Um ræktun túngrasa

<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Ingibjörg Björnsdóttir


Gamalt máltækir segir "Búskapur er heyskapur" og enn er það þannig að tæplega komast menn í

góðbænda tölu nema að hafa góð tök á grasrækt og heyöflun.

Íslenskur landbúnaður byggist einkum á grasrækt. Þar sem búfé getur aðeins gengið sjálfala nokkurn hluta ársins er nauðsynlegt að safna fóðurforða fyrir veturinn, svo skepnurnar dafni og skili ásættanlegum afurðum. Heyöflun er því undirstaða búskapar hér á landi og á henni veltur matvælaframleiðsla landbúnaðarins.

Fram á síðustu öld nærðist búfé nær eingöngu á beit og útheyi. Talað er um úthey ef heyið er upprunnið utan ræktaðs túns, svo sem engjum eða úthaga. Það hey sem fæst af túnum er kallað taða. Þar sem engjaheyskapur tíðkast ekki lengur heyrist þessi aðgreining sjaldan og í dag aðeins talað um hey. Túnrækt hefur verið stunduð á Íslandi allt frá landnámsöld, en í smáum stíl þangað til ræktunarbyltingin hófst á snemma á síðustu öld.


Túngrösin eru nokkur og misgóð til ræktunar.

Vallarfoxgras er einna algengast/vinsælast. Þetta er innflutt tegund sem þrífst best í frjóum, rökum moldarjarðvegi. Það víkur fyrir öðrum grastegundum ef framræsla er léleg eða lítið borið á af áburði. Vallarfoxgras þolir beit illa og ending þess í túnum er misjöfn. Þetta er eitt uppskerumesta grasið. Heyið er lystugt og orkuríkt miðað við önnur grös, ef það er slegið við skrið. Mynd: Vallarfoxgras

Vallarsveifgras er upprunalegt í flóru Íslands og þess vegna gamalgróið túngras. Það gerir ekki miklar jarðvegskröfur. Það þolir beit vel og er eftirsótt beitarplanta. Það er lágvaxið en getur gefið drjúga uppskeru. Það hefur ágætt fóðurgildi um skrið, er steinefnaríkt og getur gefið góða uppskeru úr seinni slætti.

Túnvingull er einnig gamlagróið íslenskt gras og mikið notaður í uppgræðslu. Hann vex bæði í illa framræstum túnum og þurrum sandatúnum. Hann þolir beit vel, en er ekki eftirsótt beitarplanta. Hann getur gefið góða uppskeru og er næringar- og steinefnaríkur ef hann er sleginn á réttum tíma.

Snarrótarpuntur hefur lengi verið algengur í íslenskum túnum. Hann vex við ýmis skilyrði og þolir vel svell. Snarrót er uppskerumikil en helst þarf að slá hana hálfskriðna ef fóðurgildi á að vera sambærilegt við bestu túngrös. Snarrótin er ekki vinsæl beitarplanta. Nær alltaf sér hún sjálf um að koma sér í tún og þá einkum ef önnur grös hafa látið undan síga.

Margar aðrar plöntutegundir vaxa í túnum. Þær eru hins vegar flestar óvelkomnar í samfélag túngrasanna að mati ræktandans. Til dæmis má nefna knjáliðagras, varpasveifgras, brennisóley, túnsúru, túnfífil og arfa. Þetta eru ekki uppskerumiklar tegundir en geta þó orðið talsverður hluti uppskerunnar. Þegar einhverjar af þessum tegundum eru farnar að verða áberandi eða ráðandi í túnum þyrfti að fara að huga að endurvinnslu þeirra.


Það er háð þeim grastegundum sem eru ríkjandi í túninu hvenær best er að slá. Vallarfoxgras, sem mest er af á nýræktuðum túnum nær sláttuþroska talsvert seinna en hinar tegundirnar. Þessi tún ættu því helst að bíða, en eldri tún með öðrum grastegundum ættu að ganga fyrir ef nást á úrvalshey. Hins vegar er það þannig að ef eldri tún eru slegin um skrið fæst ekki mjög mikil uppskera. Þann mun má hins vegar jafna með því að slá aftur seinna um sumarið.

Grundvöllur góðra heyja er gott og næringarríkt gras, slegið á réttum tíma. Til að fá næringarríkt hey þarf jarðvegurinn að vera mjög frjósamur. Það þarf að vera vel borið á svo nóg verði af næringarefnum í grasinu. Til að tryggja öll nauðsynleg næringarefni er gott að bera búfjáráburð á hvert tún með nokkurra ára millibili. Með góðri verkun á vel ábornu grasi má fá úrvals hey -ef slegið er á réttum tíma.

Heygæðin eru yfirleitt metin út frá tveimur þáttum: efnainnihaldi og lostæti heysins. Með efnainnihaldi er átt við orkugildi þess, mælt í fóðureinigum í kílói og hversu ríkt það er af próteinum og steinefnum. Með því að taka heysýni og láta efnagreina þau fær bóndinn góðar upplýsingar um efnainnihaldið Lystugleika heysins er erfiðara að meta, en það er fjölmargt sem hefur áhrif á hversu duglegar skepnurnar eru að éta heyið. Þar má t.d nefna: grastegund, grófleika heysins, verkun (lykt, lit, sýrustig) og hreinleika og ferskleika heysins.


Heimildir:

Fóðurjurtir, Gísli Kristjánsson og Ingólfur Davíðsson.

Fóðurrækt, 1990. Árni Brynjar Bragason. Bændaskólinn á Hvanneyri.

Glósur úr tíma í fóðurrækt árið 2000 við Bændaskólann á Hvanneyri.

Myndir: úr einkasafni og mynd af Vallarfoxgrasi tekin af síðunni: http://is.wikipedia.org/wiki/Vallarfoxgras


Ítarefni breyta

Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: