Hypertext - stiklutexti

<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Dagný Birnisdóttir

 
Fyrsti netþjónninn

Þann 6. ágúst 1991 setti Bretinn Tim Berners-Lee tengil á tölvukóðann fyrir www á alt.hypertext umræðusvæðið á Netinu svo aðrir gætu hlaðið honum niður og nýtt hann. Á þessari fyrstu vefsíðu voru útskýringar á veraldarvefnum og hvernig ætti að setja upp netþjón. Berners-Lee sagði að markmiðið væri að tengja saman upplýsingar sem geymdar væru á rafrænum hætti. Til þess var notaður stiklutexti en Ted Nelson hafði kynnt það hugtak 1965 en Berners-Lee var sá fyrsti sem tengdi saman stiklutexta og Netið.

 
Unnið við stiklutexta við Brownháskóla 1969

Hvað er stiklutexti

breyta

Bókartexti hefur bara eina vídd, er línulegur texti en nettexti er fjölvíður. Það merkir að hægt er að stökkva fram og til baka, textinn er í mörgum lögum. Orðið hypertext sem notað hefur verið erlendis yfir nettexta hefur verið þýtt á íslensku sem stiklutexti enda merkir sagnorðið að stikla m.a. að hoppa um, svipað og gert er þegar unnið er með nettexta. Einkenni prentaðs máls er stöðugleikinn, ekki er hægt að breyta textanum nema með nýrri útgáfu. Hin línulega framsetning prentaðs texta er yfirleitt rökleg og framvindan leiðir oftast til niðurstöðu í lokin. Efni á Netinu er ekki eins stöðugt og því er alltaf verið að breyta. Ef efni á Neti hefur ekki verið breytt lengi hefur lesandi tilhneigingu til að treysta því ekki. Það er hvorki upphaf né endir á stiklutexta. Hann er sveigjanlegur í tíma og rúmi því hann myndar ekki röð heldur vef. Það er einhver yfirborðstexti en síðan er krækt í dýpri lög. Stiklutexti er ekki háður orðum því myndir í hvers konar formi og hljóð geta verið hluti hans. Vald höfundar stiklutexta er minna en vald höfundar prentaðs texta. Valdið hefur að hluta til færst til lesandans. Lesandinn fær ekki fyrirframgefna niðurstöðu þar sem hann getur hætt að lesa. Hann verður sjálfur að ákvarða hvenær hann hefur komist að niðurstöðu þannig að hann geti hætt að lesa. Við uppsetningu á stiklutexta er mikilvægt að lesandi fái í upphafi góða yfirsýn þannig að hann sjái hvaða leiðir hann geti farið. Góður stiklutexti býður lesandanum upp á að dýpka þekkingu sína eftir því hvernig áhugi hans og þarfir eru. Þannig er auðvelt með stiklutexta að útvíkka efnið, eitthvað sem hefðbundinn texti gerir ekki.

Stiklutexti og nám

breyta

Með stiklutexta verður samspil nemenda og námsefnis fjölbreyttara en ef um hefðbundinn prentaðan texta væri að ræða því með stiklutexta er þekkingu ekki einungis miðlað með texta. Hið ólínulega eðli stiklutextans veitir nemendum frelsi til að fara eigin leiðir í gegnum námsefnið. Nemandinn getur þannig tekið mið af getu sinni, þörfum sínum og áhuga og þannig verður hann virkur í þekkingaruppbyggingu sinni. Til þess að þetta takist þarf nemandinn m.a. að búa yfir þeirri hæfni að geta stjórnað eigin námi og vera með skýr markmið með því þannig að hann eigi auðveldara með að velja og hafna. Stiklutexti veitir einnig mikla möguleika á að taka tillit til sérþarfa nemenda t.d. varðandi ýmsa fötlun.

Tilkoma stiklutexta kallar á endurskilgreiningu á hugtakinu læsi. Færni í að skanna texta og ná fljótt góðri yfirsýn eru mikilvægir eiginlegar þegar unnið er með stiklutexta. Mikilvægt er að nemendur venjist að lesa svona texa og geti sett fram ritað mál með þessum hætti.


Heimildir

breyta