<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Ester Þorsteinsdóttir

Johann Gensfleisch Zur Laden Zum Gutenberg

 

Johann Gensfleisch Zur Laden Zum Gutenberg eða Johannes Gutenberg, eins og hann er oftast nefndur, fæddist nálægt aldamótunum 1400 af virtum borgaralegum foreldrum. Fátt er vitað um líf hans en hann mun hafa lært til málmskurðar eða gullsmíði, en hann var einnig kallaður demantsslípari. Ég reyndi að afla mér sem mestra upplýsinga um Gutenberg en til eru heilu bækurnar um hann.


Kínverjar byrja

 

Blokkprentun hafði lengi verið beitt í Kína, til dæmis við prentun peningaseðla. Þá voru heilar síður skornar í tré og prentað eftir mótinu. Kínverjar gerðu einnig tilraunir með lausa stafi en það var ekki jafnhagkvæmt því það krafðist mjög margra og stóra leturkassa svo unnt væri að halda reiðu á hinum fjölmörgu táknum. Kínverjar notuðu brendan leir og síðar var letrið líklega skorið út í kopar. Enn síðar var notað tin en það gafst ílla þar sem letrið vildi aflagast og blekið tolldi illa á því. Svo á 13. öld eru heimildi um að brons hafi verið notað og gafst það best. Önnur skýringin yfir því að prentun með lausstafaletri hlaut litla útbreiðslu í Kína er sú sama og hin vegna hinna fjölmörgu tákna sem ritfærir Kínverjar þrufa að hafa á takteinum en fyrir venjulega bók þarf 4000-5000 mismunandi tákn. Ein elsta prentaða bók heimsins er kínversk og prentuð árið 868 og er vel varðveitt.


Meistarinn fæðist

Í kringum aldamótin 1400 fæddi Else Wyrich son og nefndi hann Johann Gutenberg. Faðir hans hét Friele Gensfleisch zur Laden zum Gutenberg. Hann átti eldri bróður sem hét eins og faðir sinn Friele og líka systur sem hét Else eins og móðir sín. Þar sem ekki er alveg vitað um fæðingardag Gutenbers hefur verið reiknað út frá lífi systkina hans og því talið að hann hafi fæðst í kringum aldamótin 1400.

Ekki er vitað mikið um skólagöngu hans eða hvort hann hafi klárað eitthvað nám en talið er að hann hafi sótt svæðisskóla og e.t.v. klausturskóla í St. Victor í Mainz. Þar þurfti hann að læra grundvallaratriði latínu í styttri útgáfu af fornu rómversku málfræðiriti eftir Aelius Donatus sem var þekktast sem „Donatus“. Ef marka má skjalabrot sem bjargast hafa eru góðar líkur á að Donatus hafi verið fyrsti textinn sem var prentaður. Gutenberg notaði Donatusinn til að æfa og fullkomna tæknina sem notuð var við prentun Biblíunnar.

Gutenberg og málaferlin

 
Prentpressan, mynd úr bók frá um 1500

Fyrstu staðreyndir um að Gutenberg hafi verið eru dagsettar frá 1420 og 1430 en hann er tvisvar nefndur í samningi vegna fjárfestinga. Í janúar 1430 leit út fyrir að Gutenberg væri ekki lengur í Mainz. Ný stjórnarskrá landsins er gerð og þá eru sameinaðis allir meðlimir sem höfðu verið úthýst vegna skjalafals eða skulda. Ólíklegt er að hann hafi farið aftur til Mainz næstu nítján árin. Hann ákvað að halda sig í Strassburg. Þar var Gutenberg kærður fyrir að hafa aflýst trúlofun sinni við Ennelin zu der Yserin Thure. En hún virðist hafa tapað því máli því Gutenberg var ógiftur til dánardags.

 
setjari að störfum, mynd frá 1568

Gutenberg og maður að nafni Andreas Dritzehn voru meðeigendur í gullsmíði. Þeir voru að kenna listina að fæga demanta. Svo þrem til fjórum árum síðar voru þeir beðnir um að gera litla hand-spegla fyrir pílagrímana í Aachen. Seinna meir kröfðust samstarfsmenn Gutenbergs um að kenna sér allt sem hann vissi og hafði uppgötvað. Svo um jólin 1438 lést Dritzehn. Bræður hans kröfðu Gutenberg um að hleypa þeim inn í staðinn fyrir Dritzehn. En þar sem Dritzehn hafði ekki borgað sinn skerf og höfðu þeir skrifað það í samninginn að sá sem eftirlifði héldi öllu. Rétturinn stóð með Gutenberg í þessu máli.

Árið 1448 fór Gutenberg aftur til Mainz til að fá peninga hjá ættingjum og í kringum 1450 skiluðu tilraunir hans árangri og fór hann því til fundar við fjármálaspeking að nafni Johann Fust. Gutenberg fékk hann til að lána sér 800 gyllini en það átti að duga fyrir tækjum og verkfærum til að framkvæma prentunina. Tveimur árum síðar ákvað Fust að fjárfesta í þessum iðnaði og lét hann hafa önnur 800 gyllini og verða meðeigandi. Það urðu þó fljótt vinaskil hjá Fust og Gutenberg. Fust vildi sjá hagnað og helst strax, en markmið Gutenbergs var nákvæmni frekar en fljótvirkni og græðgi.

 
Úr prentsmiðju árið 1568

Fust lögsótti Gutenberg og vann málið. Gutenberg þurfti því að greiða Fust bæði lánin til baka, sem voru í kringum 2.020 gyllini. Einnig lítur út fyrir að Fust hafi tekið Biblíuna og verkstæðið einnig upp í skuld. Gutenberg mun þó hafa haldið einhverju letri og prentað eitthvað fleira. Talið er að Catholicon, sem er alfræðirit og kom út í Mainz árið 1460, hafi verið eftir Gutenberg en það er ekki vitað með vissu.

Þetta er til á skjali sem varðveitt er á bókasafni Háskólans í Göttingen. Skjalið er dagsett þann 6. nóvember 1455 og kallast „Helmaspergersches Notariatsinstrument“. Fust hélt áfram með prentsmiðjuna og réð til Peter Schöffer en hann hafði verið helsti aðstoðarmaður Gutenbergs. Schöffer var skrautritari við Svartaskóla og var einnig mjög góður prentari og á heiðurinn af Saltaranum frá 1457.

Faðir prentlistarinnar

Gutenberg á skilið þetta sæmdarheiti en afrek hans fólst í því að finna upp lausaletrið. Hann fann aðferð til að steypa í móti prentstafi úr bráðnu blýi sem var blanda af tini og antimoni og var hitað upp í 300 gráður. Það var gert í þrem áföngum, fyrst var frummynd bókstafsins, spegilvend og skorin í stál. Síðan var hún slegin í kopar sem er mýkri málmur og var þá komið mót af bókstafnum í réttri mynd. Þessu koparmóti var síðan komið fyrir í breytanlegu formi og bráðinni blýblöndunni hellt í það. Þegar hún var storknuð var komin nákvæm eftirmynd af upphaflega stálskurðinum. Með þessari aðferð gat röskur maður steypt fjölda leturstafa á skömmum tíma. Þessi blanda hefur lítið breyst til letursteypu allt fram á okkar dag og eru margir undrandi á fundvísi Gutenbergs á réttu málmana og hlutföll þeirra. Framfarir í gerð olíulita voru rétt að byrja og fann Gutenberg upp prentsvertuna sem byggðist á þeim. Hann breytti einnig vínpressu þannig að hún nýttist í þágu prentlistarinnar. Þar hafa umhverfisáhrifin einnig haft sitt að segja því Rínarhéruðin eru mikið vínræktarsvæði og vínpressur höfðu borist á þessar slóðir með Rómverjum nálægt þúsund árum fyrr.

