Sokkaprjón
Höfundur GDS9.
Á síðunni lærir þú helstu nöfn sokkahlutanna og þau atriði sem þarf að kunna í sokkaprjóni til að reikna út hlutföll svo sokkarnir samsvari sér og séu fallegir í laginu. Það kemur sér vel að kunna þetta til að geta prjónað sokka án hefðbundinna uppskrifta. Efni síðunnar er hentugt fyrir unglinga og aðra þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í að prjóna sokka án uppskrifta.
Sokkaprjón
breytaSokkar hafa verið prjónaðir víða í heiminum frá öldum áður. Rekja má upphaf prjóns til Egyptalands á 4. öld e.Kr. Á Íslandi byrjuðu menn að prjóna á 16. öld. Allir sem vettlingi gátu valdið prjónuðu, konur, karlar og börn. Á Íslandi prjónuðu menn bæði til eigin nota og útflutnings. Eitt af því sem fólk prjónaði voru sokkar. Á síðustu öld var algengt að fólk prjónaði sokka út frá hlutföllum á fimm prjóna.
Efnisval
breytaSokkar voru ávallt prjónaðir úr ull áður fyrr. Þá þæfðu menn sokkana til að gera þá sterkari og vatnsheldari. Nú er það sjaldan gert. En það þarf þó að hafa í huga endingu og notagildi sokkanna. Ef sokkar eiga að vera hlýir er nauðsynlegt að í þeim sé ullarband, að mestu eða öllu leyti. Alls konar ull er til sem nota má í sokka, allt frá óunnum plötulopa til ullar sem kallast „superwash“ sem er ull sem er meðhöndluð þannig að hún þolir þvott í þvottavél. Gallinn við ullina er þó sá að hún er frekar léleg í sokka og því þarf að hafa annað band með henni sem styrkir hana ef sokkarnir eiga að endast. Hægt er að nota sérstakt sokkaband sem venjulega er með um 75% ull og 25% styrktarþræði.
Prjónar
breytaSokkar eru oftast prjónaðir á sokkaprjóna sem eru fimm prjónar. Prjónastærðin er valin eftir grófleika garnsins. Oftast er gefið upp á garndokkunum ákveðin prjónastærð sem hæfir grófleika bandsins og oftast munar heilu númeri á stærðunum. Bæði er það vegna þess að fólk prjónar misfast og einnig vegna þess að prjónfesta á að vera mismunandi á mismunandi flíkum. Þegar sokkar eru prjónaðir er betra að halda sig við lægstu stærðina sem gefin er upp og fá þannig þétta og góða sokka.
Helstu hlutar sokksins
breytaSkipta má hlutum sokkaprjónsins nokkra hluta. Algengt er að tala um stroff, uppleista, hæl, framleista úrtökukafla og tá.
Stroff
breytaOftast eru sokkar prjónaðir ofan frá og niður, þ.e. frá stroffi að tá er uppfitið. Þegar fitjað er upp þarf að gæta þess að ekki sé fitjað upp of fast. Sumir nota tvo prjóna í uppfitið. Margs konar uppfit eru til sem gefa mismikla teygju. Algengt er að fitja upp með húsgangsfit en eistneskt uppfit gefur mikla teygju og hentar því vel í sokka. Þegar búið er að ákvarða hversu margar lykkjur á að fitja upp, fitja margir upp einni lykkju meira en þarf og steypa henni síðan yfir fyrstu lykkjuna áður en byrjað er að prjóna til að tengja saman.
Lykkjunum sem fitjaðar eru upp er skipt á fjóra prjóna og prjónað er með þeim fimmta. Ef í sokkum eru 48 lykkjur er þeim skipt jafnt á milli prjónanna og hafðar 12 lykkjur á prjóni. Síðan er stroffið prjónað, ýmist með tveimur sléttum lykkjum og tveimur brugðnum til skiptis eða einni og einni. Lengd stroffsins á að vera jafn margar umferðir og lykkjurnar sem fitjaðar voru upp.
Uppleisti
breytaÁ eftir stroffi kemur sléttur kafli þar sem prjónaðar eru jafn margar umferðir og fjöldi þeirra lykkja sem eru á hverjum prjóni.
Hæll
breytaHægt er að prjóna margs konar hæla og þar skiptir smekkur máli. Algengastir eru líklega Halldóruhæll, franskur hæll og totuhæll sem er hæll sem er prjónaður eins og táin. Allir hafa þeir kosti og galla. Halldóruhæll og franskur hæll gefa færi á að hafa úrtökukafla á eftir hælnum sem gerir það að verkum að sokkarnir fara betur á fæti. Hæll sem er eins og táin hefur þann kost að mjög auðvelt er að prjóna nýjan ef gat kemur á hælana. Halldóruhæll og franskur hæll er prjónaður frá fyrstu tveimur prjónunum, fram og til baka en totuhæll í hring.
Úrtökukafli
breytaÁ eftir hæl kemur úrtökukafli. Lykkjurnar á ristinni eru áfram þær sömu og áður en hafi verið prjónaður Halldóruhæll eða franskur hæll þarf að fækka umframlykkjum þar til þær eru orðnar jafn margar og fitjað var upp og voru á prjónunum áður en hæll var prjónaður. Það er gert með því að taka úr í annarri hverri umferð á ilinni á mótum iljar og ristar og láta hallann á úrtökunni vísa að ilinni.
Framleisti
breytaEftir úrtökur á að prjóna slétt prjón, þar til jafn margar umferðir hafa verið prjónaðar frá hæl og fitjað var upp, eða þar til búið er að prjóna þannig að sokkurinn nái að litlutá þess sem á að nota þá.
Tá
breytaÞegar tá er prjónuð á sokka er gerð úrtaka á hliðum. Þannig að tekið er út annars vegar þar sem fyrsti og fjórði prjónn mætast og hins vega þar sem annar og þriðji prjónn mætast. Milli úrtökuumferða eru prjónaðar umferðir án úrtöku. Misjafnt er hversu margar umferðir eru hafðar á milli en margir miða við að prjóna 3 umferðir milli fyrstu og annarrar umferðar, 2 að næstu úrtöku, síðan 1 og loks er tekið út í hverri umferð þar til 8 lykkjur eru eftir á grófum sokkum en 12 á sokkum úr fínu bandi. Þegar búið er að prjóna sokkinn og hann lagður saman við hæl eiga báðir endar að vera nákvæmlega jafn langir.
Frágangur
breytaþegar hæfilegur fjöldi lykkja er á prjónunum er bandið slitið frá þannig að það sé hæfilega langt til að ganga frá því. Bandið er þá þrætt í gegnum lykkjurnar og hert að og síðan er gengið frá endum á röngunni. Sumir vilja þó frekar lykkja saman lykkjurnar á il og rist.
Spurningar/Verkefni
breyta- Hvaða samhengi er á milli lykkja sem fitjað er upp og umferða sem prjónaðar eru á stroffi, uppleista og framleista?
- Hvaða kosti hafa Halldóruhæll og franskur hæll fram yfir totuhæl?
Krossapróf
breyta