Halldór Laxness
Hver var Halldór Laxness?
breytaHalldór (Kiljan) Laxness fæddist 23. apríl 1902. Hann var íslenskur rithöfundur og skáld, jafnan talinn einn helsti íslenski rithöfundurinn á 20. öld.
Hann byrjaði snemma að lesa bækur og skrifa sögur, og þegar hann var 13 ára gamall fékk hann sína fyrstu grein birta í Morgunblaðinu undir nafninu H.G., og ekki löngu síðar, þá 14 ára gamall, birti hann grein í sama blaði undir sínu eigin nafni H. Guðjónsson frá Laxnesi.
Á ferli sínum skrifaði Halldór skáldsögur, smásögur, margar blaðagreinar, samdi ljóð, leikrit, þýddi bækur yfir á íslensku og fleira.
Af hverju Laxness?
breytaHalldór Laxness fékk fyrst nafnið Halldór Guðjónsson. Árið 1905 hóf fjölskylda hans búskap að Laxnesi í Mosfellssveit, og kenndi Halldór sig við þann bæ æ síðar. Millinafnið Kiljan tók hann upp þegar hann skírðist til kaþólskrar trúar.
Fyrir hvað var hann þekktur?
breytaÁrið 1955 var Halldór Laxness sæmdur Nóbelsverðlaununum. Það var í Stokkhólmi sem Halldór veitti verðlaununum viðtöku frá þáverandi konungi Svía, Gústaf VI. í Hljómleikahúsinu við Kóngsgötuna. Nóbelsverðlaunin höfðu strax jákvæð áhrif, og bækur Halldórs voru í kjölfarið þýddar á fleiri tungumál og menn sem höfðu ekki gefið verkunum gaum áður kynntu sér bækurnar hans. Verðlaunin, Nóbelsskjalið og gullpeningurinn, eru varðveitt í Þjóðminjasafninu og í myntsafni seðlabankans.
Auk Nóbelsverðlauna fékk Halldór fjöldan allan af viðurkenningum fyrir ritstörf sín, en dæmi um aðrar viðurkenningar sem honum hlotnuðust voru: Menningarverðlaun ASF, Silfurhesturinn (bókmenntaverðlaun dagblaðanna) og virt dönsk verðlaun kennd við Martin Andersen Nexö (en), svo nokkur séu nefnd.
Halldór Laxness var gerður að heiðursdoktor við eftirfarandi háskóla:
1968: Aabo háskólinn (en) í Finnlandi í tilefni 50 ára afmælis sænskudeildarinnar við skólann, 1972: Háskóli Íslands í tilefni sjötugsafmælis Halldórs, 1977: Edinborgarháskóli í Skotlandi, 1982: Háskólinn í Tübingen í Þýskalandi í tilefni áttræðisafmælis Halldórs.
Nóbelsverðlaun
breytaNóbelsverðlaunin eru veitt árlega til einstaklinga eða samtaka sem hafa veitt framúrskarandi framlög til samfélagsins, hvort sem er í gegnum rannsóknir, listsköpun eða öðru. Litið er á þessi verðlaun sem æðstu viðurkenningu sem fólk getur fengið fyrir framlög til mannkynsins.
Verðlaunin voru sett á fót sem hinsta ósk hins sænska Alfred Nobels (1833-1896), sem fann upp dýnamítið. Hann var hneykslaður á því hvernig uppfinning hans var notuð til illra verka og vildi að verðlaunin færu til þeirra sem gerðu heiminn að betri stað til að lifa í.
Fyrstu verðlaunin voru afhent við athöfn árið 1901, í gamla konunglega músíkskólanum í Stokkhólmi og voru veitt í greinunum bókmenntir, eðlisfræði, efnafræði og læknisfræði.
Verðlaunin eru afhent 10. desember (dagurinn sem Nobel dó) hvers árs en oftast er tilkynnt hverjir verðlaunahafarnir eru í október.
Í dag eru veitt verðlaun í eftirfarandi flokkum:
Bókmenntum
- Efnafræði
- Eðlisfræði
- Friðarverðlaunin
- Læknisfræði
Halldór Laxness er eini íslenski nóbelsverðlaunahafinn og hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1955.
Verk
breytaHalldór skrifaði fjölmörg skáldverk, þýddi einnig verk annarra yfir á íslensku og sendi frá sér greinar í dagblöð og tímarit. Alls skrifaði hann 13 stórar skáldsögur; Brekkukotsannál, Gerplu, Atómstöðina, Heimsljós I og II, Íslandsklukkuna, Kristnihald undir Jökli, Söguna af brauðinu dýra, Sölku Völku I og II, Sjálfstætt fólk I og II, Smásögur (þar sem öllum smásögum skáldsins var safnað saman í eina bók), Vefarann mikla frá Kasmír og Guðsgjafarþula var svo síðasta skáldsagan sem hann skrifaði. Einnig orti Halldór ýmiskonar kvæði og gaf út fjórar minningasögur, ein þeirra er bókin Í túninu heima. Auk þess samdi hann fimm leikrit og leikgerð að einni skáldsögu, en fyrsta leikritið samdi Laxness ekki fyrr en hann var orðinn þroskaður höfundur, Straumrof, 1934.
Verk Halldórs eru fjölbreytt og hafa komið út í meira en 500 útgáfum og á 43 tungumálum auk móðurmálsins. Halldór þýddi verk frá öðrum og þar má nefna Birtíng eftir Voltaire, Vopnin kvödd eftir Ernest Hemingway og Fjallkirkjuna eftir Gunnar Gunnarsson.
- Hér má sjá lista yfir verk Halldórs Laxness: [[1]]
Heimildir og ítarefni
breyta- Halldór Laxness syngur Maístjörnuna, hljóðupptaka á Gljúfrasteini árið 1987. https://www.youtube.com/watch?v=2mzdUGGHSns
- Halldór Laxness rekur ævi sína og verk hljóðupptaka af sjónvarpsþáttum frá árinu 1998 https://www.youtube.com/watch?v=KAd7plDaKC4
- Þjóðskáldið talar um íslenska náttúru. https://www.youtube.com/watch?v=L-Wj134925g
- Úr viðtali sem tekið var við Halldór Laxness 1982 í tilefni af áttræðisafmælis skáldsins. https://www.youtube.com/watch?v=-64RmEAGQpY
Krossapróf
breyta