Hallgerður á Bláfelli (Stafnes, Bláfell)

Maður er nefndur Ólafur og kallaður hinn eyfirzki. hann fór suður á Stafnes á hverjum vetri og reri þar til fiskjar. Einhverju sinni var það að Ólafur fór suður fjöll; gjörði þá á hann drífu mikla og fannkomu svo hann missti vegarins og villtist lengi uns hann þekkti sig undir fjalli því er Bláfell heitir; sér hann þá í drífunni ekki alllangt frá sér tröllkonu ákaflega stóra. Hún yrðir á hann að fyrra bragði og segir:

"Ólafur muður, ætlarðu suður? Vel mun þér veita með hestana feita. Ræð ég þér það rangkjaftur að þú snúir heim aftur. Gyrtu þig betur ef þú ætlar að róa á Stafnesi í vetur."

Ólafur lét sér ekki bilt við verða orð tröllkonunnar þó hann treystist ekki að deila illdeilum við hana og segir því:

"Sittu heil á hófi Hallgerður á Bláfjalli."

Þá kvað hún:

"Fáir kvöddu mig svo forðum og farðu vel ljúfurinn ljúfi."

Ólafur varð síðan gengið í för tröllkonunnar og sá hann að blóð var í þeim. Bauð hann henni þá að setjast á lend áburðarhestsins, en láta þó hestinn jafngóðan. Hún þáði það og sagði: "Kennir hver sín þó klækjóttur sé." Reið hún svo um stund þangað til hún kom Ólafi aftur á rétta leið. En þegar hún skildi við hann sagði hún honum að hann skyldi sleppa hestunum er suður kæmi og ekki skipta sér af þeim meir. Gekk svo Ólafi ferðin greiðlega; þegar hann kom suður sleppti hann hestunum og hurfu þeir bráðum. En í lokin um vorið komu þeir aftur og voru þá hjólspikaðir. Sneri Ólafur norður aftur og er hans ekki getið að fleiru.