Gestgjafi lífs og liðinn (Stafnes (Básendar, Lodda)

Stafnes á Rosmhvalanesi var fyrrum höfuðból og sýslumannssetur fyrir Gullbringur. Var þaðan útræði mikið og mjög var sótt þaðan til Geirfuglaskers á fyrri öldum. Lágu 24 hjáleigur undir Stafnesbóndann og auk þess var Básendakaupstaðurinn í landi hans. Hétu hjáleigur þessar ýmsum nöfnum og voru sum þeirra harla einkennileg, svo sem Refshalakot, Gosa, Hattakollur, Þemba og Lodda.

Hjáleiga sú, sem næst var Básendum, hét Lodda. Hét hún upphaflega Lúðvíksstofa, en síðar breyttist nafnið í Loddustofu og Loddu. Var kot þetta í byggð fram á miðja 19. öld. Loddu fylgdi grasnyt fyrrum og voru leigur goldnar með þremur vættum fiska að Básendum í reikning heimabóndans. Í fyrri daga bjó einhverju sinni í Loddu maður sá, er Bergþór hét. Var ætt hans austan úr Biskupstungum. Hann var maður með sínu lagi og hafði mikla náttúru til hafsins. Kona hans hét Þorkatla. Voru þau hjón einyrkjar, lítt fjáð, en veitul mjög og gestrisin. Var það venja bónda að bregða skjótt við, er gest bar að garði, og taka á móti þeim, er kom, í bæjardyrunum og leiða jafnskjótt til baðstofu, og var á ekkert dregið undan af því, sem ætilegt var í kotinu. Var orðtak þeirra hjóna jafnan þetta: "Lítið en ljúft er veitt í Loddu."

Bergþór reri á skipi heimabóndans ýmist sem konungsmaður eða hlutamaður. Einu sinni á vertíð var það dag einn, að lengi var setið á færum í kulda, því að dráttur var sæmilegur og vilja varð vart öðru hvoru. En er á daginn leið, tók að hvessa og fengu þeir brátt hinn versta barning heim. En nokkru síðar fékk Bergþór tak mikið og lagðist í rekkju. Var það með þeim býsnum, að hann lá dauður innan þriggja nátta. Hörmuðu menn dauða hans, því að hann var greiðamaður hinn mesti og vinsæll af öllum. Hélt Þorkatla ekkja hans kotið það sem eftir var vetrar og fram að fardögum. Var svo Lodda í eyði um sumarið.

En svo bar til, þegar liðið var sumar fram yfir höfuðdag, að maður einn úr Grindavík kom síðla dags út að Básendum. Varð hann of seinn til að ná tali af kaupmönnum, og gengur því í áttina heim að Loddu og hyggst að leita þar gistingar. Sér hann þá mann standa þar í bæjardyrunum. Býst hann þá við, að menn hafi þar séð til ferða sinna, og húsbóndinn muni bíða í dyrunum til þess að leiða hann til baðstofu og veita honum húsaskjól. Greikkar hann því sporið og er brátt kominn heim undir hlaðvarpann. Sér hann, að maður sá, er dyra gætir, er í selskinns-vesti með silfurhnöppum og skóm með hvítum ristarþvengjum. Þá er hann kemur að bæjardyrunum, heilsar hann manni þessum, en hann tekur eigi kveðju hans, heldur snýr sér óðara við og bandar til hans hendinni að fylgja sér inn göngin til stofu, og gerir gesturinn það. Þá er þeir koma inn göngin, spyr komumaður þann, er á undan gekk, hvort hann ráði þar ekki húsum. Svaraði þá maðurinn honum með vísu þessari:

Eg bý í Loddu, ljúfurinn, löng eru göng og steinar, stígðu innar, stúfurinn, stofuna enginn meinar, dyrnar eru á dráttunum dregnar upp á náttunum, brátt mér einar, brátt mér opnast einar.

Sér þá gesturinn grjótvegginn opnast í göngunum og bónda hverfa þar inn. Greip þá gestinn slík ofsahræðsla, að hann óð út úr bænum og hljóp sem fætur toguðu heim að Stafnesi, og vakti þar fólk allt með höggum miklum. Tókst von bráðar að sefa hann svo, að hann sagði upp alla sögu. Bar þá heimamönnum saman um það, að þarna hefði Bergþór verið kominn og viljað sýna fyrri gestrisni sína. Síðar var Lodda byggð aftur og bar þá minna á reimleikum upp frá því.

RAUÐSKINNA I 62