<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur: Hjördís Rut Sigurðardóttir.

Þessi lexía fjallar um ævi og ritstörf enska rithöfundarins Jane Austen. Hún hentar sem ítarefni og bakgrunnur fyrir lestur bóka eftir Jane Austen.

Ævi og störf

 

Jane Austen fæddist þann 16. desember 1775 í þorpinu Steventon í Hampshire. Hún ólst upp í hópi systkina sinna sem voru sjö talsins. Hún átti eina systur sem hún hélt góðu sambandi við og mikið af því sem vitað er um ævi Austen er komið úr bréfum sem hún ritaði til systur sinnar, Cassöndru. Eftir að Jane Austen lést árið 1817 eyddi Cassandra miklu af bréfum systur sinnar til sín, en ekki er vitað hvers vegna hún kaus að gera það.

Jane Austen byrjaði að skrifa ung að árum og er sögð hafa byrjað á fyrstu skáldsögu sinni árið 1789, aðeins 14 ára að aldri. Faðir hennar var prestur og fjölskylda hennar studdi hana við skriftirnar. Fjölskyldan flutti til Bath árið 1801 og í nágrenni bæjarins er sögusvið margra bóka Austen. Eftir að faðir Austen lést árið 1805 fluttist hún nokkrum sinnum á milli staða. Fyrst fluttist hún til Southampton þar sem hún bjó hjá Frank bróður sínum og fjölskyldu hans ásamt móður þeirra, en fluttist svo til Chawton árið 1809 þar sem auðugur bróðir hennar, Edward að nafni, hýsti hana. Árið 1816 tók heilsu hennar að hraka, svo hún fluttist til Winchester í maí árið 1817 til að búa nær lækninum sínum. Heilsa hennar varð sífellt verri þar til hún lést þann 18. júlí 1817, 41 árs að aldri. Hún er talin hafa látist úr Addison's sjúkdómnum, sem þá var óþekktur.

Jane fékk bónorð árið 1802 frá manni sem var sex árum yngri en hún. Hún hafnaði bónorðinu þrátt fyrir að maðurinn væri efnaður, en á þessum tíma þótti verra en allt að "pipra", einkum vegna þess hversu takmarkandi sú staða var fyrir konur á þessum tíma. Hjónabandið, ást, fjárhagsleg og félagsleg staða kvenna er einmitt viðfangsefni Austen í skáldsögum sínum. Þrátt fyrir að hjónabandið væri helsta bjargræði kvenna á þessum tíma hafnaði hún bónorðinu strax næsta dag og þykir ljóst að hún hafi ekki borið nokkurn ástarhug til mannsins. Austen giftist aldrei.

Árið 1811, aðeins sex árum fyrir dauða Austen, kom fyrsta skáldsaga hennar, Sense and Sensibility, út með hjálp Henry bróður hennar og Eliza, konu hans, sem gáfu bókina út á sinn kostnað. Önnur skáldsaga hennar, Pride and Prejudice kom út tveimur árum síðar, eða árið 1813. Hún hlaut lofsamlega dóma og Austen þótti mjög vænt um hana og kallaði hana "elsku barnið sitt". Mansfield Park kom út ári síðar og Emma árið 1816. Tvær skáldsögur Jane Austen voru gefnar út eftir dauða hennar, Northanger Abbey og Persuasion, sem komu út árið 1818.

Allar skáldsögur Jane Austen voru gefnar út án hennar höfundarnafns, eins og venjan var um verk kvenrithöfunda á Englandi á þessum tíma. (Sbr. Brontë systur.)

Jafnvel þótt bækur Austen séu meðal þeirra elskuðustu í enskum bókmenntum hafa þær líka oft verið gagnrýndar. Nútímalesandanum kann að finnast heimurinn sem hún lýsir fráhrindandi og órómantískur. Á tímum Austen voru takmarkaðir möguleikar og bæði konur og menn giftust af fjárhagsástæðum. Hluti af vinsældum Austen kemur til vegna þess hversu vel hún fléttar saman skilning og athuganir á mannlegu eðli og sannfærandi sögur um ástina. Spennan í skáldsögunum kemur mikið til vegna þess að söguhetjurnar þurfa að sætta fjárhagsleg sjónarmið sem gátu snúist um lifibrauð þeirra og önnur sjónarmið svo sem ást, vináttu, heiður og sjálfsvirðingu.

Skáldsögur

Sense and Sensibility kom út fyrst skáldsagna Austen. Hún var gefin út undir höfundarnafninu ,,A Lady" sem gæti útlagst sem ,,Dama" á íslensku. Hún var fyrst gefin út árið 1811. Skáldsagan fjallar um systurnar Elinor sem er 19 ára og Marianne sem er 17 ára. Mörgum virðist sem Elinor standi fyrir ,,sense" í skáldsögunni og að Marianne standi fyrir ,,sensitivity". Það kann þó að vera of ströng skilgreining og líklegra að eiginleikar þeirra endurspegli hvoru tveggja þar sem Marianne býr einnig yfir góðum kostum sem Elinor virðist skorta. Austen launar Elinor þó með því hjónabandi sem hún óskar í lok sögunnar, en óvíst er um hvort afdrif Marianne verði góð.

Pride and Prejudice eða Hroki og hleypidómar eins og skáldsagan kallast á íslensku er vinsælasta skáldsaga Austen fyrr og síðar. Hún kom fyrst út árið 1813. Hún segir frá lífi fólks innan efri stétta þess tíma og segir frá misskilningi, fordómum og síðar ást og skilningi milli hinnar líflegu og skarpgreindu Elizabeth Bennet og hins hrokafulla Hr. Darcy. Skáldsöguna skrifaði Austen fyrst á árunum 1796-1797 undir heitinu First Impressions. Upphafsorð skáldsögunnar eru meðal þekktustu setninga enskra bókmennta: ,,It is a truth universally acknowledged, that a single man in possession of a good fortune must be in want of a wife.". BBC birti niðurstöður könnunar um ,,Elskuðustu bók Bretlandseyja" árið 2003. Úrtakið var mjög stórt og niðurstöðurnar leiddu í ljós að Pride and Prejudice var í öðru sæti á listanum á eftir Lord of the Rings eftir Tolkien.

Mansfield Park var þriðja skáldsaga Austen til að vera gefin út. Hún kom út árið 1814. Hún er líklega óvinsælasta og umdeildasta skáldsaga Jane Austen. Jafnvel móður hennar þótti hetja skáldsögunnar, Fanny Price daufgerð og fleirum hefur þótt hún óviðkunnaleg á margan hátt. Í skáldsögunni kemur fram mikil háðsádeila á samfélagið og er líklega raunsæjasta skáldsaga Austen þar sem Fanny Price kemur mun neðar úr samfélagsstiganum en hinar aðalsöguhetjurnar hennar.

Emma er gamansöm skáldsaga sem kom út árið 1817. Emma Woodhouse, aðalsöguhetjan, er vel efnuð, falleg og klár en nokkuð spillt. Emma er fyrsta söguhetja Jane Austen sem þarf ekki að hafa fjárhagsáhyggjur. Þetta veldur því að Emma lýsir því yfir að hún hafi þess vegna enga löngun til að giftast. Þó Emma þurfi hvorki að hafa fjárhagsáhyggjur né þurfi að giftast af fjárhagsástæðum líkist hún öðrum söguhetjum Austen að því leyti að hún er greind, ung kona sem hefur of lítið fyrir stafni og hefur ekki tök á að breyta lífi sínu. Daglegt líf hennar er dapurlegt þrátt fyrir ágætar aðstæður. Þetta getur staðið fyrir hljóðlát mótmæli Austen gegn takmörkunum á lífi kvenna, einkum þeirra sem eru einhleypar og barnlausar.

Northanger Abbey kom út eftir að Jane Austen lést eða í desember 1817. Austen lauk við að skrifa hana fyrst allra bóka sinna. Bókin var seld bóksala í Bath árið 1803 en sá lét hana liggja óhreyfða í hillum sínum í mörg ár, eða allt þar til bróðir Jane Austen, Henry, keypti hana af honum aftur fyrir sama verð og hann hafði keypt hana á. Þá vissi hann ekkert um að höfundur bókarinnar væri nú metsöluhöfundur á Englandi. Sagan er undir áhrifum ,,gothic" sagna. Catherine Morland er aðalsöguhetjan. Hún hefur nýlokið við að lesa skáldsögu í þeim anda og þegar henni býðst að fara til Northanger Abbey með vinum sínum úr Tilney fjölskyldunni býst hún við að ferðin verði jafn spennandi og sagan sem hún var að ljúka.

