Skyndihjálp
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema |
Höfundur: Þóra Jónsdóttir
Þetta er Wikibók um almenna skyndihjálp með áherslu á hjartahnoð og blástur. Ég tel efnið nýtast öllum þeim sem áhuga hafa á að kynna sér slíka hjálp og hentar því hvort sem er fyrir almenning og nemendur. Þess skal geta að þessi skrif koma ekki í stað námskeiðs í skyndihjálp og einungis brot af annars fjölbreyttum hliðum skyndihjálparinnar.
Skyndihjálp
breytaSkyndihjálp er eins og nafnið gefur til kynna veitt sem fyrsta hjálp við slösuðu eða bráðveiku fólki. Hún er aðeins bráðabirgðahjálp og kemur ekki í stað læknishjálpar. Að öllu jöfnu er það heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir veikum og slösuðum en oft getur liðið nokkur tími frá því að slys á sér stað eða að veikindi koma í ljós þar til næst í slíka hjálp. Vegna þessa er mikilvægt að sem flestir læri að veita skyndihjálp. Hafa ber í huga að sú skyndihjálp sem við veitum hlýtur að fara eftir þekkingu okkar og reynslu. Með því að læra almenna skyndihjálp eykur það hæfni okkar og getu til að bregðast við og ekki síst til að auka bata- og lífslíkur þess sem veikist eða slasast. Skyndihjálp getur skipt sköpum ef rétt er að henni staðið og getur hún m.a. aukið líkur á bata, dregið úr lengd sjúkrahúsvistar, dregið úr ýmsum afleiðingum slyssins eða sjúkdómsins og ekki síst skilið á milli lífs og dauða.
Í hverju felst almenn skyndihjálp?
breytaÞó svo að aðstæður í neyðartilfellum geti verið misjafnar má segja að grunnur skyndihjálparinnar sé sá hinn sami. Oft er talað um hin fjögur skref skyndihjálparinnar, þ.e. að tryggja öryggi, meta ástand hins slasaða, kalla til hjálp og veita viðeigandi skyndihjálp.
Fjögur skref skyndihjálpar:
1. Tryggja öryggi: Með því að tryggja öryggi hins slasaða, sín eigins og aðra nærstadda má koma þannig í veg fyrir frekara slys. Það getur falið m.a í sér að flytja hinn slasaða á öruggan stað t.d. ef um sprengjuhættu er að ræða. Aðvörunarþríhyrningur gegnir mikilvægu hlutverki þar sem slys á sér stað t.d. þar sem bílaumferð er auk þess að kveikja á neyðarljósum bíla. Einnig gæti þurft t.d. að stjórna umferð og drepa á bílum svo eitthvað sé nefnt.
2. Meta ástand hins slasaða: Tilgangur þess er að greina hvort um lífshættulegt ástand er að ræða eða ekki. Hægt er að tala til sjúklings, líta á og snerta. Ef fleiri en einn er slasaður getur þurft að forgangsraða þannig að hinir verst settu fái aðstoð fyrst. Aðstæður á vettvangi og umkvartanir slasaðra gefa strax góða mynd af ástandinu. Til að kanna meðvitund er m.a. hægt að kalla á, klípa í einstaklinginn, taka um axlir hans og hrista varlega. Ef hann svarar engu áreiti þarf að hringja strax í 112. Meðvitundarlausan einstakling skal leggja á hliðina til að tryggja opinn öndunarveg svo að vökvi, t.d. æla, geti lekið út um munninn. Við slys ber alltaf að hafa í huga háls- og hryggáverka og því þarf að styðja vel við höfuð og háls og forðast allt hnjask. Aldrei skal hika við að tryggja opinn öndunarveg. Ekki skal hreyfa slasaða að óþörfu.
3. Kalla eftir hjálp: Ef þörf er á neyðaraðstoð er hringt í Neyðarlínuna 112. Ef hjálparmaður er einn á slysstað skal hann fyrst veita þá neyðaraðstoð sem þörf er á, áður en hringt er. Ekki skal hringja í aðstandendur, sjúkrahús eða vini áður en hringt er í neyðarlínuna.
Til að stuðla að því að hjálp berist sem fyrst er mikilvægt að eftirfarandi upplýsingar komi fram í samtali við Neyðarlínuna 112:
- Hvað gerðist. Lýsa atviki og aðstæðum t.d. að þú hafir komið að meðvitundarlausum manni.
- Hvar varð slysið. Gefa upp eins nákvæma staðsetningu og möguleiki er á, s.s. heimilisfang, kennileiti á leiðinni, hæð ef um blokk er að ræða osfrv.
- Hver er slasaður og hvert er ástand hans. Til dæmis að einstaklingur liggur hreyfingarlaus og þú sjáir hann ekki anda. Einnig mikilvægt að greina frá þeirri skyndihjálp sem þú hefur þegar veitt.
- Hve margir eru slasaðir og eða virðast slasaðir. Mikilvægt að gefa upp fjölda slasaðra svo að rétt hjálp berist t.d. réttur fjölda sjúkrabíla, slökkvibíla osfrv.
- Mikilvægt er að halda sambandi við neyðarsímavörð og leggja ekki á nema hann biðji þig um það.
4. Veita viðeigandi skyndihjálp: Skyndihjálp skal reyna eftir bestu getu að veita á rólegan, yfirvegaðan og traustvekjandi hátt. Nálægð eins og að halda í hönd hins slasaða eða veika getur gefið traust. Viðeigandi skyndihjálp getur verið margvísleg s.s. stöðva blæðingu, kæla við bruna, veita blástus- og hjartahnoð. Hér á eftir er farið í grunnþætti hjartahnoðs og blásturs.
Hjartahnoð og blástur
breytaEndurlífgun getur skipt sköpum þegar upp koma öndunar- og hjartastopp. Þess má geta að hjartaáfall er algengasta dánarorsök á Vesturlöndum og því enn meiri ástæða til að kunna inn á fyrstu hjálp við endurlífgun. Það eykur til muna lífslíkur þess einstaklings sem fær hjartastopp utan sjúkrahúss, að hefja endurlífgun á honum sem allra fyrst.
- Mikilvægt er að kanna öndun ef einstaklingur bregst ekki við. Til að meta hvort öndun sé eðlileg er er hægt að að opna öndunarveg þar sem önnur hendin er lögð á enni viðkomandi, hin undir höku og höfuðið sveigt aftur. Oft er erfitt að sjá hvort viðkomandi andar og er þá hægt að leggja vangann við andlit einstaklingsins og horfa á hvort brjóstkassinn hreyfist. Einnig er hægt að hlusta eftir öndunarhljóðum með því að leggja eyra við munn einstaklingsins og reyna að finna/heyra hvort viðkomandi andar.
- Ef öndun reynist eðlileg skal helst setja einstakling í læsta hliðarlegu og fylgjast áfram með öndun hans.
- Ef engin viðbrögð eru til staðar og öndun óeðlileg skal strax hefja hjartahnoð með blæstri. Ef um börn er að ræða skal fyrst reyna endurlífgun í 1 mínútu áður en hringt er eftir hjálp.
Hjartahnoð: Krjúpa skal við hlið sjúklingsins. Báðar hendur (yfir hvor aðra) settar á miðjan brjóstkassa, með beinum handleggjum. Úlnliðir og olnbogar eiga að vera læstir og axlir beint yfir hnoðstað. Hnoða skal nokkuð hratt eða um 100 hnoð á mínútu. Það er aldurstengt hvar á einstaklingnum og hvernig eigi að veita hjartahnoð og blástur.
Hjartahnoð og blástur eftir aldri
breytaHjartahnoð og blástur 0-1 árs: Staðsetning: Á miðjum brjóstkassa - einni fingurbreidd neðan við geirvörtur. Nota skal tvo fingur - löngutöng og baugfingur. 100 sinnum á mínútu. Hnoðað 30 sinnum og blásið 2 sinnum, endurtekið eftir þörfum.
Hjartahnoð og blástur 1 árs til kynþroska: Staðsetning: Á miðjum brjóstkassa - á milli geirvartna. Nota skal þykkhönd - aðra höndina. 100 sinnum á mínútu. Hnoðað 30 sinnum og blásið 2 sinnum, endurtekið eftir þörfum.
Hjartahnoð og blástur Fullorðnir: Staðsetning: Á miðjum brjóstkassa - á milli geirvartna. Nota skal þykkhönd - báðar hendur. 100 sinnum á mínútu. Hnoðað 30 sinnum og blásið 2 sinnum, endurtekið eftir þörfum. Ef blásturinn heppnast ekki skal ekki dvelja þar við heldur fara strax aftur yfir í hjartahnoðið því mikilvægt er að halda blóðrásinni gangandi eins og kostur er.
Blástur: Öndunarvegur er opnaður með því að setja aðra hendi á ennið, höfðinu ýtt aftur og lyft samtímis undir hökuna með hinni hendinni. Munnfylli lofts nægir þegar blásið er og er annarri hendi áfram haldið undir höku á meðan hin heldur um enni og lokar fyrir nasir. Ef blástur heppnast ætti brjóstkassinn á hinum meðvitundarlausa að lyftast aðeins. Stundum þarf að sveigja höfuð aðeins betur aftur til að hleypa loftinu niður í lungu hins meðvitundarlausa. Yfirleitt dugar munn við munn aðferðin en í einstaka tilfellum gengur það ekki t.d. vegna áverka kringum munn, skorti á loftþéttum tengslum umhverfis munn, tannleysi ofl. Er þá reynd munn við nef aðferðin en þá er blásið í gegnum nef þess veika og munni hans haldið lokuðum með annarri hendi. Hins vegar verður að gæta þess að munnur hins veika sé opinn við útöndun.
- Þegar um ungabörn er að ræða getur munnur hjálparmannsins náð yfir bæði nef og munn.
Samantekt á grunnendurlífgun fullorðinna
breytaGrunnendurlífgun fullorðinna:
Bregst ekki við áreiti > Hrópa á hjálp > Opna öndunarveg > Öndun óeðlileg > Hringja í 112 > Hjartahnoða 30 sinnum > Blása 2 sinnum og enurtaka hjartahnoð, alls 100 hnoð á mínútu. Hnoð og blástur endurtekið eins lengi og þarf.
Hvenær skal hætta endurlífgun?
breytaHætta skal endurlífgun þegar:
- Sjúklingurinn fer að anda
- Heilbrigðisstarfsfólk tekur við
- Læknir gefur fyrirmæli um að hætta
- Sá sem hjálpar örmagnast
- Aðstæður skapast að hættulegt sé að halda áfram
- Hjartastoppið hefur varað í yfir hálfa til eina klukkustund. Undanteking á þessu er þegar um mikla kælingu er að ræða. Þá er haldið áfram þangað til að líkami einstaklingsins hefur hitnað eða þú örmagnast .
Sálrænn stuðningur
breytaSálrænn stuðningur er hluti af skyndihjálpinni og er markmið hans að fyrirbyggja alvarleg og sálræn eftirköst atburðar auk þess að styðja einstaklinginn í að ná fyrra jafnvægi og sjálfstæði. Grundvallarþættir sálræns stuðnings eru nálægð, hlýja, umhygga og hæfileiki til að hlusta. Talið er heppilegast og ef kostur er á að slíkur stuðningur sé veittur af þeim sem standa viðkomandi næst, s.s. fjölskyldu eða vinum.
Heimildir
breyta- Rauði kross Íslands. 1994 (2.útgáfa): Skyndihjálp (Íslensk þýðing: Sveinn Klausen). Aurskog. Universitetsforlaget.
- Rauði kross Íslands (e.d.). Sótt 20. febrúar 2011 af: http://www.redcross.is/id/1000278.
- Slysavarnarfélagið Landsbjörg. (e.d.). Sótt 20. febrúar 2011 af: http://www.landsbjorg.is/assets/slysavarnirheimilidskyndihjalp/skyndihjalparveggspjald%2005.07.06..pdf
Ítarefni
breytaSpurningar úr efninu
breyta- Hvers vegna er mikilvægt að læra almenna skyndihjálp?
- Hvað felst í hinum fjórum skrefum almennrar skyndihjálpar?
- Hvað eigum við að gera ef við komum að meðvitundarlausum einstaklingi?
- Hvað þarf að koma fram þegar hringt er í neyðarlínuna eftir hjálp?
- Hversu oft á að hnoða og blása fullorðinn einstakling sem sýnir engin viðbrögð og er með óeðlilega öndun?
- Hvernig skal beita hjartahnoði?
- Hvernig skal beita blæstri?
- Hvenær skal hætta lífgunartilraunum?
- Í hverju felst sálrænn stuðningur?
Krossapróf
breyta