Styrking og refsing

Höfundur Kristey Lilja Valgeirsdóttir

Þessi wikibók fjallar um tvö hugtök úr sálfræði, styrkingu og refsingu. Útskýrð verða tvær tegundir styrkinga og tvær tegundir refsinga.

B.F. Skinner

Styrking

breyta

Hugtakið styrking kemur úr kenningum sálfræðingsins B.F. Skinner um virka skilyrðingu, en það þýðir að viðbrögð í kjölfar hegðunar auki líkurnar á að hegðun eigi sér aftur stað. Styrking viðheldur þannig eða eykur hegðun. Til eru tvær tegundir af styrkingu, annars vegar jákvæð styrking (e. positive reinforcement) og hins vegar frástyrking (e. negative reinforcement).

Jákvæð styrking

breyta

Í jákvæðri styrkingu er eftirsóknarvert áreiti, t.d. umbum, birt í kjölfar hegðunar og hún eykst þá eða viðhelst. Afleiðingarnar eru að einstaklingur fær það sem hann vill.

   Dæmi: Barni er hrósað strax eftir að það gengur frá leikföngunum sínum. 

Með því að hrósa barninu og styrkja þannig viðeigandi hegðun er mun líklegra að barnið eigi eftir að framkvæma sömu hegðun aftur. Jákvæð styrking er áhrifaríkust þegar hegðun er styrkt strax í kjölfar að hún gerist.

Tegundir styrkja

breyta
 

Til eru tvær tegundir styrkja, annars vegar frumstyrkir (e. primary reinforcement) t.d. matur, vatn, svefn og umhyggja, og hins vegar skilyrtir styrkir (e. conditioned reinforcement) þar sem hlutlaust áreiti er parað saman við annan styrki. Til dæmis eru hrós eða nammi frumstyrkir fyrir þjálfaðan hund, en sé tæki sem gefur frá sér klikk hljóð parað við frumstyrkina fer klikk hljóðið eitt og sér að verða skilyrtur styrkir. Frumstyrkir og skilyrtir styrkir koma alltaf á eftir hegðun viðkomandi.


Frástyrking

breyta

Í frástyrkingu er áreiti fjarlægt og þar af leiðandi eykst hegðun. Áreiti geta kallað fram einhvers konar líkamleg eða andleg óþægindi og er hegðun frástyrkt þegar viðkomandi er leyft að forðast (e. avoidance) áreitið sem er til staðar eða flýja (e. escape) það áður en það birtist.

   Dæmi: Kennari sleppir nemendum við að taka próf í lok vikunnar ef nemendur skila allri heimavinnu fyrir vikuna.

Með því að fjarlægja prófið (áreiti) er líklegra að nemendur skili inn heimavinnu.

Refsing

breyta

Hugtakið refsing birtist einnig í kenningum B.F. Skinner um virka skilyrðingu, en þá er fráreiti (e. aversive stimulus), eitthvað sem manneskja forðast, birt í kjölfar hegðunar og þar af leiðandi eru minni líkur á að sú hegðun eigi sér stað aftur í framtíðinni. Refsing getur verið árangursrík til að minnka hegðun í sumum tilfellum en til eru dæmi þar sem refsing dregur ekki úr hegðun, til dæmis fangelsi. Til að ná árangri með refsingu þarf að refsa í hvert einasta skipti sem óæskileg hegðun á sér stað. Talað er um tvær gerðir af refsingum sem draga úr hegðun eða verða til þess að hegðun hverfi. Annars vegar er það jákvæð refsing (e. positive punishment) og hins vegar sekt (e. negative punishment).

Jákvæð refsing

breyta

Jákvæð refsing felur í sér að fráreiti er birt í kjölfar hegðunar og tíðni hennar minnkar eða hverfur alveg. Fráreitið eða afleiðingin færir einstaklingnum eitthvað sem hann vill ekki.

   Dæmi: Hundur læsir klónum í fótlegg einstaklings sem slær hann strax eldsnöggt í afturhlutann til að hundurinn geri þetta ekki aftur. 

Jákvæð refsing getur einnig komið fram sem náttúruleg afleiðing af hegðun. Sem dæmi um slíkt er snerting á heitri eldavél eða beittum hlut sem geta valdið sársaukafullum meiðslum og verða til þess að viðkomandi sýnir meiri varkárni í návist slíkra hluta í framtíðinni.

Sekt er þegar eftirsóknarvert áreiti er tekið í burt í kjölfar hegðunar og tíðni hennar minnkar eða hverfur alveg. Þá er um að ræða missi fyrir einstaklinginn.

   Dæmi: Barn lemur leikfangabíl sem það hefur gaman að stöðugt í vegg og bíllinn er tekinn af barninu. Þegar bíllinn er tekinn af því er líklegt að í framhaldinu fari hegðunin minnkandi.

Sekt virkar best þegar áreitið er tekið strax í burtu eftir óæskilegu hegðunina og þegar henni er beitt á samræmandi hátt. Það myndi til dæmis ekki skila miklum árangri að taka leikfangabílinn af barninu tveimur klukkustundum eftir að það sló honum í vegginn. Einnig virkar ekki vel að taka bílinn stundum af barninu en leyfa því að lemja honum í vegginn í önnur skipti. Mikilvægt er að taka bílinn af barninu í hvert skipti til að auka líkurnar á að þessi hegðun minnki og hætti að lokum.

Spurningar

breyta
 1. Hvaða fræðimaður kom fram með hugtökin styrking og refsing?
 2. Hverjar eru tvær tegundir styrkinga?
 3. Nefnið dæmi um frumstyrk.
 4. Hvort eykst eða minnkar hegðun við frástyrkingu?
 5. Nefnið dæmi um refsingu sem virkar ekki alltaf.
 6. Hvað þarf að gera til að ná árangri með refsingu?
 7. Hver er árangursríkasta leiðin við að beita sekt?

Krossaspurningar

breyta

1 Í hvaða kenningu B.F. Skinner koma hugtökin styrking og refsing fyrir?

Kenningunni um styrkingar og refsingar
Uppeldiskenningunni
Kenningunni um virka skilyrðingu
Kenningunni um þjálfun dýra

2 Súkkulaði er dæmi um?

Frumstyrk
Nammistyrk
Skilyrtan styrk
Andlegan styrk

3 Í ________ er áreiti fjarlægt og þar af leiðandi eykst hegðun.

Jákvæða refsingu
Jákvæðri styrkingu
Sekt
Frástyrkingu

4 Hundur er sleginn strax í afturhlutann eftir að hafa bitið mann í fótlegginn. Þetta er dæmi um _______.

Jákvæða refsingu
Jákvæða styrkingu
Sekt
Frástyrkingu

5 Barni er hrósað strax eftir að það gengur frá leikföngunum sínum. Hver er styrkirinn í þessu dæmi?

Ganga frá leikföngunum
Hrós
Hreint herbergi
Losna við kvart frá foreldrum


Heimildir

breyta