Náttúruhamfarir á Íslandi

Þessi bók fjallar um sögu Náttúruhamfara á Íslandi og gerð viðbragðsáætlana. Námsefninu fylgja verkefni ætluð nemendum á unglingastigi grunnskóla.

Ísland að vetri til

Eldgos

breyta

Ísland myndaðist við eldvirkni fyrir um 16 milljónum ára. Síðan þá hefur eyjan stækkað og stækkað með óteljandi mörgum eldgosum. Ekki er vitað mikið um þau eldgos sem urðu fyrir landnám en eftir það voru upplýsingar um eldsumbrot á Íslandi skráð með einhverju móti. Þetta hefur hjálpað rannsóknarmönnun í dag að átta sig betur á eðli eldgosa og hversu reglulega þau gjósa. Hér er sagt frá nokkrum af þekktustu eldgosum sem orðið hafa á sögulegum tíma.

 
Eldgos í Holuhrauni

Skaftáreldar 1783

breyta

Þann 8. júní 1783 hófst eldgos í Lakagígum sem kallað er Skaftáreldar. Gosið sem stóð yfir í 8 mánuði er eitt mesta hamfaragos sem sögur fara af. Upp úr gossprungunni kom hraun sem átti eftir að þekja 600 ferkílómetra af landi. Á sama tíma bárust aska og eiturefni um allt land sem olli miklum skepnudauða. Í kjölfarið varð mikil hungursneyð í landinu og um það bil 10.000 Íslendingar týndu lífi.

Kötlugosið 1918

breyta

Þann 12. október 1918 hófst mikið gos í Kötlu. Nokkrum klukkustundum áður en það hófst fundu bændur í nágrenni Mýrdalsjökuls fyrir jarðskjálftum. Stuttu síðar sáu þeir gosmökkinn rísa úr jöklinum. Eldgosum í Kötlu fylgja yfirleitt mikil jökulhlaup og í þessu gosi leið ekki nema um hálftími frá því að það hófst að jökullhlaup hafði náð niður til sjávar. Jökulhlaupinu fylgdu mikill sandur, aska og ís. Eldgosinu sjálfu fylgdi mikið öskufall og talið er að gosmökkurinn hafi náð 14.300 metra hæð þegar mest var. Gosinu lauk rúmum þremur vikum eftir að það hófst, þann 4. nóvember 1918. [1]

Heimaeyjagosið 1973

breyta

Aðfaranótt 23. janúar 1973 hófst eldgos í Heimaey einungis nokkur hundruð metrum frá húsunum í bænum. 2 km löng gossprunga opnaðist og glóandi hraunið spýttist út. Gosið kom íbúum Vestmannaeyjabæ verulega á óvart en allir þurftu að yfirgefa húsin sín sömu nótt. Eldgosið stóð yfir í sjö vikur og þegar því loksins lauk tók við mikil vinna að koma bænum í fyrra horf. Helmingur húsa í bænum varð undir hrauni og ekki snéru allir íbúar aftur til Vestmannaeyja að gosi loknu.

Holuhraun 2014

breyta

Þann 29. ágúst 2014 hófst lítið sprungugos í Holuhrauni. Eldgosið kom vísindamönnum ekki mjög á óvart vegna þess að mikil skjálftavirkni hafði verið á svæðinu. Gosið stóð einungis yfir í nokkrar klukkustundir. Tveimur dögum seinna hófst síðan mun stærra gos á sama stað. 1500 metra löng sprunga opnaðist og mikið af gosefnum þeyttust upp úr henni. Holuhraun er mjög afskekkt og því stafaði byggðum ekki mjög mikil hætta af eldgosinu. Það var þó einn fylgifiskur sem hafði meiri áhrif á menn og skepnur. Hættulegar gastegundir komu upp úr sprungunni og dreifðust um landið. Mest voru áhrifin á Austurlandi. Gosið stóð yfir í langan tíma. Því lauk 27. febrúar 2015 og því gosið samfellt í um sex mánuði.

Jarðskjálftar

breyta

Jarðskjálfti er titringur eða hristingur í jarðskorpunni. Upptök jarðskjálfta verða á flekamótum. Ísland liggur á flekamótum Norður ameríku- og evrasíufleka en þeir eru að færast í sundur sem veldur mikilli skjálftavirkni hér á landi. Á suðurlandi eru jarðskjálftar mjög tíðir og þar verða reglulega stórir skjálftar sem nefnast Suðurlandsskjálftar. Stærð jarðskjálfta eru mæld á svokölluðum Richters kvarða.

 
Suðurlandsskjálftinn 2008

Stóru skjálftarnir árið 1784

breyta

Stóru skjálftarnir voru nokkrir skjálftar sem áttu upptök sín á Suðurlandsundirlendi árið 1784. Þá voru ekki til góð tæki til þess að mæla stærð jarðskjálfta, en vísindamenn álita að stærsti skjálftinn hafi verið um 7,1 á Richter.[2] Það er stærsti skjálfti sem vitað er til að hafi orðið á Íslandi. Í þessum skjálfta var krafturinn svo mikill að helmingur allra húsa á Suðurlandi hrundi.[3]

Kópaskersskjálftinn árið 1976

breyta

Þann 13. janúrar reið yfir mikill jarðskjálfti skammt frá Kópaskeri. Hann var 6,5 á Richter og olli miklum skemmdum á húsum í bænum. Mikill vetur var á þessum slóðum svo erfitt var að koma aðstoð til íbúanna. Vatnslagnir fóru í sundur svo að flestum íbúum var komið í burtu og samfélagið lagðist af í svolítinn tíma. Ekkert manntjón varð þó sem betur fer.

Suðurlandsskjálftarnir árið 2000 og 2008

breyta

Þann 17. júní árið 2000 reið yfir suðurland stór jarðskjálfti sem mældist 6,6 á Richter. Í kjölfjarið fylgdu fleiri stórir skjálftar. Skjálfftarnir ollu miklum skemmdum, þá sérstaklega á Hellu. Árið 2008 reið síðan yfir annar skjálfti á Suðurlandi af svipaðri stærð. Skjálftinn fannst alla leið til Ísafjarðar, en í þetta sinn voru fundu íbúar Hveragerðis einna mest fyrir áhrifum hans. Enginn alvarleg slys urðu á fólki en á nokkrum stöðum hrundu útihús með þeim afleiðingum að fé varð undir. Skjálftanum árið 2008 fylgdu einnig skriðuföll, meðal annars í hlíðum Ingólfsfjalls við Selfoss. [4]


Snjóflóð

breyta

Snjóflóð er veðurfyrirbrigði sem verða þegar snjór safnast saman í giljum og skálum brattra fjalla. Þegar mikið snjóar og snjónum skefur á einn tiltekinn stað getur gríðarlegt magn af snjó farið af stað og valdið snjóflóði sem rennur niður fjallshlíðarnar á ógnarhraða. Nokkrir bæir á Íslandi eru umkringdir bröttum fjöllum og búa íbúar þeirra því við ógnina af snjóflóðum. Víða hafa stórir snjóflóðavarnagarðar verið byggðir til þess að vernda menn og hús. Þrátt fyrir það hafa snjóflóð því miður tekið mörg mannslíf. Mannskæðustu snjóflóðin sem orðið hafi féllu í Nesskaupstað, á Flateyri og á Súðavík.

 
Ísafjörður að vetri til
  • Neskaupsstaður 1976
  • Súðavík 1995
  • Flateyri 1995





Viðbragðsáætlanir

breyta

Viðbragðsáætlanir eru áætlanir þar sem skipulagt er í þaula hvað skal gera þegar náttúruhamfarir verða. Almannavarnir ríkissins sjá um að gera þessar áætlanir í samstarfi við lögreglu, ríkisstjórn, heilbrigðisyfirvöld og björgunarsveitir. Einnig koma sveitafélög að þessum viðbragðsáætlunum þegar það á við. Á Vík í Mýrdal er til dæmis búið að útbúa viðamikla viðbragðsáætlun sem virkjast ef eldgos hefst í Kötlu. Þessar viðbragðasáætlanir eru gríðarlega mikilvægar vegna þess að oftast gera náttúruhamfarir ekki boð á undan sér og þá verða allir að vita hvað þeir eiga að gera þegar hamfarir verða. Þessar viðbragðsáætlanir verður að kynna fyrir íbúum svæðanna sem þær eiga um. Þannig eru íbúar til búnir að takast á við áskoranirnar sem fylgja náttúruhamförum.

Verkefni

breyta

Hér er að finna nokkrar hugmyndir að verkefnum sem hægt er að vinna með nemendum út frá námsefninu sem bókin fjallar um.

Mitt eigið eldfjall

breyta

Í verkefninu áttu að búa til þitt eigið eldfjall. Ekki bókstaflega, heldur með orðum og jafnvel teikningum. Í verkefninu skaltu láta svörin við spurningunum hér að neðan koma fram.

  1. Hvað heitir eldfjallið?
  2. Hvar á landinu er það staðsett?
  3. Hversu oft gýs eldfjallið
  4. Þegar eldfjallið gýs, hvernig verður eldgosið. (Taktu dæmi um raunveruleg eldgos á Íslandi til hliðsjónar)
  5. Hverjir búa í nálægð við eldfjallið (Hvað eru þeir margir og hversu nálægt eru þeir)
  6. Eru íbúar í nágrenni við eldfjallið í hættu ef það gýs (Þú skalt útbúa stutta viðbragðsáætlun og gera mat á því hverjir eru í hættu)


Hvað þarf ég að taka með mér

breyta

Í verkefninu átt þú að ímynda þér að þú búir á einhvers konar hættusvæði vegna náttúruhamfara. Almannavarnir hafa gefið það út að einn daginn gætir þú þurft að yfirgefa heimili þitt í snatri. Þú þarft þess vegna að pakka helstu nauðsynjum í tösku og hafa tilbúna í anddyrinu. Hvaða hluti myndir þú setja í töskuna? Mundu að taskan getur ekki verið mjög stór þannig þú þarft að forgangsraða hlutunum sem þér langar að taka með.


Viðbragðsáætlun

breyta

Þetta verkefni er hlutverkaleikur sem gott er að vinna í fjögurra manna hóp. Hver meðlimur í hópnum fær eitt hlutverk. Hópurinn útbýr í sameiningu grófa viðbragðsáætlun fyrir svæði í nágrenni við eldgos, hættusvæði fyrir snjóflóð eða jarðskjálftasvæði. Síðan á hópurinn að ímynda sér að hver meðlimur sé í forsvari fyrir einn af þeim aðilum sem koma að gerð viðbragðsáætlana. Hópurinn á að skipuleggja blaðamannafund og undirbúa svör við mögulegar spurningar blaðamanna. Hópurinn þarf að undirbúa sig mjög vel og þarf að hafa það í huga að markmið fundarins er að upplýsa almenna borgara um það sem er að gerast með yfirveguðum hætti svo að allir haldi ró sinni.

Hlutverkin gætu til dæmis verið

  • Fulltrúi Almannavarna
  • Fulltrúi Lögreglu
  • Ráðherra
  • Bæjarstjóri
  • Fulltrúi Björgunarsveita
  • Fulltrúi Veðurstofu
  • Jarðvísindafræðingur


Þetta gerist aldrei á Íslandi

breyta

Í verkefninu skaltu skoða náttúruhamfarir sem ekki verða á Íslandi. Listaðu allar þær hamfarir upp sem þér dettur í hug og notaðu internetið til að afla upplýsinga um það af hverju slíkar hamfarir verða ekki á Íslandi.

Krossapróf

breyta

Prófaðu þig úr námsefninu með að gera krossaprófið hér að neðan.

1 Hver eru orsök jarðskjálfta á Íslandi?

Flekarnir eru að færast í sundur
Flekarnir eru að ýta á móti hvorum öðrum
Flekarnir eru að nuddast saman
Flekarnir eru þrír, sem veldur ójafnvægi í jarðskorpunni

2 Heimaeyjagosið hófst

5. júní 1967
3. júlí 1973
23. janúar 1973
29. mars 1947

3 Hver er ástæða þess að hungursneyð varð á Íslandi við lok Skaftárelda?

Landið var þakið ösku
Fiskarnir í sjónum drápust
Grunnvatn spilltist svo skepnur drápust
Allt vatn varð mengað

4 Hvar voru upptök stóru skjálfta?

Selfoss
Árborg
Kópasker
Suðurlandsundirlendi

5 Hve stór er stærsti jarðskjálfti sem mælst hefur á Íslandi

6,5
7,0
7,1
8,8

6 Hver er mesta hættan við Kötlugos

Hraunrennsli
Jökulhlaup
Öskufall
Gaseitrun

7 Hverjir sjá um að búa til viðbragðsáætlanir?

Lögregla
Almannavarnir
Forsætisráðherra
Björgunarsveitirnar

8 Hverjar eru kjöraðstæður fyrir snjóflóð?

Mikil rigning og snjórinn er blautur
Klakabunkar undir lausum snjó
Mjög mikil snjókoma
Mikill snjór og vindur sem skefur snjónum í gil brattra fjallshlíða

  1. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=61203/[Hvað getur þú sagt mér um Kötlugosið 1918?]
  2. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=55503/[Hver er stærsti jarðskjálfti sem mælst hefur á Íslandi og hversu stór var hann?]
  3. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/384326/[Stóru skjálftarnir]
  4. /https://is.wikipedia.org/wiki/Su%C3%B0urlandsskj%C3%A1lftinn_29._ma%C3%AD_2008#Eignatj%C3%B3n [Suðurlandsskjálftinn 2008]