Viðey/Kvæði um Viðey eftir Guðmund Friðjónsson frá Sandi

Viðey breyta

Höfundur Guðmundur Friðjónsson frá Sandi

Álfröðull Ægissund
eldar og brosir við;
kveldblær með léttri lund
leikur um fiskimið
Umhverfis æða-storð
andvari hvíslar hljótt;
ljóðrænt er ljúflings orð:
"landvættur, góða nótt!"


Utan frá Ægishöll
ómurinn berst um fold.
Verður þá viðkvæm öll
Viðeyjar kjarna-mold.
Bókmenta veglegt ver
vaknar af alda blund..
Augnablik inn í sér
eilífan helgilund.


Þar hefir þjóðar sál
þrifist umi tíma-bil.
ornuð við arinbál
augum rent himins til.
Fást þar við fræði sín
fornaldar dís var hent.
Umbreytti vatni í vín
Viðeyjar klausturment.


Tungunnar laugalind
liggur við klausturgrunn.
Lúterska bræði-blind
bókvísi sló á munn
Hjartsláttur Helgafell
heitur og mikill greip,
Þingeyrum þungan féll
þjóðernisleysu geip.


Út gekk eg aftans stund,
athygli á flugi var —
skundaði á Skúla fund,
skörungs, er hvílir þar.
Steinsúla stendur ein;
stórskorinn afreksmann
verndar þar vegleg, hrein,
veðurnæm eins og hann.
Þjóðrækni dul og djúp
drúpir við falinn eld.
Inn undir hulinshjúp
hún leitar nú í kveld
Menta og minja ver,
mannrauna og kosta storð,
Verðandi veiti þér
víðförult sæmdar orð.
Hirti sem helgan dóm
höndin í klausturbygð
dvergasmíð, Heimis hljóm,
heiðninnar snild og dygð,
aldræna sögusögn,
Sólarljóð, Hávamál,
himnanna huldu mögn,
heimfúsa, skygna sál.


Angandi minja mold
Mímisbrunn á í sér.
Fræðímunks heilagt hold
hugmyndum frjómagn ber.
Ljómaði um listræn kveld
ljós undir vígðum skjá;
þann geymir andans eld
eyjan við sundin blá.


Menning, er merlar sig,
mengug en snoppugylt
ráfar um refilstig
ringluð og áttavilt. —
Viðri um vaðberg þín,
Viðey og Helgafell,
eilifri sólarsýn;
sveipi ykkur skikkjupell.


Mold sem er málstirð hér —
menningar Völuspá
verði nú þulin þér,
það kvæði hlýði eg á.
Þá væri Skúla skuld
skilað á réttan hátt. —
Viðeyjar hljóðu huld
helgaðu, bjarta nátt!

Heimild breyta