnshandverkfæri
- þekki meðferð, notkunarsvið og virkni einstakra handverkfæra
- viti deili á uppbyggingu og notkun helstu rafmagnshandverkfæra
- þekki og geti notað áhöld til mælinga og uppmerkinga
- þekki mismunandi gerðir hverfisteina, smergela og brýna
- geti lagt á og brýnt algengustu handverkfæri
- þekki öryggisreglur einstakra hand- og rafmagnshandverkfæra
- þekki helstu trésamsetningar og geti notað þær við einfalda trésmíði
- kunni skil á einstökum samsetningum og notkunarsviði þeirra
- þekki þvingur og vinnuaðferðir við samsetningar í trésmíði
- þekki algengustu gerðir og notkunarsvið viðarlíms
- kunni skil á nöglum og skrúfum og notkun þeirra í trésmíði
- þekki öryggisreglur fyrir meðferð og notkun einstakra límtegunda
- þekki grunnatriði í yfirborðsmeðferð smíðaviðar og plötuefnis
- geti undirbúið verk fyrir yfirborðsmeðferð með pússningu eða slípun
- þekki helstu yfirborðsefni á tré og notkunarsvið þeirra
- geti borið yfirborðsefni á tré með mismunandi hætti
- þekki öryggisreglur og öryggisráðstafanir við yfirborðsmeðferð
- geti smíðað einfalda nytjahluti eftir teikningum og verklýsingum
- þekki til vinnuskipulags í trésmíði og geti fylgt aðgerðalista við vinnu
- geti efnað niður og unnið tré í höndum fyrir endanlega samsetningu
- geti gengið úr skugga um gæði smíðishluta fyrir samsetningu
- geti notað þvingur markvisst til að fá smíðishlut réttan í límingu
- geti mælt og tekið úr fyrir smíðisfestingum og sett endanlega upp
Efnisatriði/kjarnahugtök
Handverkfæri, rafmagnshandverkfæri, val og umhirða á verkfærum, stillingar, brýnsla, vinnubrögð, öryggismál, hefilbekkur, borvél, borun, handfræsari, fræsing, handpússvél, trésamsetningar, geirnegling, blindtappi, blöðun, díll, dílun, fals, fingrun, fjöður, geirungssamsetning, grunntappi, hálft-í-hálft, hnakki, hornasamsetning, málvik, negling, nót, raufarstykki, skrúfun, sporun, töppun, límingar, pússning, slípun, efnisval, efnisfræði, viðarfræði, eðliseiginleikar viðar, viðarflokkun, styrkflokkun, útlitsflokkun, ÍST DS 413, ÍST INSTA 142, ÍST EN 519, viðarmerkingar, tréþurrkun, viðarlím, yfirborðsefni, yfirborðsmeðferð.
Námsmat
Mælt er með því að námsmat byggist á verkefnavinnu (u.þ.b. 80%) og einu eða fleiri skriflegum prófum (20%).
Heimild:
breytaMenntamálaráðuneytið. 2003. Námskrá í grunnnámi bygginga- og mannvirkjagreina : sérnám í húsasmíði, húsgagnasmíði, málaraiðn, múraraiðn, pípulögnum og veggfóðrun/dúkalögn.Reykjavík. Vefslóð sótt 10. apríl 2007: Menntamálaráðuneytið| [1]