Skipting orðaforða íslenskunnar í erfðaorð, tökuorð og nýyrði
Höfundur: Lilja Magnúsdóttir
Námsefni, um skiptingu orðaforða íslenskunnar í erfðaorð, nýyrði, tökuorð, hentar sem námsefni fyrir nemendur í 7. og 8. bekk grunnskóla. Námsefnið miðar að því að nemendur átti sig á skyldleika íslensku við önnur mál og að tungumál eru stöðugt að breytast, þar á meðal íslenska.
Erfðaorð
breytaÍslenska á rætur sínar að rekja til þeirra tungumála sem landnámsmenn fluttu hingað með sér. Landnámsmenn komu langflestir frá Vestur-Noregi en aðrir frá Bretlandseyjum og öðrum löndum.
Tungumálum er náttúrulegt að breytast, en íslenskan og önnur vesturnorræn mál fjarlægðust stig af stigi, og voru orðin aðgreind tungumál á 14. öld. Orð sem landnámsmenn Íslands fluttu með sér og hafa verið í tungumálinu frá landnámi, kallast erfðaorð. Mörg algeng íslensk orð (eða orðmyndir) má rekja til erfðaorða og koma úr öllum orðflokkum. Þar má nefna sagnorð s.s. vera, hafa (höfðu) og segja (sagði), smáorðin þegar, og, sem og ekki og fallorð eins og sjór, vatn, brauð, hann og hún.
Tökuorð
breytaRétt eins og samfélagið tekur stöðugum breytingum eru tungumál sífellt að þróast. Þegar heimurinn okkar breytist, þurfum við að skapa ný orð yfir þær hugmyndir og hluti sem ekki voru til áður, eða fá þau að láni úr öðrum tungumálum. Miklar samfélagsbreytingar áttu sér stað til að mynda um aldamótin 1000 þegar Íslendingar tóku kristni. Mikil þörf vaknaði á nýjum orðum yfir kristin hugtök, eins og prestur, kirkja, engill og guðsspjall. Orðaforði íslenskunnar jókst svo um munaði en megnið af orðunum eru tökuorð, orð sem eiga uppruna í öðrum málum t.d. latínu, grísku eða norrænum málum sem mörg hafa aðlagað sig að hljóð- og beygingarkerfi íslenskunnar.
Töluverður hluti orðaforða íslenskunnar eru tökuorð sem hafa borist hingað með tíð og tíma, sum þeirra aldagömul en önnur yngri t.d. orðin flís, net, rokk og blogg (e. fleece, internet, rock, blog). Orðin snjallsími (e. smartphone), smáforrit (e. application, app), núvitund (e. Mindfulness), grænkeri (e. vegan) og hámhorf (e. binge-watch) eru tiltölulega ný í málinu en flestir átta sig á því að þau teljast ekki til erfðaorða. Engu að síður eru þetta ekki tökuorð, heldur kallast þau nýyrði þ.e. ný orð yfir fyrirbæri eða verknað, sem var ekki til áður í tungumálinu. Orðin eru oft mynduð úr stofni erfðaorða (t.d. samsettu orðin hlaupár og sjónauki) og stundum er gömlum íslenskum orðum gefin ný merking eins og orðið sími, sem allir þekkja, en var áður hvorugkynsorð yfir band eða þráð. Við þurfum oft og tíðum að kunna skil á íslenskri málsögu til þess að þekkja í sundur tökuorð og nýyrði fyrri alda. Sem dæmi er lýsingarorðið kurteis tökuorð komið úr riddarabókmenntum frá 13.-14. öld en Jónas Hallgrímsson, náttúrufræðingur og skáld, gaf okkur nýyrðið aðdráttarafl.
Nýyrði
breytaÍslendingar hafa opinbera málstefnu í málefnum íslenskrar tungu og er meginmarkmið hennar að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags, sem felst m.a. í því að efla nýyrðasmíð. Á Íslandi hefur lengi verið lögð áhersla á að mynda nýyrði frekar en að taka við erlendum orðum. Sjálfstæðisbaráttu Íslendinga fylgdi t.d. málhreinsunarstefna þar sem erlend máláhrif voru litin hornauga og mikið kapp lagt á að sporna við dönskum áhrifum í málinu. Flest okkar tökuorð koma úr dönsku og ensku og við lítum oftast á þau eins og hver önnur íslensk orð. Við eigum mörg góð tökuorð, sem við notum á degi hverjum, eins og nafnorðin bíll (automobile) og jeppi (e. jeep) þrátt fyrir að eiga nýyrðið bifreið. Nýyrði ná ekki alltaf að festa rætur í málinu en önnur dæmi um nýyrði sem hafa tapað í baráttunni við tökuorð eru t.d. bjúgaldin (banani), tröllepli (melóna), tónhlaða (iPod eða MP3-spilari) og ganghraðaskiptir (gír). Ný orð þurfa aðlögunartíma, en þess má geta að þegar þotur og þyrlur komur fyrst fram á sjónarsviðið töluðu menn um þrýstiloftsflugvélar og þyrilvængjur.
Spurningar
breyta- Hver er munurinn á nýyrðum og tökuorðum?
- Hvað eiga skáldið og náttúrufræðingurinn Jónas Hallgrímsson og hugmynda- og textasmiðurinn Bragi Valdimar Skúlason, sameiginlegt?
- Getur þú búið nýyrði yfir eftirfarandi hluti og hugmyndir; router, tvít (e. Tweet), strík (e. snapstreaks)?
- Hvaðan voru landnámsmenn Íslands og hvaða mannanöfn báru þeir með sér? Hver er t.d. uppruni nafnanna Sigríður, Ólafur, Melkorka, Njáll, Kjartan, Garðar og Vilborg? En Pétur, Jakob, Jóhannes, Páll og Sesselja?
Krossaspurningar
breyta
Ítarefni
breytaHeimildir
breytaAri Páll Kristinsson. (2014, 9. apríl). Hvað eru nýyrði?
Guðrún Kvaran. (2002, 19. nóvember). Hver er munurinn á slettum, slangri og tökuorðum?
Guðrún Kvaran. (2004, 29. júlí). Hver er uppruni íslenska tungumálsins?
Halldór Halldórsson. (1994, 5. nóvember). Sögur af nýyrðum – Þota og þyrla. Dagblaðið Vísir - DV.
Jón Axel Harðarson. (2003, 28. janúar). Er íslenska elsta tungumál í Evrópu? Hve gömul er hún?
Handbók um íslensku. 2011. Ritstj. Jóhannes B. Sigtryggson. JPV forlag, Reykjavík.
Jón Norland og Gunnlaugur V. Snævarr. 1997. Íslenska: Kennslubók í málvísi og ljóðlist. 5. útgáfa, aukin og endurbætt. Útg. af höfundum, Reykjavík.
Menntamálaráðuneyti. 2008. Íslenska til alls: Tillögur íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu. Reykjavík: Menntamálaráðuneyti.