Hársnyrtiiðn

(Endurbeint frá Notandi:Solrarsa)
<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Hársnyrtiiðn

breyta

Höfundur: Sólrún Ársælsdóttir

 
 

Hársnyrtiiðn varð til þegar tvær sjálfstæðar iðngreinar, hárgreiðsla og hárskurður, voru sameinaðar í eina iðngrein árið 1993. Námskrá fyrir hina nýju iðngrein var staðfest af menntamálaráðherra árið 1996 og var námið þá jafnframt lengt úr þremur og hálfu í fjögur ár. Fyrirliggjandi námskrá hefur verið unnin af starfsgreinaráði snyrtigreina. Hún lýsir markmiðum námsins, skipulagi þess og tilhögun kennslu og námsmats í hársnyrtiiðn. Lýst er lokamarkmiðum náms í heildstæðum áfangakeðjum og færnikröfur náms í hársnyrtiiðn útfærðar nánar í einstaka námsáföngum. Framhaldsskóli sem býður nám í hársnyrtiiðn útfærir frekar markmið námskrár í skólanámskrá. Áfangalýsingar í almennu bóknámi er að finna í greinanámskrám aðalnámskrá framhaldsskóla|aðalnámskrár framhaldsskóla sem er að finna á heimasíðu menntamálaráðuneytisins. Hársnyrtiiðn er þjónustustarf. Starfið er mjög krefjandi og er útfært í nánum tengslum við viðskiptavininn. Ráðgjöf um persónulegt útlit er stór hluti starfsins og krefst það listræns innsæis fagmannsins. Hársnyrtir þarf að búa yfir þekkingu á herra- og dömuformum og hafa til að bera þekkingu á tísku og tíðaranda hverju sinni þannig að handverkið njóti sín sem best. Hársnyrtiiðn er samspil listrænnar sköpunar og faglegrar þekkingar, sem aflað er með námi í iðnskóla, og starfsþjálfunar á vinnustað.


Inntökuskilyrði

breyta

Skilyrði til innritunar í nám í hársnyrtiiðn er að nemendur hafi lokið skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla og einnig lokið samræmdum lokaprófum í íslensku og stærðfræði og náð tilskildum lágmarksárangri skv. ákvæðum 2. gr. reglugerðar um innritun nemenda í framhaldsskóla nr. 98/2000.

Skipulag náms

breyta

Nám í hársnyrtiiðn er samningsbundið iðnnám. Meðalnámstími er 4 ár, samtals 167 einingar, að vinnustaðanámi meðtöldu. Námið skiptist í almennt bóklegt nám og verklegt nám í skóla sem fer fram á fimm námsönnum. Nemendur byrja á að taka tvær samfelldar námsannir í skóla og hefja að því loknu starfsþjálfun á vinnustað. Vinnustaðanám er 72 vikur og skulu nemendur gera áætlun um það í samráði við vinnuveitanda og skóla hvernig þeir hyggjast flétta saman námsönnum í skóla og starfsþjálfunarlotum á vinnustað. Dæmi um það hvernig raða má skólanámi og starfsþjálfun á vinnustað er gefið hér á eftir. Námi í hársnyrtiiðn lýkur með sveinsprófi.

Nám og kennsla

breyta

Í kennslu er mikilvægt að leita leiða til að þjálfa verklega færni nemenda og auka jafnframt skilning þeirra á mikilvægi faglegra vinnubragða í samræmi við markmið námskrár. Námi og kennslu þarf jafnframt að setja skýr markmið varðandi vinnubrögð og aðferðir. Lögð er áhersla á að þjálfa færni til þess að takast á við raunveruleg viðfangsefni þar sem fyrirmæli, verklýsing og vinnuaðferðir, liggja fyrir en jafnframt verði leitast við að þjálfa nemendur til þess að takast á við verkefni þar sem lausnir liggja ekki í augum uppi. Leit að lausnum krefst bæði hugkvæmni og rökvísi sem mikilvægt er að þjálfa með nemendum. Í aðalnámskrá framhaldsskóla er lögð mikil áhersla á að nemandinn kynnist notagildi upplýsinga- og samskiptatækni og læri að beita henni í námi sínu. Möguleikar til að afla upplýsinga, meðhöndla og miðla ýmiss konar gögnum hafa gjörbreyst með tilkomu upplýsinga- og samskiptatækni þó að aðrar upplýsingaveitur, s.s. prentað mál og myndmál, haldi gildi sínu. Með hjálp tölvuforrita, teikniforrita, svo dæmi séu tekin, opnast nýir möguleikar til margvíslegra athugana og myndrænnar túlkunar. Nám og kennsla í hársnyrtiiðn miðast við að veita almenna, faglega undirstöðumenntun í greininni, auka færni nemenda í meðferð hársnyrtivara og beitingu áhalda og tækja. Leitast er við að þjálfa sjálfstæð vinnubrögð nemenda og auka hæfileika og getu þeirra til samvinnu við aðra. Þá er stefnt að því að nemendur auki færni sína til þess að standast kröfur iðngreina um nákvæmni, áreiðanleika og fagleg vinnubrögð. Hársnyrtar vinna í mikilli nálægð við viðskiptavini sína og því er mikilvægt að þjálfa samskiptafærni nemenda og getu þeirra til þess að öðlast skilning á þörfum viðskiptavina. Í námskrá fyrir hársnyrtiiðn er lögð áhersla á að rækta með nemendum jákvætt viðhorf til gæða í þjónustu.

Námsmat

breyta

Tilgangur námsmats er m.a. að kanna að hve miklu leyti nemandi hefur tileinkað sér markmið sem sett eru í viðkomandi áföngum. Æskilegt er að meta nám nemenda með fjölbreytilegum hætti. Umfang þess skal þó að jafnaði vera í samræmi við kennslu í viðkomandi áfanga. Námsmat hefur mikið notagildi í kennslu í hársnyrtiiðn. Reynt skal að afla eins öruggrar og víðtækrar vitneskju um árangur nemenda og kostur er og fylgjast vandlega með því hvernig þeim gengur að ná þeim markmiðum sem námskráin og skólinn setur. Á þennan hátt getur kennari fylgst með framförum nemenda og gert sér grein fyrir áhrifum og þróun kennslunnar. Sú vitneskja sem námsmatið veitir hjálpar hverjum kennara til að setja náminu ný markmið og gefur oft tilefni til breytinga á kennsluaðferðum og námsefni og niðurröðun þess á skólaárið. Þá getur námsmat í hársnyrtiiðn verið mikilvægt tæki til að hafa áhrif á nemendur svo að þeir nái betri námsárangur|námsárangri. Námsmatið gefur nemendum möguleika á því að fylgjast með eigin árangri í námi. Slíkt leiðir í flestum tilvikum til aukins áhuga og betri árangurs. Í kennslunni eru margir möguleikar á því að kanna og meta námsárangur og afkastagetu nemenda. Dæmi um möguleika á útfærslu námsmats eru verkefni af ýmsu tagi sem nemendur leysa í kennslustundum eða í heimavinnu. Einnig má nefna skrifleg eða verkleg prófsem lögð eru fyrir nemendur. Námsmat byggist m.a. á

  • verkefnum sem nemandi vinnur í kennslustundum og utan þeirra
  • frammistöðu í kennslustundum og árangri í skyndipróf um
  • skriflegu lokaprófi sem reynir á þekkingu á efnisatriðum og rök fyrir tengslum ólíkra efnisþátta
  • verklegum prófum

Vinnustaðanám

breyta

Vinnustaðanám er skipulagt á þann hátt að um er að ræða sjálfstæða þjálfun úti í fyrirtækjum. Skipulag þess tekur mið af lokamarkmiðum námsins. Markmið vinnustaðanámsins er m.a. að þjálfa nemandann til þess að takast á við sífellt flóknari viðfangsefni þar sem saman fara vinnuhraði, fagleg vinnubrögð, nákvæmni, færni og kröfur um að fyllstu öryggisþáttum sé fullnægt. Krafan um aukin gæði og þjónustu fyrirtækja er stöðug og vaxandi og því er það mikilvægt að fagfólk í hársnyrtiiðn hugi vel að möguleikum sínum til símenntunar.

Tilgangur vinnustaðanáms er að nemandinn fái aukna færni og öðlist reynslu í þjónustu við viðskiptavini, þjálfa verktækni og fagleg vinnubrögð. Við upphaf námstíma skal skólinn útskýra eðli, mikilvægi og innihald vinnustaðanámsins fyrir nemendum og gera ítarlega grein fyrir ábyrgð nemenda á því að stunda það af kostgæfni og samviskusemi. Gert er ráð fyrir að ferilbók fylgi nemandanum þar sem er gerð er grein fyrir verklegri þjálfun hans í vinnustaðanáminu- verkefnum er lýst og mat lagt á frammistöðu hans, verktækni, vinnuhraða og hæfni til að veita þjónustu. Í skóla skal kynna nemendum ferilbókina og útskýra fyrir þeim mikilvægi þess að hún sé rétt og samviskusamlega útfyllt. Fyrirtæki sem gerir samning um þjálfun nemenda á vinnustað ábyrgist að fylgja þeim markmiðum sem tilgreind eru fyrir hársnyrtiiðn og að framfylgja þeim námsþáttum og verklegri þjálfun nemendans sem iðngreinin gerir kröfur um. Mælt er með því að þau fyrirtæki sem taka nemendur í starfsþjálfun feli sveini eða meistara í iðninni að skipuleggja vinnustaðanám nemandans í samræmi við markmiðslýsingar námskrár í hársnyrtiiðn. Framvinda vinnustaðanáms skal skráð í ferilbók nemanda. Ferilbókin er staðfesting á því að nemandinn hafi kynnst þeim námsþáttum, verklagi og vinnubrögðum sem tilgreind eru í innihaldslýsingu viðkomandi iðngreinar. Nemandinn og atvinnurekandi bera sameiginlega ábyrgð á skráningu ferilbókar.

Lokamarkmið náms og kennslu í hársnyrtiiðn

breyta

Að loknu námi á nemandinn að:

  • geta tekið á móti viðskiptavini á faglegan hátt og sýnt fágaða framkomu
  • geta greint ástand hárs á grundvelli fræðilegrar þekkingar
  • geta þvegið hár við vask og gefið hárnæringarnudd
  • kunna mismunandi efnameðferðir fyrir hár og hársvörð
  • kunna skipuleg og vönduð vinnubrögð og sýna vandaðan frágang á áhöldum og vinnusvæði
  • kunna að sótthreinsa áhöld og vinnuaðstöðu með mismunandi sótthreinsiefnum og

þekkja til smitvarna

  • geta blásið dömu- og herrahár í ákveðið form og samkvæmt nýjustu tísku
  • geta útfært greiðslur í mismunandi hárlengdir
  • geta unnið af öryggi að öllum algengum aðferðum við háralitun og klippingar
  • geta skilgreint hugtök út frá ljósmynd
  • geta útfært permanent af sjálfstæði fyrir dömu og herra í þeim tíðaranda sem er ráðandi
  • geta klippt skegg í mismunandi form og útfærslur
  • geta greint einstaklingsþarfir viðskiptavinar varðandi hár og leiðbeiningar um val og notkun hársnyrtivara
  • þekkja öryggis- og varúðarráðstafanir varðandi vinnu sína og geta veitt algengustu skyndihjálp

Spurningar

breyta
  1. Hvaða ár voru iðngreinarnar hárgreiðsla og hárskeri sameinaðar í hársnyrti?
  2. Hversu langt er hársnyrtinámið?
  3. Í hvaða skóla er að finna hársnyrtikennslu?
  4. Hvað heitir bókin sem gert er ráð fyrir að fylgi nemandanum í vinnustaðanáminu?


Krossapróf

breyta

1 Hvaða ár voru iðngreinarnar hárgreiðsla og hárskeri sameinaðar í hársnyrti?

1990
1993
1996
1999

2 Hversu langt er hársnyrtinámið?

2 ár
3 ár
4 ár
5 ár

3 Í hvaða skóla er að finna hársnyrtikennslu?

Iðnskólanum
Háskólanum
Hársnyrtiskólanum
Fjölbrautarskólanum

4 Hvað heitir bókin sem gert er ráð fyrir að fylgi nemandanum í vinnustaðanáminu?

Fagbók
Ferilbók
Starfsbók
Stéttarbók

5 Að loknu námi á nemandinn að geta tekið á móti:

viðskiptavini á fróðlegan hátt og sýnt frábæra framkomu
hundum á faglegan hátt og sýnt fágaða framkomu
hundum á fróðlegan hátt og sýnt frábæra framkomu
geta tekið á móti viðskiptavini á faglegan hátt og sýnt fágaða framkomu


Krossapróf um hársnyrtiiðn á Hot Potatos formi

Heimild

breyta

Menntamálaráðuneytið, 2005. ,,Aðalnámskrá framhaldsskóla" Hársnyrtiiðn