Hallgrímur Pétursson (Hvalsnes)
Þegar síra Hallgrímur Pétursson fór suður á Hvalsnes að taka við prestakalli sínu þar, var hann fótgangandi. Kom hann seinni part dags á prestssetrið, þreyttur mjög og svangur. Í eldhúsi sat kona og eldaði graut og bað hann hana að gefa sér að borða. Bað kerling hann að hypja sig í burtu hið bráðasta og gaf hreint afsvar, því að hún sagði, að vellingurinn ætti að vera handa nýja sóknarprestinum, honum síra Hallgrími. Varð síra Hallgrími þá að orði:
Einhvern tíma, kerling, kerling, kann svo til að bera, að ég fái velling, velling og verði séra, séra
RAUÐSKINNA II 59