Þetta er Wikibók um jarðarber.

Jarðarber

Jarðarber eru ræktuð um allan heim og þekkt fyrir hversu safarík og ljúffeng þau eru, hollustu, góðan ilm og fallega rauða lit sinn. Hér geta áhugasamir fræðst um jarðaber og hvað þarf að hafa í huga við ræktun þeirra.






Jarðarberjaplantan

breyta

Blóm og blöð plöntunnar

Jarðarberjaplöntur eru jarðlægar skriðplöntur. Þær eru af rósaætt og tilheyra ættkvíslinni Fragaria sem telur tuttugu tegundir og mikinn fjölda undirtegunda og ræktunaryrkja. Þær eru þrír til fimmtíu sentímetrar að hæð, eftir tegundum og ræktunarafbrigðum, og fjölga sér með fræjum eða jarðrenglum. Krónublöð blómanna eru fimm og hvít að lit. Blómin eru ýmist ein eða tvíkynja eftir tegundum. Upp af gildum jarðstöngli með trefjarót vaxa upprétt, stilklöng og þrífingruð sagtennt blöð. Oftast eru berin rauð en einnig eru til hvít og græn jarðarber.


Jarðarberið

breyta

Jarðarber eru ekki raunveruleg ber og heldur ekki ávöxtur í eiginlegri merkingu. Þau eru svokölluð skinaldin. Hvert jarðaber er í raun margir ávextir en hvert “fræ” í jarðarberi er einn ávöxtur. Berið sjálft er svo efsti partur stönguls sem umbreyst hefur í rauðan og safaríkan vef. Jarðarber eru mjög næringarrík fæða, þau geyma í sér mikið magn andoxunarefna og eru c-vítamínrík. Einnig innihalda þau kalíum (potassium), K-vítamín og magnesíum sem eru mikilvæg fyrir góða heilsu.


Villijarðaber

breyta

Villijarðarber

Villt jarðarber vaxa mjög víða í heiminum og þá mismunandi afbrigði. Þau finnast hér á Íslandi en ekki á nágrannaeyjum eins og Grænlandi, Færeyjum eða Svalbarða og er talið að þau hafi komið hingað frá Noregi. Hér finnast þau víða um land, einkum í skóglendi og í þurrum, sólríkum grasbrekkum. Það afbrigði sem vex villt hér á landi er oftast kallað villijarðarber (Fragaria vesca) og eru til heimildir um þessa plöntu hér á landi allt frá 18. öld. Þau eru mun minni en þau jarðaber sem ræktuð eru til átu, þau þykja afar bragðgóð ef þau ná að þroskast sem gerist ekki alltaf þar sem þau þroskast seint og því ekki tilbúin ef haustar snemma.







Ræktuð jarðarber

breyta

Jarðarber til sölu

Ekki er vitað fyrir víst hvenær menn fóru fyrst að neyta jarðarberja en fræ þeirra hafa fundist við rannsóknir á mannvistarleifum frá nýstein- og járnöld.

Heimildir hafa fundist fyrir jarðarberjaræktun á 14. öld í Evrópu en ræktunin varð ekki algeng á fyrr en í byrjun 19. aldar eftir að átt höfðu sér stað kynbætur á villtum evrópskum plöntum meðal annars með því að víxla þeim við jarðarber frá Ameríku. Í dag eru þekktar þúsundir yrkja af jarðarberjum sem orðið hafa til í tilraunum manna til að betrumbæta bragð, stærð og endingu þeirra, en ekki síður til að fá fram gerðir sem rækta má við hin ólíkustu skilyrði. Stór hluti þeirra er ætlaður til þess að borða fersk en einnig hefur verið þróaður fjöldi yrkja sem henta sérstaklega til matvælavinnslu og lengri geymslu eins og niðursuðu eða sultunar. Jarðarberin sem við þekkjum hvað best í dag er svokölluð Fragaria Ananassa sem í daglegu tali eru kölluð garðjarðarber og eru þau kynblanda tveggja tegunda annarri frá austurströnd Bandaríkjanna og hinnar frá Chile.


Ræktun á Íslandi

breyta

Ræktun á jarðaberjum á Íslandi á sér ekki langa sögu og eru fyrstu heimildir frá lokum 19. aldar og gengu þær tilraunir frekar brösuglega. Með tímanum hafa orðið til yrki sem henta betur til ræktunar hér á landi með tilliti til veðurfars og smá saman hefur ræktendum fjölgað, bæði þeim sem eru að rækta jarðarber í atvinnuskyni og þeim sem rækta berin sér til ánægju og yndisauka. Í dag er hægt að kaupa íslensk jarðarber í búðum frá því snemma sumars og fram á haust og framleiða íslenskir ræktendur yfir 100 tonn á ári.


Val á plöntum

breyta

Ungar jarðarberjaplöntur

Það er mikilvægt, að velja gott yrki af jarðaberjaplöntum þegar hefja á ræktun jarðaberja. Gróðrarstöðvar selja yfirleitt yrki sem hafa reynst vel í ræktun hér á landi. Einnig getur verið gott að fá jarðrenglur af plöntum hjá öðrum ræktendum sem hafa reynst vel. Renglurnar ræta sig ef þeim er komið fyrir í mold og út frá þeim vaxa nýjar jarðaberjaplöntur. Einnig má taka renglur af plöntum og gróðursetja þær í reit þar sem þær eru geymdar yfir veturinn, þannig verða alltaf til nýjar plöntur til gróðursetningar á hverju vori.




Aðstæður og umhverfi

breyta

Það er mismunandi hvernig aðstæður og umhverfi geta verið til ræktunar, en það þarf alltaf að hafa í huga að skapa plöntunni sem best skilyrði. Fyrst þarf að huga að staðsetningunni. Velja skal skjólgóðan og sólríkan stað. Berin þurfa mikla sól og því meiri sól sem plönturnar fá því meiri verður uppskeran. Til að flýta uppskerunni er gott að rækta jarðarber í gróðurreit eða undir hlíf . Þau vaxa samt ágætlega án aðstoðar en uppskeran er þá seinna á ferðinni. Jarðarber gera ekki miklar kröfur til jarðvegs en vilja helst súran jarðveg. Moldin má ekki verða of þurr og því þarf að vökva reglulega í þurrkatíð. Plönturnar þola þó ekki að standa þar sem vatn safnast fyrir því að þá fúna ræturnar og skemmast.

Gróðursetning

breyta

Jarðarberin má rækta á ýmsan hátt, t.d. í beði, kerjum, pottum eða gróðurskálum. Góð regla er að hafa eina plöntu á rúmlega einn lítra af mold. Ekki er gott að planta mörgum plöntum saman í pott þó lítrafjöldinn sé nægur þar sem tryggja þarf að allar plönturnar fái næga sól og þarf því að vera 8 - 10 cm á milli þeirra. Gott er að blanda smá lífrænum áburði saman við moldina áður en plönturnar eru settar niður. Það má ekki þjappa moldinni of mikið þegar plöntunni er komið fyrir því það dregur úr loftrýminu sem getur valdið því að ræturnar eiga erfiðara með að vaxa. Ef gróðursetja á plöntur í beð er ágætt að miða við að hafa 20-30 sentímetra á milli þeirra og gæta þess að setja þær ekki of djúpt. Byrja skal á því að grafa holur og bleyta jarðveginn vel áður en plönturnar eru gróðursettar. Eftir að búið er að koma plöntunum fyrir í holunum þarf að hylja rætunar með auka mold til þess að ræturnar þorni ekki upp og vökva síðan yfir til þess að tryggja að plöntunar fái nægt vatn en þó ekki of mikið. Á veraldarvefnum má fá margar hugmyndir um lausnir til gróðursetningar, t.d. að gróðursetja í rennur, nota vörubretti og smíða turna. Hér má sjá hugmynd af því hvernig er hægt að nota vörubretta og hér má sjá myndband af því hvernig ungplöntum er komið fyrir í rennum.

Umhirða

breyta

Jarðvegsdúkur notaður til varnar

Jarðarberjarækt krefst natni og umhyggju. Það verður að passa upp á vökvun, að reyta burt allt illgresi og gera ráðstafanir til að verja berin fyrir sniglum og annarri óværu með t.d. sniglagildrum, jarðvegsdúk og fleiru. Gott er að gefa plöntunum áburð að minnsta kosti tvisvar yfir sumarið, á vorin og um miðjan júlí því á haustin þroska plönturnar blómvöxt næsta árs og þá kemur áburðurinn sér vel. En passa þarf upp á að gefa ekki of mikið, sérstaklega ekki af köfnunarefni því þá eyða plönturnar allri orkunni í blaðvöxt. Móðurplantan má ekki mynda of margar renglur því að það dregur úr magni berja. Renglur sem ekki á að framrækta er því best að klippa burt reglulega allt sumarið. Jarðarberjaplöntur gefa yfirleitt best af sér á öðru ári og ekki er ráðlegt að nýta plönturnar lengur en fjögur til fimm ár. Með því að þreifa rótarhálsinn má finna hvað plantan er orðin gömul. Harður og trénaður rótarháls gefur til kynna að hún sé komin til ára sinna og rétt að skipta um plöntu eða rækta nýja með jarðrenglum af þeirri gömlu.

Verkefni og spurningar

breyta
  1. Nefndu nokkur dæmi um framleiddar vörur sem bragðast eða lyktast eins og jarðarber.
  2. Finndu uppskrift á netinu sem inniheldur jarðarber.
  3. Teiknaðu mynd af jarðarberjaplöntu og skrifaðu stutta lýsingu með.


Krossapróf

breyta

1 Af hvaða ætt eru jarðarberjaplöntur?

Rabarbaraætt
Rósaætt
Bláberjaætt
Plómuætt

2 Jarðarber eru ...

A-vítamínrík
B-vítamínrík
C-vítamínrík
D-vítamínrík

3 Villijarðarber eru nýlega farin að vaxa hér á landi

Rétt
Rangt

4 Hvað er yrki?

Annað afbrigði plöntu en er algengast
Flokkunarheiti sem er undirskipað tegund
Nýtt afbrigði tegundar
Ein tegund jarðarberjaplöntu

5 Hvað er hægt að gera við jarðrenglur sem jarðarberjaplantan myndar?

Saft með jarðarberjabragði
Ekkert, það þarf að henda þeim því þær eru eitraðar
Nota til að lækna hálsbólgu
Rækta nýjar jarðarberjaplöntur


Heimildarskrá

breyta

Heimildir:

breyta

Ítarefni:

breyta