Upplýsingatækni/Að nota chesspuzzles

Efni: Skákkennsla


Heimasíða: http://chesspuzzles.com


Vefurinn chesspuzzles.com er hannaður af John Bain, bandarískum gagnfræðaskólakennara sem hefur kennt skák um árabil. Skákkennsla hefur aukist á Íslandi síðustu ár, ekki síst í Reykjavík. Ein meginástæðan fyrir því er tilkoma Skákakademíu Reykjavíkur sem heyrir beint undir borgarstjórn. Markmið Skákakademíunnar er að skák sé kennd í öllum skólum borgarinnar á einn eða annan hátt. Kennslan fer fram með ýmsu móti en tölvutækni getur auðveldað skákkennslu og gert hana skilvirkari þannig að hver kennslustund nýtist sem best í sjálfa kennsluna og að heimanám verði sem skilvirkast. Þessu vefur sem kynntur er hér, býður einmitt upp á slíka möguleika. Vefurinn er einfaldur; á honum eru skákþrautir sem leystar eru og kemur strax tilkynning hvort að um rétta lausn hafi verið að ræða. Hægt er að velja um mát í einum leik, mát í tveimur leikjum eða mát í þremur leikjum.

Leiðbeiningar við að leysa skákþrautirnar

Skákþrautirnar birtast á forsíðunni. Hægt er að velja um mát í einum, tveimur eða þremur leikjum. Þegar búið er að ákveða þraut er tvíklikkað á hana og hún stækkar. Til að hreyfa taflmann skal smella á hann og reitinn sem hann á að fara á. Ef um réttan leik er að ræða kemur fram að máti hafi verið náð. Ef um rangan leik var að ræða tilkynnir forritið það og biður mann um að reyna aftur. Þegar valið er mát í tveimur eða þremur leikjum kemur forritið sjálft með svarleiki. Þegar maður hefur svarað rétt getur maður sent inn lausn sína og átt möguleika á vinningum sem dregnir eru út vikulega.

Fyrir kennara

Nýjar skákþrautir birtast á hverjum degi. Þessi vefur nýtist því vel í heimanámi í skák. Heimaverkefnið gæti verið að leysa allar þrjár þrautirnar hvern dag og senda kennara sínum réttar lausnir í e-meili. Þannig gæti kennarinn fylgst með hvort að nemandinn hafi sinnt sinni heimavinnu. Kostir heimavinnunnar væru að með þessu móti yrðu nemendur virkir dag hvern í skákinni. Þeir myndu því sífellt vera að reyna við skákþrautir og ekki missa dampinn í sinni skákástundun þar sem skák er yfirleitt bara kennd einu sinni í viku. Þetta gæti einnig skapað jákvæða samkeppni milli nemenda að standa sig í skákþratunum og svara þrautunum dag hvern. Kennarinn gæti verið með umbun fyrir þá sem senda svar til hans sem oftast; til dæmis að fá sæti í skákliði skólans sem teflir við aðra skóla.