Upplýsingatækni/Að nota skákvefinn Lichess

Lichess

Lichess www.lichess.org er opinn vefur þar sem lögð er áhersla á skákíþróttina í einföldu og afar aðgengilegu kerfi. Alls engrar skráningar er krafist og hvergi beðið um peningaframlag. Vefinn má nota með nær öllum vöfrum sem til eru. Kóðinn fyrir vefinn er opinn og notendur hvattir til setja mark sitt á hann. Búið er að þýða vefinn á 23 tungumál og fer þeim fjölgandi.

Menntunargildi skákar

Skáklistinni hefur gjarnan verið lýst sem hugans íþrótt og ævintýr. Löng hefð er fyrir taflmennsku á Íslandi og tengsl íþróttarinnar við skólastarf mikil. Skákin sameinar m.a. rökhugsun, talnavinnu og hugkvæmni eins og vikið er að í aðalnámsskrá grunnskóla. Fyrir skóla sem vilja kynna skákíþróttina fyrir nemendum sínum þá er Lichess vefurinn ljómandi fínn kostur.

Leiðbeiningar

Markmið kennara ráða mestu um notkun vefsins. Lichess gagnast vel hvort sem verið er að kynna skák fyrir byrjendum eða vinna með lengra komnum í tengslum við annað námsefni. Sjálfur vefurinn er eins einfaldur og hugsast getur; vefurinn er opnaður og smellt á Play with the machine því næst á Start og skákin er byrjuð. Skráning nemenda getur verið ágæt þegar nota á vefinn í hópkennslu; hún fer þannig fram að hver nemandi slær inn notendanafn að eigin vali og lykilorð, málið afgreitt.

Í boði er hefðbundin skák við forritið á mismunandi styrkleikastigum, svo og 960 Bobby Fischer skákafbrigðið. Notendur geta keppt við aðra notendur og fylgjast má með skákum annarra. Þannig gæti vefurinn t.d. nýst í skólum til sýnikennslu í skák þar sem skjávarpi er eða allir með tölvu. Á vefnum er nokkuð gagnlegt svæði þar sem finna má svör við algengum spurningum um skák. Einnig er hverjum sem er frjálst að setja fram spurningar þar og svörun virðist nokkuð skilvirk.

Verkefni fyrir nemendur

Námstengd verkefni sem vinna mætti á vefnum eru fjölbreytt. Að læra mannganginn og nokkrar algengar byrjanir væri í sjálfu sér verðugt námsefni. Nokkrar grunnreglur í endatafli eru sömuleiðis lykillin að framþróun byrjenda í skák. Skák er yfirleitt kennd í tengslum við stærðfræði, en þessi vefur býður upp á ýmislegt annað, t.d. gæti vinna í hinum opna kóða vefsins nýst í tölvukennslu. Þýðing á vefnum gæti nýst í tungumálakennslu og fleira má til telja. Áhugavert gæti verið að láta nemendur sem kunna eitthvað í skák kenna þeim sem lítið eða ekkert kunna. Þetta ræðst þó af aðstöðu hverju sinni; þ.e. hvort nemendur hafi allir tölvu fyrir framan sig o.s.frv.

  • Læra mannganginn. Nemendur gætu, hver á sinni tölvu, fylgst með kennaranum fara yfir grunnreglurnar í skák og mannganginn.
  • Þýða vefinn. Kennari gæti lagt hluta vefsins fram fyrir nemendur til þýðingar á íslensku.
  • Koma með breytingatillögu í kóða. Í tölvukennslu gætu nemendur komið með tillögur að bættum vef í gegnum opna kóðann.
  • Fá nemendur til að reikna hve mörg byrjunaruppstillingar eru til af Bobby Fischer skákafbrigðinu.
  • Skipuleggja mót fyrir nemendur, eftir Monrad kerfinu.