Persuasion er síðasta fullkláraða skáldsaga Jane Austen. Hún kom út eftir andlát hennar árið 1818. Anne Elliot er aðalsöguhetjan. Hún hafði orðið ástfangin af fátækum manni átta árum fyrr, en fjölskylda Anne var óánægð með val hennar á mannsefni þar sem hann þótti ekki nógu fínn pappír til að kvænast inn í fjölskylduna. Anne var þess vegna sannfærð um (persuaded) að slíta sambandinu við Frederick Wentworth, en sér eftir ákvörðun sinni þegar sagan gerist. Þá er Anne orðin 27 ára og enn ,,piparmey". Anne rekst nú aftur á fyrrum unnusta sinn sem er orðinn kafteinn og fylgist með honum ganga á eftir ungri nágrannastúlku hennar.

Önnur verk

Þegar Austen lést skildi hún eftir sig óútgefin verk. Þar eru einna þekktastar smáskáldsagan (novella) Lady Susan og skáldsögurnar sem hún náði ekki að ljúka, Sanditon og The Watsons. Þær voru síðar gefnar út.

Kvikmyndir og sjónvarpsmyndir

 

Margar kvikmyndir hafa verið gefnar út eftir skáldsögum Jane Austen og einnig þekktar sjónvarpsmyndir. Ein þekktasta sjónvarpsmyndin er BBC sjónvarpsmynd sem var gerð eftir sögunni Pride and Prejudice. Sú saga er einna þekktust sagna Austen og hefur verið kvikmynduð nokkrum sinnum. Einnig hefur verið gerð Bollywood kvikmynd á Indlandi sem byggir á henni, Bride and Prejudice og þar að auki eru myndirnar um Bridget Jones's Diary, eftir bókum Helen Fielding að nokkru leyti byggðar á skáldsögunni.

Skáldsagan Emma hefur líka verið löguð að hvíta tjaldinu nokkrum sinnum, síðast árið 1996 í kvikmynd með Gwyneth Paltrow í aðalhlutverki.

Sense and Sensibility var kvikmynduð árið 1995 í leikstjórn Ang Lee og naut mikilla vinsælda. Emma Thompson fór með hlutverk hinnar alvarlegu og ábyrgðarfullu Elinor Dashwood og Kate Winslet lék hina ungu Marianne Dashwood. Einnig er til nýleg kvikmynd úr smiðju Bollywood á Indlandi eftir skáldsögunni, auk eldri sjónvarpsmynda.

Persuasion, Mansfield Park og Norhtanger Abbey hafa einnig verið kvikmyndaðar, bæði fyrir sjónvarp og hvíta tjaldið.

Krossapróf

1 Jane Austen var frá:

Bandaríkjunum
Kanada
Ástralíu
Englandi

2 Jane Austen skrifaði bækur sem fjalla um:

Ást og hjónaband
Stöðu kvenna
Yfir- og millistétt þess tíma
Allt ofantalið er rétt

3 Bækurnar um Bridget Jones

eru eftir Jane Austen.
eru leiðinlegar.
byggja að nokkru leyti á skáldsögunni Pride and Prejudice eftir Austen.
byggja á skáldsögunni Emma eftir Jane Austen.

4 Hver er þekktasta skáldsaga Jane Austen?

Emma
Pride and Prejudice
Mansfield Park
Sense and Sensibility

5 Á hvaða öld komu skáldsögur Austen út?

20. öld
19. öld
18. öld
17. öld

6 Jane Austen var...

hamingjusamlega gift kona.
í raun karlmaður sem skrifaði undir dulnefni konu.
ensk millistéttarkona sem skrifaði undir höfundarnafni karlmanns.
eldabuska hjá ríkum aðalsmanni í London.

7 Hvaða skáldsaga Jane Austen hefst á þessum fleygu orðum: "It is a truth universally acknowledged, that a single man in possession of a good fortune, must be in want of a wife."?

Pride and Prejudice
Sense and Sensibility
Emma
Northanger Abbey

8 Austen hefur verið gagnrýnd fyrir hvað af eftirtöldu?

Fyrir að skrifa innihaldslítinn texta um málefni sem litlu skipta.
Fyrir að tiltaka ekki í skrifum sínum þau heimsmál sem mest brunnu á heiminum á þeim tíma sem hún skrifaði.
Fyrir að skrifa skáldsögur sem fyrst og fremst fjalla um teboð.
Allt af ofantöldu er rétt


Sama próf á Hot potatos formi Krossapróf úr efninu

Heimildir

Ítarefni

The Republic of Pemberley

Jane Austen Centre Bath UK England

Austen.com Front Door

SparkNotes: Pride and Prejudice

Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: