Frá Indriða Viðar
Upphlutur dregur nafn sitt af bol sem notaður var undir gamla 18. aldar kvenbúninginn og einnig undir eldri gerðina af peysufötum. Teiknuð mynd frá miðri 19. öld sýnir meðal annars konu sem ber upphlut yfir ljósleita skyrtu.

Pilsið við 19.aldar upphlutinn mun hafa verið úr svörtu vaðmáli og skyrtan oftast úr ljósum ullardúk. Upphluturinn var og er enn aðskorinn, ermalaus, fleginn bolur með breiðum hlýrum yfir axlir. Bolurinn er reimaður saman að framan með festi sem er þrædd í lykkjur á smáum skreyttum doppum úr málmi, oftast silfri og nefnast doppurnar millur. Á 19. öld var upphluturinn úr ullarefni eða flaueli, grænn, blár eða rauður, stundum svartur og skreyttur með þrem leggingum á baki og einnig leggingum yfir axlasauma. Vírborðar eða baldering er á sitthvorum boðangi að framan.
Sigurður Guðmundsson málari
Sigurður barðist fyrir endurnýjun kvenbúningsins, teiknaði fyrir silfursmíð og útsaum. Sagði hann í grein sem kom út í Nýjum Félagsritum 1857 að tilgangur þjóðbúningsins væri að vera til gagns og fegurðar. Segir hann í því sambandi að Íslendingar eigi að leggja áherslu á að geta sýnt erlendum ferðamönnum m.a. með búningi sínum að þeir séu ,,ekki þrælættar, eða líkir förumönnum, heldur væru þeir afkomendur hinna gömlu Norðmanna höfðingja“, og bæru ,,klæðnað þeirra hver eftir sínum efnum.“ Einnig segir hann að íslenskur klæðnaður sé farinn að breytast, og að „menn verði að gæta þess, að betur fari, þá breytt er, en ekki taka báðum höndum móti öllu útlendu.“
Breytingar í tímans rás Á 20. öldinni breyttist efnisnotkun í upphlutinn, líkt og gerðist með peysufötin. Pilsin voru ýmist úr svörtu klæði, silki eða efni sem líktist silki og upphluturinn sjálfur hafður svartur og úr svipuðu efni og pilsið. Farið var að nota léreft í skyrturnar. Skreytingarnar breyttust. Farið var að silki- eða vírsauma á borða sem festir voru á boðanga í stað vírborðanna. Í stað prjónuðu skotthúfunnar var tekin upp skotthúfa sem saumuð var úr flaueli. Þegar úrval skrautlegra gerviefna bauðst í verslunum upp úr miðri 20. öldinni var farið að nota slík efni í skyrtur og svuntur við upphlutinn. Á seinni hluta 20. aldar dró úr notkun gerviefna.
Um aldamótin 2001 einkennast viðhorf til búningsins af viðleitni til stefnufestu. Í upphlutsbúning er nú notað vandað svart ullarefni í pilsið og upphlutinn og hvítt bómullarléreft eða silki í skyrtuna. Upphluturinn er skreyttur leggingum úr flaueli og knipplingum úr málmvír á baki og á boðöngum eru borðar sem eru skreyttir með balderingum eða víravirki. Húfan er prjónuð úr fínu svörtu ullarbandi eða saumuð úr flaueli. Í svuntu er farið að nota léreft eða silki, röndótt, köflótt eða einlitt í stað gerviefna. Við þennan búning eru notaðir svartir ullarsokkar og látlausir svartir skór.

Indriði Viðar