„Fjörutíu og tveggja lína biblían“

 
Gutenberg bíblía

Til að prenta bók með lausaletri þurfa að vera til mörg eintök af hverjum staf. Þegar aðferð Gutenbergs var tilbúin og stafamótið til þannig að dýptin var alls staðar hárrétt og stafamyndin óaðfinnanleg var hægt að steypa eftir því óteljandi bókstafi. Gullsmíðin kom að góðum notum fyrir Gutenberg þarna því þetta var svipað ferli. Stafamótunum voru raðað í kassa með hólf fyrir hvern staf. Setjarinn raðaði stílnum saman í línu með þykkum málmþynnum fyrir orðabil og línum. Þegar blaðsíða var tilbúin var sátrið bundið samana og skorðað vel. Prentsvertan var borin á og rakur pappír lagður ofan á og öllu ýtt undi pressuna. Nú var komið lesmál á pappírinn, mynd af bókstöfunum sem nú horfði rétt við af því spegilmyndir stafanna voru á stílnum. Segja má að þessi aðferð hafi markað aldahvörf í menningarsögunni.

Fyrsta stórverkið og jafnframt einn hinn frábærasti gripur sem prentlistarsagan kann frá að greina er biblía sú á latínu og er nefnd „fjörutíu og tveggja lína biblían“. Hún kom út árið 1456 og var upphaf nútímaprentlistarinnar. Hún var prentuð í tveimur bindum, alls 1200 síður og voru 42 línur á hverri síðu. Líklega var upplag hennar um 120 eintök og hafa 46 af þeim varðveist fram á okkar dag. 12 þeirra voru prentaðar á bókfell en í það var notuð skinn af sauðkindum, geitum, kálfum og fleiri skepnum.

Í hinum fornu menningarlöndum var skinn einkum notað til að skrifa á helgirit og annað það efni sem oft þurfti að grípa til. Furðumikils misræmis gætir í staðhæfingum og ágiskunum fræðimanna um útgáfuár Gutnebergs biblíunnar. Menn greina einnig á um það hvor útgáfan sé eldri, 42-línu biblían eða 36-línu bibilían sem svo er kölluð til aðgreiningar frá hinni. Talið er þó að hún sé útgefin árið 1456.

Textúr (textura) kallast letrið sem á Biblíunni og er svipuð þeirri gotnesku skrift sem var í tísku um þetta leyti í Þýskalandi og víðar enda vildi Gutenberg að bókin liti að öllu leyti út eins og hún væri handskrifuð. Þess vegna gerði Gutenberg mörg afbrigði af sumum stöfum og samstöfum sem skrifarar voru vanir að draga saman. Því voru um 300 leturtákn í safninu hans þó ekki væru nema 50 stafir til. Handbragðið á Biblíu Gutenbergs þykir einstaklega fagurt og var líklega myndskreytt af Peter Schöffer sem var hans helsti aðstoðarmaður.

Gutenberg gerist hirðmaður

Talið er að upp úr 1460 hafi Gutenberg gefist upp og jafnvel vegna blindu. Erkibiskupinn í Mainz gerir hann að hirðmanni sínum og tryggir honum örugga lífsafkomu og næði til starfa en í febrúarmánuði árið 1468 lést Gutenberg, meistari hinnar nýju listar.

Eftir að Gutenberg fann upp lausaletrið á fyrri hluta 15. aldar jukust möguleikar á að efla þekkingu og fyrir aldamótin 1500 var bókaverð orðið aðeins einn áttundi af því sem var 50 árum áður og 9 milljónir bóka voru prentaðar í Evrópu. Þekking og áróður, villitrúarmenn og prestar, stjórnmálamenn og lýðskrumarar fengu betri starfsskilyrði. Hraði þróunnarinnar jókst að marki sem enginn hafði gert sér hugmynd né hafði stjórn á.

Krossapróf

1 Hvenær fæddist Gutenberg?

Kringum aldamótin 1300
Kringum aldamótin 1400
Kringum aldamótin 1900
Ekki vitað

2 Frá hvaða landi er elsta prentaða bók heimsins?

Danmörk
Íslandi
Þýskalandi
Kína

3 Hvað gerði Gutenberg?

Las bækur og gagnrýndi letrið
Fann upp lausaletrið
Var gullgrafari
Fann elstu prentuðu bókina og passaði vel uppá hanaSama próf á Hot potatos formi

Heimildarskrá:

  • Martin, Davies. The Gutenberg bible. The british library.
  • Ingi Rúnar Eðvarðsson, 1994. Prent eflir mennt. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík.
  • Steinberg, S. H. 1961. Five hundred years of printing. Penguin Books Ltd. England.
  • Encyclopedia Britannica.

Ítarefni

Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: