Hér fyrir neðan er saga úr Grimmsævintýrum en það voru tveir bræður sem söfnuðu ævintýrum. Sagan heitir Lánsami Siggi. Lestu söguna og svaraðu spurningunum fyrir neðan. Hér eru upplýsingar á ensku um Grimm bræður. Þetta ævintýri er úr safni bræðranna og heitir á íslensku Lánsami Siggi en á ensku Hans in Luck

Stytta af Lánsama Sigga
Lánsami Siggi sveiflar hatti sínum
Lánsami Siggi er hamíngjusamur

Einu sinni var bóndasonur, sem Siggi hjet, gott skinn, en heldur var hann einfaldur. Mörg ár vann hann með heiðri og sóma hjá ríkum höfðingja en loks kom óyndi í strákinn og langaði hann nú mikið til þess að komast heim til móður sinnar og bað húsbónda sinn um kaupið sitt. Hann gaf Sigga gullklump, sem var álíka stór og höfuðið á Sigga, og það var ekki af smærri tegundinni. Þetta líkaði Sigga og vafði nú um hann handklæði og lagði af stað heim á leið. En veðrið var heitt og klumpurinn afarþungur, svo að Siggi varð strax uppgefinn og bogaði af honum svitinn. Hann reyndi að bera hann á höfðinu og öxlunum, en ekkert dugði. Þá reið maður fram hjá Sigga, glaður og kátur og á góðum hesti. »Þarna!«, sagði Siggi, »gaman væri að ríða, ef að maður kynni það og ætti góðan hest!« Maðurinn stöðvaði hestinn, er hann heyrði til Sigga, og spurði hann að, hvað það væri, sem hann væri þarna að dragast með.

»Ó! Það er gull, hreinasta gull og mesta þyngsla gull! ekkert kvikindi á jörðinni strefar eins mikið og maðurinn!« sagði Siggi og varpaði klumpnum á jörðina stynjandi. »Hana«, sagði komumaður, »úr því að þig langar til þess að ríða, þá skulum við skifta. Láttu mig hafa klumpinn þinn og taktu hest minn í staðinn!« Þetta ljet Siggi ekki segja sjer tvisvar og greip í hestinn. En maðurinn tók gullklumpinn og flýtti sjer nú burtu, af því að hann var hræddur um, að Siggi mundi iðrast kaupanna. Siggi klifraði nú upp á hestinn og reið áfram alt hvað af tók, svo moldrykið þyrlaðist í háa loft, en þetta varði ekki lengi; hesturinn hrasaði um stein og Siggi veltist af baki, af því að hann kunni ekki að ríða. Siggi var svo dasaður eftir byltuna, að hann gat varla hreyft legg eða lið og lá nú kyr um stund. Bóndi nokkur, sem leiddi kú, sá hestinn lausan og teymdi hann með sjer, þar til hann hitti Sigga. Var þá Siggi skjælandi að núa fæturna. »Ekki skal jeg ríða oftar; það er ekki holt! En hvað þjer eruð lánsamur, góði maður, að eiga svona hægláta kú; þjer getið svo drukkið mjólk hvern einasta dag og borðað smjör og ost, og þurfið ekki að detta af baki«.

Bókarkápa

«Það er rjett«, segir bóndinn, sem hugsaði sjer nú gott til, »ef að þjer lýst svona vel á kúna, þá líst mjer vel á fjöruga hestinn þinn, og við skulum skifta; þú færð kúna fyrir hestinn«. »Það eru góð skifti; þetta vil jeg«, sagði Siggi og tók við kúnni og rak hana á undan sjer, en bóndinn settist á hestinn og var þegar kominn úr augsýn. Á göngu sinni kom Siggi að gestaskála og eyddi þar síðustu aurum sínum, af því að hann hjelt, að nú þyrfti hann ekki framar á peningum að halda, úr því að hann ætti kúna, og svo hjelt hann áfram. En eins og áður er sagt, var mjög heitt þennan dag, og alllangt var til þorpsins, þar sem móðir Sigga bjó, og hann var orðinn mjög þyrstur. Hann fór þá að mjólka kúna, en fórst það svo óhöndulega, að engin mjólk kom, og loksins varð kýrin leið á þessu og sparkaði í Sigga, svo að hann misti bæði heyrn og sjón og vissi ekki, hvort hann var heldur piltur eða stúlka, en í því kom slátrari gangandi með grís. Hann aumkaðist yfir Sigga og spurði hann, hvað að honum gengi og gaf honum jafnframt að dreypa á pela sínum. Siggi sagði honum hvar komið var, en slátrarinn sagði, að ekki væri að búast við mjólk úr svona gamalli kú, henni yrði að slátra sem fyrst. »Já«. sagði Siggi, »en það verður ekki mikið varið í steik af henni, svona eldgamalt nautaket! Þjer eigið sannarlega gott, að eiga þennan litla og feita gris; þar er nú maturinn góður og pylsurnar!«

»Góði vinur!« sagði slátrarinn, »ef að þjer líst á grísinn minn, þá geturðu fengið hann; jeg skal skifta á honum og kúnni að sljettu; þykir þjer það ekki gott?« »Ágætt«, sagði Siggi og varð mjög glaður í bragði yfir láni sínu. Nú hjelt hann aftur áfram kátur og ánægður og hugsaði: »Þú ert þó reglulega lánsamur Siggi;altaf færðu bættan skaða þinn! enn hvað svínasteikin verður góð«

Skömmu síðar náði maður Sigga, sem var á sömu leið, hann hjelt á stórri hvítri gæs undir hendinni. Hann heilsaði Sigga og þegar þeir fóru að tala saman þá sagði hann Sigga að gæsin væri ætluð í afmælisveislu. Það væri besta steik undir sólinni og svo lofaði hann Sigga að taka á gæsinni og finna fitukeppinn undir vængjunum á henni. »Þetta er góð gæs«, sagði Siggi, »en svínið mitt er nú ekki heldur neitt óhræsi«. »Hvaðan er svínið þitt?« spurði hinn og Siggi sagði honum að hann væri nýbúinn að fá það í skiftum. Þá leit hinn í kringum sig með áhyggjusvip og sagði: »Heyrðu lagsmaður okkar í milli sagt þá var grís stolið frá fógetanum í þorpinu þarna. Þjófurinn hefur narrað þig og þegar lögregluþjónninn kemur á eftir okkur — mjer sýnist að jeg sjái blika byssuhlaupið hans þarna hjá hæðinni — þá heldur hann að þú sjert þjóturinn og þú lendir með grísinn í tukthúsinu í staðinn fyrir heima hjá móður þinni«. »Æ, guð minn góður! Skelfing er jeg ógæfusamur«, kallaði Siggi. »Blessaður góði vinur minn, hjálpaðu mjer nú í öllum hamingju bænum!« »Veistu hvað«, sagði maðurinn,»fáðu mér fljótt grísinn og taktu gæsina! Jeg þekki leynistig hjer nálægt og get falið mig«.

Þetta gerðist í einni svipan og að vörmu spori voru allir horfnir, maðurinn, svínið og Siggi. »Gæfan eltir mig hreint!« sagði Siggi og hló með sjálfum sjer og bar gæsina áfram. Hann sá hvorki lögregluþjón eða neinn annan sem elti hann. Hann hafði allan hugann á steikinni góðu, fitunni, fjöðrunum og móður sinni svo ánægðri og nú kom hann í síðasta þorpið á leiðinni. Þar stóð maður við hverfistein sem hann steig og dró hníf á; hann var að sjá mjög ánægður, dró á og blístraði og blístraði og dró á og söng fjöruga vísu í hljóðfalli við stigið. Að brýna hníf og brýna ljá er besta skemtun sem jeg á. Hvað er betra en hverfisteinn Hann til fjár mjer nægir einn.

Siggi stansaði þarna með gæsina undir hendinni, hann var hrifinn af glaðlyndi mannsins sem dró á, svo sagði hann: »Þjer liður víst bærilega, sem getur verið svona kátur og glaður? Gaman væri að vera það!« »Og já, kunningi«, sagði maðurinn, »það liggur altaf vel á mjer, jeg hef altaf peninga í vasann og það geturðu líka haft með gæsina þína. Hvaðan er annars gæsin?« »Jeg fjekk hana fyrir svín«, sagði Siggi. »Og svínið?« — »Það fjekk jeg fyrir kú!«. — »Og kúna?«— »Fyrir hest!« — »Og hestinn?« — »Jeg ljet fyrir hann gullklepp sem var eins stór og höfuðið á mjer«. »En þorparinn þinn! hvar náðirðu í gullið?« »Jeg vann fyrir því í sjö ár, þetta var kaupið mitt«. — »Nú áttu ekki annað eftir en að geta orðið brýningamaður eins og jeg, þá hefurðu peninga í öllum vösum, en til þessa þarftu ekki annað en hverfistein, jeg hef einn hjerna, hann er raunar nokkuð slitinn, en það má þó notast við hann enn nokkuð. Þú getur fengið hann fyrir gæsina. Viltu það ?« »Jeg að skifta? Já, jeg held tað«, sagði Siggi mjög glaður. »Peninga í öllum vösum, það er ekki amalegt starf«. Maðurinn gaf nú Sigga gamalt hverfisteinsbrot og tinnustein, sem lá á veginum og Siggi var mjög ánægður. Hann var nú sannfærður um að hann hefði fæðst undir einhverri heillastjörnu, þegar allt gekk honum svona vel.

En sólin skein heitt. Siggi var orðinn bæði hungraður og þyrstur og steinarnir voru þungir, eins og gullkleppurinn hafði verið fyrr og hann hrópaði: »Bara að jeg þyrfti ekki að bera þessa þungu byrði . Brunnur var við veginn, þar ætlaði Siggi að svala þorsta sinum og beygði sig niður, en í því misti hann steinana, sem fjellu í brunninn og enginn varð glaðari en Siggi að geta orðið svona allt í einu laus við þessa þungu steina svona alveg af sjálfu sjer. Nú reis hann glaður á fætur, laus við allar áhyggjur og byrðar og leit svo á að hann væri gæfusamasti maður undir sólunni og kom nú mjög ánægður heim til móður sinnar, - lánsami Siggi.

Hér eru nokkrar spurningar úr efninu

Krossapróf

breyta

1 Hvað hétu bræðurnir sem söfnuðu ævintýrinu um Lánsama Sigga?

Gunnar og Jón
Dalton bræður
Siggi og Einar
Grimmsbræður

2 Hvernig endaði ævintýrið um Sigga?

Siggi varð ríkur
Siggi varð óánægður með lífið
Siggi tapaði öllu en var ánægður
Siggi átti tvær kýr í lokin



Heimildir

breyta