Þá er kvefveikin gekk 1894 lagðist í henni Jón nokkur sem kallaður var "í brókinni". Hann átti heima austur í Landeyjum, en var þá vermaður að Stafnesi. Jón var hræddur um, að hann mundi deyja og bað annan sjómann að sækja handa sér meðul til Keflavíkur. Annaðhvort var, að maður þessi neitaði að fara, eða honum dvaldist á leiðinni. Að minnsta kosti er víst um það, að Jón fékk aldrei meðulin og dó nálægt sumarmálum. Eftir það tók Jón að sækja að meðalamanninum og gekk ljósum logum. Maðurinn fór heim til sín, en aðsókninni linnti ekki við það. Jón kvað ganga um eins og grár köttur á Stafnesi enn í dag og einu sinni sást hann á ferð um Rosmhvalanes á meri sem hann hafði átt í lifanda lífi.

ÓLAFUR DAVÍÐSSON II 40