Knattspyrnudómarar
Knattspyrnudómarar skiptast í aðaldómara og aðstoðardómara og eru þeir ómissandi hluti af knattspyrnuleik. Ef engir dómarar eru til staðar þá getur leikurinn ekki farið fram. Hjá Knattspyrnusambandi Íslands (KSÍ) eru alls 51 dómari á skrá sem landsdómarar eða milliríkjadómarar en mun fleiri dómarar eru á skrá aðildarfélaga KSÍ sem unglinga- eða héraðsdómarar.
Unglingadómarar
breytaFyrsta dómarastigið sem gefur réttindi til að dæma hjá 4. flokki og neðar og vera aðstoðardómari upp í 2. flokk. Sitja þarf 3 klukkustunda námskeið þar sem aðallega er farið yfir knattspyrnulögin. Að því loknu þarf að taka skriflegt próf og fá að lágmarki 7 í einkunn.
Héraðsdómarar
breytaNæsta dómararstig er í boði fyrir þá sem hafa klárað unglingadómarastigið. Sitja þarf 3 klukkustunda námskeið þar sem aðaláherslan er á staðsetningar, bendingar og fleira hagnýtt. Héraðsdómarar fá réttindi til að dæma í öllum flokkum.
Landsdómarar
breytaEkki er haldið sérstakt námskeið fyrir landsdómara heldur velur KSÍ efnilega héraðsdómara til að dæma í efstu deildum karla og kvenna. Þeir skiptast í A, B, C og D dómara eftir getu.
Önnur dómaranámskeið
breytaKSÍ heldur ýmis önnur námskeið fyrir dómara, t.d. aðstoðardómara, konur og starfandi dómara sem fá kynningu á nýjum áherslum eða knattspyrnulögum.
Saga knattspyrnulaganna
breytaÍ upphafi var knattspyrna íþrótt fátæka mannsins. Hún var leikin um helgar og gat leikurinn staðið yfir frá morgni til kvölds og var allt leyfilegt. Knettinum var bæði spyrnt og hann handleikinn. Oftast enduðu þessir leikir með því að nokkrir lágu slasaðir í valnum. Þessa lýsingu er að finna í sögu knattspyrnunnar sem var gefin út af FIFA árið 1986 og lýsir knattspyrnuleik á 18. öld. Um miðja 19. öld fer leikurinn að taka á sig nýja og breytta mynd. Ýmsar útgáfur voru af reglum, en engar ritaðar. Leika mátti með höndum og fótum en sérstaklega var tekið fram að leikið skyldi prúðmannlega. Refsað var fyrir óíþróttamannslega framkomu. Leikvöllurinn skyldi afmarkaður með fánum og mörk afmörkuð. Kennari varð að skera úr um brot, ef fyrirliðar gátu ekki komist að samkomulagi. Þeir voru því í raun dómarar. Sá er fyrst kemur fram með ritaðar reglur um leikinn er skólastjóri Uppingham skóla um miðja 19. öld. Þar kemur fram að aðeins megi handleika knöttinn til að stöðva hann og setja hann niður til að spyrna. Spyrna mætti knetti ef hann væri ekki á lofti. Ýmsar útfærslur voru á reglum þessum og fór það eftir þeim skóla sem léku íþróttina, s.s. Eton, Harrow, Uppingham eða Shrewsberry. Reglur í líkingu við þær sem við þekkjum, eru settar fram eftir leik tveggja skóla sem endaði með hörmungum árið 1846. Í október árið 1848 við Trinity-skólann í Cambridge voru knattspyrnulög fyrst skráð. Þau boðuðu miklar framfarir. Þar var vallarstærð ákveðin 150 x 100 yardar. Fyrirliðar urðu að koma sér saman um fjölda leikmanna áður en leikur hófst. Stöðva mátti knöttinn með höndum en hvorki leika honum með höndum né slá. Mark var aðeins skorað ef knettinum var spyrnt milli tveggja pósta sem voru með 15 feta bili. Ekki var markásinn kominn til skjalanna og því ótakmörkuð hæð. Bannað var að hrinda með höndum og ekki mátti bregða andstæðingi. Eftir fyrsta landsleikinn sem leikinn var 30. nóvember 1872, England Skotland, urðu verulegar breytingar. Þó sérstaklega ári síðar er Knattspyrnusamband Skotlands er stofnað. Þá er farið að leika knattspyrnu með skipulögðum hætti og eftir samræmdum reglum. Það er þó ekki fyrr en árið 1937 sem við fáum 17 greinar knattspyrnulaganna eins og við þekkjum þær. Smávægilegar breytingar og aðlaganir hafa átt sér stað eftir þann tíma en í meginatriðum eru þau hin sömu. Þó svo að reglurnar séu aðeins skráðar 17 er þó ávallt stuðst við 18 greinina eins og hún er kölluð og skal hún notuð samtímis öðrum greinum, en það mun vera "skynsemin". Það er skynsamlegt að leika í anda laganna.
Knattspyrnulögin 2016-2017
breytaAlþjóðanefnd knattspyrnusambanda (IFAB) hefur gefið út knattspyrnulögin í 130 ára sögu sambandsins og sér um allar breytingar sem snúa að þeim. Knattspyrnulögin samanstanda af 17 greinum og verða hér á eftir birt brot úr tíu fyrstu greinunum.
1. grein - Leikvöllurinn
breytaMarkteigurinn: Tvær línur eru dregnar hornrétt á marklínu 5,5m frá innri brún markstangar. Þessar línur ná 5,5m inn á leikvöllinn og eru tengdar saman með línu sem dregin er samsíða marklínu. Svæðið sem afmarkast af þessum línum og marklínunni er markteigurinn.
Vítateigurinn: Tvær línur eru dregnar hornrétt á marklínu 16,5m frá innri brún hvorrar markstangar. Þessar línur ná 16,5m inn á leikvöllinn og eru tengdar saman með línu sem dregin er samsíða marklínu. Svæðið sem afmarkast af þessum línum og marklínunni er vítateigurinn. Innan hvors vítateigs er settur vítapunktur 11m frá marklínunni mitt á milli markstanganna. Hringbogi með 9,15m radíus frá hvorum vítapunkti er merktur utan vítateigsins.
Hornbogi: Hornbogi, fjórðungur úr hring með 1m radíus frá hverri hornfánastöng, er merktur innan leikvallarins.
2. grein - Boltinn
breytaAllir boltar skulu vera:
- hnöttóttir.
- gerðir úr efni við hæfi.
- að ummáli ekki meira en 70sm og ekki minna en 68sm.
- ekki meira en 450g og ekki minna en 410g að þyngd við upphaf leiks.
- með þrýsting 0,6 – 1,1 loftþyngd (600 – 1100 g/cm2) við sjávarmál.
3. grein - Leikmennirnir
breytaBæði lið skulu ekki vera skipuð fleiri en ellefu leikmenn og skal einn þeirra vera markvörður. Leikur getur hvorki hafist, né verið haldið áfram, ef annað hvort liðið er skipað færri leikmönnum en sjö. Ef lið er skipað færri leikmönnum en sjö vegna þess að einn eða fleiri leikmenn hafa viljandi yfirgefið völlinn, er dómaranum ekki skylt að stöðva leikinn og hefur hann í valdi sínu að beita hagnaði, en hins vegar má ekki hefja leik að nýju eftir að boltinn hefur farið úr leik ef lið er ekki skipað sjö leikmanna lágmarksfjöldanum.
4. grein - Búnaður leikmanna
breytaSkyldubúnaður leikmanns samanstendur af eftirfarandi aðskildum hlutum:
- peysu eða skyrtu með ermum.
- stuttbuxum.
- sokkum – vafningar eða annað efni sem notað er utan á sokkana verður að vera sama litar og sá hluti sokkanna sem það er notað á eða hylur.
- legghlífar - þær skulu gerðar úr hentugu efni, veita hæfilega vernd og huldar algjörlega með sokkunum.
- skóbúnaði.
5. grein - Dómarinn
breyta- framfylgir knattspyrnulögunum.
- stjórnar leiknum í samvinnu við hina í dómarateyminu .
- er tímavörður, heldur skrá um atvik leiksins og sendir viðeigandi yfirvöldum leikskýrslu, sem innfelur m.a. upplýsingar um agarefsingar og sérhver önnur atvik sem upp komu fyrir leik, á meðan á honum stóð, eða eftir leik.
- stjórnar og/eða gefur til kynna hvernig hefja skal leik að nýju
6. grein - Hinir í dómarateyminu
breytaSkipa fleiri í dómara (2 aðstoðardómara, fjórða dómara, 2 auka-aðstoðardómara og vara-aðstoðardómara) í dómarateymi leikja. Hlutverk þeirra er að aðstoða dómarann við stjórn leiksins í samræmi við knattspyrnulögin, en lokaákvörðunina er alltaf dómarans að taka.
7. grein - Leiktíminn
breytaLeikurinn stendur yfir í tvo jafna 45 mínútna hálfleiki sem óheimilt er að stytta nema samkomulag sé um annað fyrir upphaf leiksins milli dómarans og beggja liða sem jafnframt sé í samræmi við mótareglur. Leikhlé Leikmenn eiga rétt á leikhléi þegar leikur er hálfnaður sem skal ekki vara lengur en í 15 mínútur.
8. grein - Upphaf leiks og leikur hafinn að nýju
breytaUpphafsspyrna er notuð til þess að hefja báða hluta leiksins, báða hluta framlengingar og til þess að hefja leik að nýju eftir að mark hefur verið skorað. Aukaspyrnur (beinar eða óbeinar), vítaspyrnur, innköst, markspyrnur og hornspyrnur eru aðrar aðferðir við að hefja leik að nýju.
9. grein - Boltinn í og úr leik
breytaBoltinn er úr leik þegar:
- hann hefur allur farið yfir marklínu eða hliðarlínu, hvort heldur með jörðu eða á lofti.
- dómarinn hefur stöðvað leikinn.
Boltinn er annars alltaf í leik, þ.m.t. þegar hann hrekkur af einhverjum úr dómarateyminu, markstöng, þverslá eða hornfánastöng og er áfram inni á leikvellinum.
10. grein - Hvernig úrslit leikja ráðast
breytaÞað lið sem skorar fleiri mörk í leik telst vera sigurvegari. Skori hvorugt liðið mark, eða bæði jafnmörg, eru úrslit leiksins jafntefli. Þegar gera ráð fyrir að fenginn sé sigurvegari í leik, eða þegar samanlögð úrslit heima og heiman eru jöfn, má eingöngu beita eftirfarandi aðferðum til að skera úr um sigurvegara:
- reglunni um mörk á útivelli.
- framlengingu.
- vítaspyrnukeppni.
Krossapróf
breyta