<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur: Thelma Hrund

Starfsmaður á rannsóknarstofu

Inngangur breyta

Í þessari wikibók verður fræðsla um vinnuvistfræði. Vinnuvistfræði er samspil mannsins og þeirra umhverfisþátta sem geta haft áhrif á heilsufar hans, jafnt líkamlega og andlega líðan. Þetta námsefni er ætlað nemendum í efri bekkjum grunnskóla og á framhaldsskólastigi. Markmiðið með námsefninu er að gera nemendur meðvitaða um mikilvægi góðrar líkamsbeitingar og þess að hafa áhrif á það umhverfi sem þeir vinna í sér til hagsbóta.

Vinnuvistfræði breyta

Vinnuvistfræði gengur út á samspil mannsins og umhverfisins þar sem markmiðið er að einstaklingnum líði sem best við iðju sína. Vinnuvistfræði spannar vítt svið og er nálgunin heildræn þar sem horft er á samspil margra þátta s.s. líkamlegra, vitrænna, félagslegra og umhverfisins. Vinnuvistfræði á við um allt sem við tökum okkur fyrir hendur hvort sem það er vinna, nám, heimilisstörf, áhugamál, íþróttir eða annað.

Hugtakið breyta

Hugtakið Vinnuvistfræði er á ensku ergonomics og er samsett úr grísku orðunum ergon vinna og nomos náttúrulögmál. Það var pólski líffræðingurinn Wojciech Jastrzębowski sem er höfundur hugtaksins og setti það fyrst fram í grein sem birt var árið 1857.

Líkaminn breyta

Það er mikilvægt að þekkja aðeins til líkamans ef maður ætlar að reyna að beita honum sem best.

Hryggurinn breyta

Í daglegu amstri mæðir mikið á hryggnum og því er mikilvægt að gera sér grein fyrir hvernig hann virkar. það getur verið gott að sjá hann fyrir sér í fjórum hlutum.

  • Hálshrygg/Háls
  • Brjósthrygg/Brjóstbak
  • Mjóhrygg/Mjóbak/Lendhrygg
  • Spjaldhrygg og rófubein

Efstu þrír hlutar hryggjarins eru hreyfanlegir og samanstanda af 24 hryggjarliðum sem raðast hver ofan á annan.

Liðþófar breyta

Á milli hryggjaliðanna eru liðþófar, sem hjálpa til við að gera hrygginn hreyfanlegan. Liðþófarnir eru eins og trefjapokar sem eru fullir af geli. Þeir hafa mjög takmarkaða blóðrás, aðeins í ysta lagi sínu. Þess vegna gróa þeir illa eða ekki ef þeir laskast. Liðþófarnir fá næringarefni sín og losna við úrgangsefnin með vökvanum sem fer inn og út úr þeim. Á daginn þegar við stöndum, sitjum, göngum og hreyfum okkur í lóðréttri/uppréttri stöðu, þá kemur þunginn á liðþófana og vegna þrýstingsins sem þá myndast þrýstist vökvinn út úr liðþófunum. Þegar við léttum þunganum af hryggjarliðunum t.d. með því að leggjast út af þá flæðir vökvi inn í þá aftur. Af þessum sökum getur munað um 2 sm. á hæð okkar kvölds og morgna.

Liðbönd breyta

Liðbönd tengja hryggjarliðina saman. Vöðvarnir festast á hrygginn og styðja þannig við hann, en aðalhlutverk þeirra er að hreyfa hrygginn eða halda honum kyrrum. Þetta gera þeir með því að spennast og slakna á víxl.

Góð líkamsbeiting breyta

Það má segja að góð líkamsbeiting sé það að nota líkamann í jafnvægi. Þá eru vöðvarnir í innbyrðis jafnvægi og vöðvaspenna er tiltölulega lág. Dæmi bak er beint og axlir slakar, olnbogar eru sem næst líkamanum hvort sem verið er að gera eitthvað standandi eða sitjandi. Það sem við græðum á réttri líkamsbeitingu er betri orkunýting yfir daginn og minni orka fer í óþarfa vöðvavinnu. Við höfum betra úthald og aukið þol til að takast á við dagleg störf. Allar hreyfingar verða auðveldari. Við vinnum gegn sliti og verkjum og minni líkur eru á því að verkir aukist við átök.

Þungaflutningur breyta

Temja sér að nota þungaflutning. Nota fætur og allan líkamann við hreyfingu í staðinn fyrir að beygja bakið Standa með gott bil á milli fóta, jafnt í báða fætur. Beygja í hnjám flytja líkamsþunga yfir á annan fótinn og þaðan yfir á hinn. Standa með annan fót framar (eins og á göngu), hné bogin. Flytja líkamsþungan fram yfir fremri fót og svo aftur á aftari fót. Mjúkan takt.

Hreyfivinna vs. Stöðuvinnu breyta

Við hreyfivinnu spennast vöðvar og slakast til skiptist. Við það eykst blóðþörf vöðvanna og jafnframt blóðstreymi. Ef álagið er hæfilegt er hægt að vinna lengi við slíkar aðstæður, án þess að þreytast eða að fá verki. Við stöðuvinnu eru vöðvar síspenntir og blóðþörfin eykst. Við spennuna þrengir að æðum, blóðstreymi til vöðvanna minnkar og fullnægir því ekki blóðþörfinni. Síspenna vöðva leiðir þess vegna fljótt til þreytu og verkja.

