Sagan af Hlini kóngssyni

Höfundur: Svanur Sigurðsson

Verkefnalýsing og tími

breyta

Þetta menntaefni byggir á sögunni af Hlini kóngssyni. Þetta er gömul íslensk þjóðsaga sem er á gömlu og góðu íslensku máli sem er gott fyrir yngri nemendur að kynnast. Hér er miðað við nemendur í 3. og 4. bekk. Sagan er lesin saman í fyrsta tíma og eftir það er hún rifjuð upp í byrjun hvers tíma. Markmiðið með þessu verkefni er ritun og að ýta undir eftirtekt og lesskilning hjá nemendum.

Tímaáætlun gerir ráð fyrir 5-6 kennslustundum, en það fer allt eftir nemendahópnum. Í byrjun hvers tíma er smá innlögn um það sem verður gert í tímanum.

Svara á verkefnum í vinnubók. Námsmat fer eftir svörum við spurningum og frágangi í vinnubók.

Sagan af Hlini kóngssyni[1]

breyta

Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu, er Hringur hét. Það er ekki getið um hvað drottning hét; þau áttu einn son er Hlini er nefndur. Hann [var] snemma efnilegur og þótti hinn mesti kappi. Sagan segir að væri karl og kerling í garðshorni; þau áttu eina dóttur er Signý hét.

Eitt sinn var það að kóngssonur fór á dýraveiðar með hirðmönnum föður síns, og þá er þeir höfðu veitt nokkur dýr og fugla og þeir ætluðu að fara heim aftur þá sló yfir svo mikilli þoku að þeir misstu sjónar á konungssyni, og þá er þeir höfðu leitað mjög lengi og ekki fundið þá sneru þeir heim á leið og náðu borginni og sögðu konungi frá að þeir hefðu misst Hlini og hefðu hvurgi fundið. Konungur varð mjög hryggur við þessa fregn og daginn eftir sendir hann margt manna að leita eftir syni sínum. Þeir leituðu til kvölds og fundu ekki, og þetta hélzt áfram í þrjá daga og hann fannst ekki. Við þetta varð kóngur svo sjúkur að hann lagðist veikur. Hann gaf þá fregn út um ríkið að hvur sem kæmi og fyndi son sinn skyldi fá hálft ríkið.

Þetta fréttir Signý; hún segir foreldrum sínum frá og biður þau um nesti og nýja skó og þá hún hefur það fengið þá fer hún af stað. Það er að segja af henni að hún gengur og þegar var liðið á dag þá kemur hún að einum hellri; hún gengur inn í hellirinn og sér þar tvær rekkjur, önnur var silfurofin og hin gullofin. Hún litast betur um og sér konungsson liggja í gullofnu rekkjunni. Hún vill vekja hann, en getur ekki. Þá litast hún um og sér ritað á rekkjuna einhvurjar rúnir, orð er hún ekki skilur. Hún gengur fram að hellirdyrum og bak við hurðina og felur sig þar, en þá hún er nýkomin þangað þá heyrir hún dunur miklar og sér tvær skessur mjög stórskornar. Þegar þær koma í hellirinn þá mæla þær þannin: „Fuss og fei, mannaþefur í hellir okkar,“ önnur. Hin segir: „Það er af Hlini kóngssyni.“ Þær ganga inn að rekkjunni er kóngssonur lá í og mæla þannig:

„Syngi, syngi svanir mínir
svo hann Hlini vakni.“

Svanirnir syngja og Hlini vaknar. Sú yngri skessan spyr hann að hvurt hann ekki vill borða; hann neitar því. Þá spyr hún hann hvurt hann ekki vill eiga sig; hann neitar því. Þá kallar hún upp og mælir þannig:

„Syngi, syngi svanir mínir
svo hann Hlini sofni.“

Þeir syngja og hann sofnar. Skessurnar fara að hátta í rekkjunni er var silfurofin. Um morguninn þegar þær vakna þá vekja þær hann og bjóða honum að borða, hann vill ekki, og spyr hún hvurt hann vilji ekki eiga sig; hann neitar því. Þá svæfa þær hann á þann sama hátt og fyrr og fara síðan út. Þegar þær eru farnar fyrir lítilli stundu fer Signý úr skoti sínu og vekur kóngsson á sama hátt og skessurnar gjörðu. Þá hún var búin að því heilsar hún honum. Hann tekur kveðju hennar vingjarnlega og spyr hana frétta; hún segir honum það hún vissi. Þá hún er búin að segja honum fréttirnar þá spyr hún hann af sér. Hann segir þegar hann hafi skilizt frá mönnum sínum þá hafi hann hitt tvær skessur og þær hafi fært sig hingað og önnur þessara hafi ætlað að neyða sig til að eiga sig sem hún hafi heyrt. Þá segir Signý: „Nú skuluð þér játast henni með þeim móti að hún segi yður hvað það þýði sem sé ritað á rekkjurnar og hvað þær séu að gjöra á daginn.“ Þetta líkar kóngssyni vel.

Þá tók hann tafl sem þar var og bauð henni að tefla við sig. Þau tefldu til kvölds, en þegar rökkva tók þá svæfir hún hann og fer í skotið sitt og þá hún er þangað komin heyrir hún til skessanna, og bera [þær] fuglakippu á baki og hösvast inn allskessulegar. Þær kveikja eld og sú eldri matreiðir. Hin yngri fer yfir að rekkjunni og vekur Hlini. Hún spyr hann hvurt hann vilji borða; hann þiggur það. Þá hann er búinn að borða spyr skessan hann að hvurt hann vilji ekki eiga sig. Hann svarar að hann skuli giftast henni með þeim móti að hún segi sér hvað rúnir þessar þýði sem séu á rekkjunum. Skessan segir að þær þýði:

„Renni, renni rekkja mín
hvurt sem maður vill.“

Hann segir það gott vera, en hún verði að segja sér meira, að það sé það hvað þær séu að gjöra út á skógnum á daginn. Hún segir að þær séu að veiða dýr og fugla, en þess á milli sitji þær undir einni eik og séu að henda á milli sín fjöregginu sínu. Hann spyr hvurt það ekki megi brotna. Skessa segir að þá séu þær báðar dauðar. Hann segir hún hafi sagt vel. Konungsson segist nú vilja hvílast til morguns. Skessa segir hann ráða skuli. Um morguninn vekur skessa konungsson til að borða; hann þiggur það. Skessa spyr hann að hvurt hann vilji ekki koma með þeim út á skóg; hann segist heldur vilja vera heima. Skessa kveður hann og svæfir síðan. So fara þær út.

En þá þær eru farnar fyrir góðum tíma fer Signý og vekur konungsson og biður hann að standa á fætur, „og skulum við fara út á skóg þar sem skessurnar eru. Þú skalt hafa spjót þitt með þér og þá er þær kasta egginu þá skaltu kasta spjótinu í eggið, en það ríður þér lífið á að hitta.“ Konungsson segir svo vera skuli. Þau stíga bæði upp í rekkjuna og mæla þannig:

„Renni, renni rekkja mín
út á skóg.“

Rekkjan fer af stað og nemur ekki staðar fyrr en út á skógi við eina eik. Þar heyra þau mikinn hlátur. Signý segir kóngssyni að fara upp í eikina. Hann gjörir svo og sér skessur, og önnur þeirra heldur á gulleggi. Hún hendir því; í sama bili kastar konungsson spjóti sínu og það kemur í eggið svo það brotnar. Skessunum brá svo við að þær ultu út af með froðufalli. Konungsson fer ofan úr eikinni og þau fara til baka heim í hellirinn og taka þar allt það sem fémætt var og hlaða rekkjurnar og fara síðan heim í garðshorn með öll þessi auðæfi. Karl og kerling fagna þeim vel og segja þau velkomin. Konungsson er þar um nóttina og árla morguns fer Signý heim í konungsríki, gengur fyrir konung og kveður hann. Konungur spyr hvur hún sé. Hún segist vera karlsdóttir úr garðshorni og segir um leið hvurju hann vildi svara ef hún kæmi með son hans. Konungur svarar að hún þurfi ekki svars upp á það því hún muni varla finna hann, „þar öngvir af ríkisins mönnum hafa það getað.“ Signý spyr aftur hvurt hann ekki vilji gjalda henni það sama og hann hafi lofað öðrum ef hún kæmi með hann. Konungur segir svo vera skuli.

Signý fer af stað og heim í garðshorn og biður konungsson að fylgja sér heim í höll konungs. Hún leiðir hann inn í höllina og fyrir konung. Konungur fagnar syni sínum vel og biður hann að setjast nú hjá sér og segja hvað á dagana hafi drifið frá því að hann villtist frá mönnum sínum. Konungsson sezt í hásæti og býður Signýju að sitja við hlið sér og byrjar söguna og segir frá eins og fyrr er sagt og þar með að þessi kvenmaður sé lífgjafari sinn. Konungsson stendur upp og biður konung um að hann megi giftast henni. Konungur segir svo vera skuli og lætur stofna til veizlu og býður öllum ríkisins höfðingjum. Þar var gjörð hin fegursta veizla er stóð í viku; og að henni endaðri fór hvur heim til sín og lofuðu örlæti konungs.

Konungsson og Signý unntust vel og lengi. Þar með endast þessi saga.

Spurningar og verkefni

breyta

Spurningar

breyta

Fyrst koma nokkrar spurningar úr sögunni,

  1. Hvaða persónur eru nefndar í sögunni?
  2. Hverjar eru aðalpersónurnar? 
  3. Hvað kom fyrir Hlina kóngsson í upphafi sögunnar?
  4. Hver voru launin fyrir að finna kóngssoninn? 
  5. Hver fór að leita að Hlina kóngssyni?
  6. Hvar fann hún kóngssoninn?
  7. Hvað vildi yngri skessan gera við kóngssoninn?
  8. Hvað voru skessurnar að gera í skóginum á daginn? 
  9. Hvernig bjargaðist Hlini frá skessunum? 
  10. Hvernig komust Hlini og Signý heim í garðshorn?
  11. Hvernig endar sagan af Hlina kóngssyni?  

Hvað merkja orðin?

hryggur =

rekkja =

fylgsni = 

Svör við spurningum

breyta
  1. Hlini kóngsson, Signý karlsdóttir, yngri tröllskessa, eldri tröllskessa, hirðmenn, kóngur, karl, kerling og drottning.
  2. Hlini kóngsson, Signý karlsdóttir og skessurnar.
  3. Hann týndist í þokunni þegar hann var á veiðum.
  4. Launin voru að eignast hálft kóngsríkið.
  5. Signý karlsdóttir.
  6. Í helli hjá tveimur skessum.
  7. Hún vildi giftast honum.
  8. Þær voru að veiða dýr og leika sér með fjöreggið sitt.
  9. Hann braut fjöreggið.
  10. Þau runnu heim í rekkjunum.
  11. Hann giftist Signýju.

Hvað merkja orðin?

hryggur = dapur, sorgmæddur

rekkja = rúm

fylgsni = felustaður

Málfræði - kyn orða, eintala og fleirtala

breyta

Finndu kyn eftirfarandi orða: kóngur, drottning, karlsdóttir, karl,

kerling, hirðmenn, skessur, dóttir, garðshorn, dýr, fuglar, þoka, höll,

sonur, kóngsríki, nesti, hellir, rekkjur, hellisdyr, tafl, fjöregg, skógur,

hásæti, brúðkaup

karlkyn (kk.) hann, þeir

(7 orð)

kvenkyn (kvk.) hún, þær

(9 orð)

hvorugkyn (hk.) það, þau

(8 orð)

xxxxx xxxxx xxxxx
xxxxx xxxxx xxxxx
xxxxx xxxxx xxxxx
xxxxx xxxxx xxxxx
xxxxx xxxxx xxxxx
xxxxx xxxxx xxxxx
xxxxx xxxxx xxxxx
xxxxx xxxxx
xxxxx

Eintala og fleirtala

einn kóngur - margir

einn karl - margir

einn sonur - margir

einn hellir - margir

ein drottning - margar

ein dóttir - margar

ein höll - margar

eitt dýr - mörg

eitt fjöregg - mörg

eitt hásæti - mörg

margar skessur - ein

margar kerlingar - ein

margar rekkjur - ein

margir hirðmenn - einn

margir fuglar - einn 

Svör við málfræði

breyta
karlkyn (kk.) hann, þeir

(7 orð)

kvenkyn (kvk.) hún, þær

(9 orð)

hvorugkyn (hk.) það, þau

(8 orð)

kóngur drottning garðshorn
karl karlsdóttir dýr
hirðmenn kerling kóngsríki
fuglar skessur nesti
sonur dóttir tafl
hellir þoka fjöregg
skógur höll hásæti
rekkja brúðkaup
hellisdyr

Eintala og fleirtala

einn kóngur - margir kóngar

einn karl - margir karlar

einn sonur - margir synir

einn hellir - margir hellar

ein drottning - margar drottningar

ein dóttir - margar dætur

ein höll - margar hallir

eitt dýr - mörg dýr

eitt fjöregg - mörg fjöregg

eitt hásæti - mörg hásæti

margar skessur - ein skessa

margar kerlingar - ein kerling

margar rekkjur - ein rekkja

margir hirðmenn - einn hirðmaður

margir fuglar - einn fugl

Atburðaröð

breyta

Raðið í rétta atburðaröð, númer 1 það sem gerðist fyrst, númer 2 það sem gerðist næst o.s.frv. 

________  Kóngurinn verður hryggur og lofar verðlaunum fyrir að finna Hlina. 

________  Skessurnar detta niður dauðar.

________  Signý karlsdóttir fer að leita að kóngssyni.

________  Hlini kóngsson fer á veiðar með hirðmönnunum.

________  Signý finnur Hlina í hellinum. 

________  Hlini týnist í þokunni.

________  Signý gefur Hlina ráð hvernig hann geti sloppið frá skessunum. 

________  Kóngsson skýtur spjótinu í eggið svo það brotnar.

________  Hlini og Signý renna heim á rekkjunum.

________  Hlini kóngsson og Signý karlsdóttir gifta sig.

________  Skessurnar fara í skóginn að veiða og leika sér með fjöreggið.  

Rétt atburðaröð

breyta

3 - 9 - 4 -1 - 5 - 2 - 6 - 8 10 - 11 - 7   

Endursögn - ritunarverkefni

breyta

Í þessum hluta eiga nemendur að endursegja söguna og er nauðsynlegt að hafa atburðaröðina á hreinu. Eins og í öllum ritunarverkefnum verður að hafa upphaf, miðju og endi.   

Endursögnin gæti verið eitthvað á þessa leið:  

Upphaf  

Einu sinni var…

Hlini kóngsson fór á veiðar með hirðmönnunum. Hann týndist í þokunni. Kóngurinn varð hryggur og lofaði verðlaunum til þess sem fyndi hann.  Signý karlsdóttir leitar að kóngssyni.

Miðja

Signý finnur Hlina í hellinum. Hún gefur honum ráð hvernig hann geti sloppið frá skessunum.  Skessurnar fara í skóginn að veiða og leika sér með fjöreggið.  Kóngsson skaut spjótinu í eggið svo það brotnaði og skessurnar voru þá samstundis dauðar.

Endir

Heimferð úr hellinum. Signý talar við kónginn. Brúðkaup.

Afnotaleyfi

breyta
 

Nota má kennsluefnið beint og endurnýta í öðru verkefni í heild eða að hluta, gera breytingar á efninu en geta skal höfundar á þessu verki.

Tilvísun

breyta
  1. Netútgáfan (1998) Sótt af https://www.snerpa.is/net/thjod/hlini.htm