Tölvunarfræði/Höfundarréttur

Almennt um höfundarétt

breyta

Íslensku höfundalögin (73/1972, 29. maí) veita öllum höfundum að bókmenntaverkum eða öðrum listaverkum eignarrétt á þeim. Höfundur verks á rétt á því að ákveða hvernig verk hans er notað. Í aðalatriðum gilda sömu reglur um höfundarétt á verkum á Netinu og á öðru formi. Verk sem birtast á Netinu er einungis heimilt að lesa af skjá samkvæmt íslensku höfundalögunum.

Útprentun, geymsla, áframsending eða önnur notkun efnisins er því óheimil nema til komi ótvírætt samþykki rétthafa eða sérstök lagaheimild. Ekki er leyfilegt að nota texta annarra á eigin vefsíðu nema geta heimildar. Nota má tengla á aðrar vefsíður án þess að fá fyrir því leyfi ef það er greinilegt að með því að smella á tengilinn flyst viðkomandi yfir á aðra vefsíðu. Sé efni á rafrænu formi gert aðgengilegt fyrir hvern sem er á Netinu er eðlilegt að líta á það sem opinbera birtingu. Opinber birting er skilgreind þannig í 2. gr. höfundalaga: „Verk telst birt, þegar það er með réttri heimild flutt eða sýnt opinberlega eða eintök af því hafa verið gefin út ... " Höfundaréttur gildir í 70 ár eftir andlát höfundar. Fram að þeim tíma má ekki sýna verk eða dreifa því án leyfis höfundar eða erfingja hans.

Takmarkanir á höfundarétti

breyta

Í íslensku höfundalögunum 2. kafla, 11. grein eru nokkrar undantekningar:

  • Heimilt er að gera eintök af birtu verki til einkanota eingöngu.
  • Eiganda eða lögmætum notanda eintaks af tölvuforriti er heimil gerð eintaka af forritinu þar á meðal til gerðar vara- og öryggiseintaka sem honum eru nauðsynleg vegna nýtingar þess.
  • Menntamálaráðuneytið hefur gert samninga við Fjölís, sem er hagsmunafélag samtaka sem koma fram fyrir hönd rétthafa, og fela þeir meðal annars í sér að kennarar hafa leyfi til að ljósrita gögn til að nota í kennslu. Aðeins má ljósrita stutta þætti úr hverju riti, 20% hið mesta, þó aldrei meira en 30 bls. Á ljósritinu þarf að koma fram úr hvaða verki er ljósritað.

Ákveða má í reglugerð að skjala- og bókasöfn hafi leyfi til að ljósmynda verk til eigin nota. Alþjóðlegt samstarf er að aukast til að vernda höfundarétt.

Creative Commons / CC

breyta
 
cc

Creative Commons eða CC er safn af leyfisskilmálum sem höfundar geta sett á hugverk sín og með því leyft öðrum að nota verkin svo framarlega sem skilmálarnir eru virtir. Þá má, í stað þess að setja sig í samband við höfund verks, sjá með einföldum og myndrænum hætti hvernig má nota verkin. Þá er sett CC merki neðst á vefsíðu og með því að smella á merkið fást nánari upplýsingar um CC höfundarleyfi viðkomandi vefsíðu. Creative Commons notar ákveðin tákn fyrir hvers konar leyfi höfundarréttarhafi veitir.

  • Höfundar getið (BY-Attribution). Í öllum Creative Commons leyfum er gerð sú krafa að þegar verk eru notuð er höfundar getið. Þetta er kallað “BY” skilyrðið, og er gert til að tryggja að allir viti hvaðan verkið kemur.
  • Ekki í hagnaðarskyni (NC – non-commercial). Þessi takmörkun kveður á um að þeir sem nota verkið megi ekki hafa fjárhagslegan ávinning af því. Þetta þýðir að þú einn sem skapari verksins mátt græða pening á því, nema þú gefir öðrum sérstakt leyfi til þess.
  • Engar afleiður (ND – No derivatives). Þessi takmörkun segir að það megi ekki búa til ný verk sem byggja á verkinu þínu án þess að biðja um leyfi fyrir því sérstaklega. Þá má til dæmis ekki endurblanda lag eða nota það í kvikmynd, en það mætti þó deila því áfram í óbreyttri mynd.
  • Deilist áfram (SA – Share alike). Þessi takmörkun segir að þeir sem búa til afleidd verk úr þínu verki eru skyldugir til að leyfa öðrum að deila áfram undir sömu skilmálum. Þannig geturðu tryggt að öll verk sem byggja á þínu frjálsa verki verði frjáls áfram.

Úr þessum takmörkunum er hægt að búa til sex mismunandi leyfi. Í röð frá því frjálsasta yfir í það mest takmarkandi eru þau:

  • BY
  • BY-SA
  • BY-NC
  • BY-ND
  • BY-NC-SA
  • BY-NC-ND

Höfundaréttur hugbúnaðar

breyta

Grundvallaratriði er að virða höfundarétt hugbúnaðar. Leyfi þarf að vera fyrir hverjum þeim hugbúnaði sem notaður er eða afritaður. Á Netinu er hægt að nálgast ýmiss konar hugbúnað, bæði gegn gjaldi og frítt og er hann þá sóttur með því að hlaða honum niður (e. download) og vista á hörðum diski tölvunnar. Allur hugbúnaður er verndaður af höfundarrétti nema annað sé tekið fram. Ef um opinn eða frjálsan hugbúnað að ræða er þess sérstaklega getið.

Opinn kóði / Open Source

breyta
 
opensource

Opinn kóði er vísun í heimspekilegt fyrirbæri þar sem þekkingu og tækni er dreift frjálst til almennings. Þessi dreifing innan samfélags jafningja er ekki ný af nálinni og þar mætti nefna hvernig mataruppskriftir hafa gengið frá manni til manns svo öldum skiptir.

Opinn kóði er samheiti yfir forrit þar sem kóðinn er ókeypis fyrir almenning til að nota og/eða breyta eftir eigin þörfum. Opinn kóði er oftast samvinnuverkefni þar sem forritarar breyta og bæta kóðann og deila með öðrum á þar til gerðum vefsíðum. Þar sem enginn hagnast beint af dreifingu opinna kóða þá mætti segja að þetta sé svar tæknisamfélagsins við hugbúnaði stórfyritækja þar sem þau síðarnefndu græða á tá og fingri á kostnað smærri aðila í sama bransa.






Heimildir

breyta

http://www.upplysing.is/upplysingalaesi/kafli7/kafli7.htm
http://wayback.vefsafn.is/wayback/20120810151757/www.saft.is/hofundarrettur/
http://www.stef.is/STEF/Hofundarrettur/
http://www.hagthenkir.is/sida.php?id=465
http://www.creativecommons.is/
http://www.ut.is/fraedsla/hugtok/
http://en.wikipedia.org/wiki/Open_source



Unnið af Maggý Helgu Jóhannsdóttur Möller og Perlu Þrastardóttur