Streita breyta

 
Fæðuhringurinn

Streita myndast þegar við upplifum hættu hvort sem hún er raunveruleg eða ekki. Líkaminn undirbýr sig til bardaga eða flótta, þetta er kallað flóttaviðbragð. Streitan gagnast okkur ef hættu ástandið er raunverulegt og streitan fær eðlilega útrás. Ef viðbragðið verður viðvarandi og fær ekki eðlilega útrás getur það farið að hafa neikvæð áhrif á heilsu okkar.


Ingólfur Sveinsson læknir setti fram mælikvarða á streituástand sem er í sex stigum:

1. stig: Vægt streituástand. Unnið í kappi við tímann. Meiri afköst en venjuleg. Það getur orðið ávani að vinna í tímaþröng.

2. stig: Líkamleg einkenni koma í ljós. Þreyta, vöðvaspenna, verkir, meltingartruflanir og hjartsláttarónot.

3. stig: Þreytan verður áberandi. Meiri meltingartruflanir og meiri vöðvaspenna. Svimi og svefntruflanir.

4. stig: Verkkvíði og vondir draumar. Erfitt að komast í gegnum daginn. Samskiptaerfiðleikar, Vondir draumar vekja snemma nætur.

5. stig: Lamandi þreyta og kvíði. Mikil og stöðug þreyta. Kvíði leiðir til þunglyndis. Hægðatruflanir. Sviti dag og nótt.

6 stig: Ógnvekjandi einkenni. Þungur hjartsláttur og angistartilfinning. Lofthungur. Skjálfti, sviti og dofi. Ofsakvíði.

 

Í nútíma samfélagi hafa streituvaldarnir breyst. Ekki er lengur um að ræða ógnir eins og rándýr þar sem menn börðust eða flýðu upp á líf og dauða. Í dag eru helstu streituvaldar lífshættir og venjur, breytingar á lífsháttum, umhverfið og þjóðfélagsbreytingar. Við eigum að geta allt og það samtímis vinna, vera í námi, ala upp börn, vinna að framanum, eiga tipp topp heimili, vera í ræktinni, helst í einhverjum klúbbum og sinna góðgerðarmálefnum. Stöðug pressa sem aldrei tekur enda og gerir okkur erfitt fyrir að losa um streituna á eðlilegan hátt.

Til að ná tökum á streitunni er mikilvægt að vera meðvitaður um og tileinka sér heilbrigða lífshætti og venjur. Borða hollan mat, fá góðan nærandi svefn, fá útrás fyrir streituna og stunda reglulega hreyfingu og teygjur, stunda slökun, setja sér raunhæf markmið og ná góðri stjórn á því sem við getum stjórnað.

Vinnuumhverfið breyta

 

Reynum að aðlaga umhverfið að okkur ekki öfugt! Notum hjálpartæki og stillanlega hluti í eins miklum mæli og mögulegt er. Það þarf ekki alltaf að umbylta og kaupa allt nýtt til að bæta vinnuaðstöðu. Notum hugmyndaflugið til að aðlaga umhverfið og notum það sem er til.


Sitjandi staða breyta

Ef unnið er lengi sitjandi er mikilvægt að hafa góðan stól sem er auðstillanlegur. Á góðum stól er auðvelt að stilla hæð, sætisdýpt, bakstuðning og auðvelt er að stilla setu þannig að hún halli fram. Góður stóll á hjólum þarf að vera stöðugur, hafa fimm arma, hjólin mega ekki renna mjög lipurlega og undirlagið þarf að henta það er veita smá mótstöðu. Stóllinn þarf að veita góðan stuðning við mjóbakið. Ef notast er við stólarma þarf að gæta þess að þeir séu í réttri hæð þar sem of háir armar keyra axlirnar upp og skapa spennu. Setstaðan skiptir líka máli, grunnsetstaða er þegar við sitjum eftir 90° reglunni það er mjaðmir, hné og ökklar eru í 90°. Við vinnum aðrar setstöður út fá þessari grunnsetstöðu og reynum að stilla okkur í grunnstöðuna nokkrum sinnum yfir daginn. Margir halda að nóg sé að stilla stólinn í eitt skipti fyrir öll þegar sest er í hann í fyrsta sinn, þetta er mikill misskilningur og mikilvægt að kynna sér vel alla þá stilli möguleika sem stóllinn hefur upp á að bjóða og nota þá möguleika nokkrum sinnum á dag ef setið er lengi. Mikil kyrrseta er ekki æskileg og mikilvægt er að standa reglulega upp og gera hlé æfingar. Mikilvægt er að hver og einn læri á sinn stól og noti þá mögleika sem hann hefur upp á að bjóða. Til eru margar gerðir af stólum og mismunandi stólar henta við mismunandi verk: Skrifstofustólar, vinnustólar, hnakkar, letingjar, hægindastólar o.fl..

Spurningar breyta

Spurningar tengdar efni síðunnar eru í formi krossaprófs sem unnið er í Hot Pototos smellið á tengilinn til að taka prófið: Krossapróf

Heimildir breyta