<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Þessi síða er ætluð sjúkraliða- og hjúkrunarnemum sem og öðrum sem vilja kynna sér þennan áhrifavald í hjúkrun. Höfundur Halla S. Arnardóttir

Florence á yngri árum

Saga hjúkrunar fram til 1850

 
Florence í bresku dagblaði árið 1855

Ekki er langt síðan hjúkrun var skilgreind sem starfsgrein. Frá örófi alda hefur það verið eitt af hlutverkum kvenna að hugsa um sjúka, börn og aldraða á heimilum. Þrælar voru líka oft í þessu umönnunarhlutverki. Konur hafa þó ekki alltaf setið einar að hjúkruninni,á tímum krossferðanna voru settar á laggirnar riddarareglur sem sáu um að fylgja krossförunum og hjúkra þeim sem særðust. Alveg fram á 18. öldina var hjúkrun ómótað starf, menntun af skornum skammti og litlar kröfur gerðar til þeirra sem unnu við hjúkrun. Á Viktoríutímabilinu var lítil virðing borin fyrir konum sem stunduðu hjúkrun. Yfirstéttakonur fóru stundum með matarkörfur til fátæklinga en það þótti ekki við hæfi að þær kæmu nálægt hjúkrun. Sjúkrahúsin voru aðallega stofnanir þar sem fátæklingar og holdsveikir höfðust við og yfirleitt voru hjúkrunarkonurnar lágstéttarkonur sem fengu þarna húsaskjól, oftar en ekki drykkfelldar vandræðakonur. Inn í þetta umhverfi fæðist Florence Nightingale.

Uppvaxtarárin

 

Florence Nightingale var bresk en fæddist í Florence á Ítalíu árið 1820. Hún var dóttir auðugra foreldra og fékk góða menntun á þeirra tíma mælikvarða. Þó Florence þætti góður námsmaður voru væntingar foreldra hennar fyrir hennar hönd að hún myndi giftast góðum og vel metnum manni og eiga með honum börn enda tíðkaðist ekki á þessum tíma að konur færu í lengra nám. Þegar Florence var 17 ára fékk hún köllun frá Guði um að henni væri ætlað ákveðið verkefni. Í kjölfarið fór hún að fá áhuga á félagslegum umbótum í þjóðfélaginu og fór að heimsækja sjúka á heimilum og stofnunum. Hún sýndi áhuga á að læra hjúkrun en foreldrar henni voru því mjög mótfallin og þótti það ekki hæfa menntaðri stúlku frá góðu heimili. Hún fékk þó á endanum sínu framgengt og fór til Þýskalands þar sem hún stundaði þriggja mánaða hjúkrunanám. Með þetta starfsnám sneri hún heim og gerðist forstöðukona á sjúkrahúsi í London.


Konan með lampann (Krímstríðið)

 
Florence Nighingale
Konan með lampann

Árið 1854 í Krímstríðinu, var Florence ásamt 38 aðstoðarkonum, send til bækistöðva Breta rétt hjá Istanbul. Hlutverk þeirra var að lina þjáningar og hjúkra særðum hermönnum. Þær voru mjög óvelkomnar, konur voru ekki taldar eiga erindi á vígstöðvarnar. Við þeim blasti glundroði og skelfing, ekki var skipt á sárum hermannanna, ekki þvegið af þeim, ekkert lín til skiptanna og engin lyf. Florence var mjög ákveðin, átti pening sjálf og lét senda vistir.Hjúkrunarkonurnar bættu vistarverur sjúklinganna, loftuðu út, komu upp þvottahúsi og eldhúsi og bættu fæðið. Þær þvoðu sjúklingunum og skiptu á sárum. Þessar aðgerðir höfðu þau áhrif að dánartíðni hermannanna minnkaði um helming á nokkrum vikum. Florence stundaði einnig heildræna hjúkrun sem fól í sér að hún hugaði einnig að andlegum og félagslegum þörfum hermannanna. Hún skrifaði bréf til fjölskyldna þeirra, kom upp lesstofum og pantaði bækur og sýndi þeim hlýju. Hún vann hugi og hjarta hermannanna og kölluðu þeir hana „konuna með lampann.“

Kvenréttindabarátta

Florence lagði sitt á vogarskálar kvenréttindabaráttu með því að rísa upp á móti ríkjandi viðhorfum í þjóðfélaginu um að hlutverk kvenna væri að giftast, stofna heimili og eiga börn. Hún fylgdi þeirri löngun sinni að mennta sig og starfa við það sem hugur hennar stefni til þrátt fyrir að oft væri á brattann að sækja.


Ritstörf

Þekktasta ritsmíð Florence er Notes on Nursing (1860), sem varð einskonar biblía í hjúkrun og mikið notuð við kennslu. Þessi bók hefur verið þýdd á 11 tungumál. Hún skrifaði einnig fleiri bækur eins og Suggestions for Thought to Searchers after Religious Truths (1859) sem kom talsvert inn á jafnréttismál, einnig margar greinar varðandi aðbúnað og umbætur á sjúkrahúsum í Bretlandi.

Tölfræði

 
Dánarorsakir hermanna.Florence Nightingale

Florence hafði mikla hæfileika á sviði stærðfræði og tölfræði. Tölfræðina notaði hún til að greina og koma á framfæri ýmum staðreyndum varðandi dánartíðni og ýmsa þætti varðand faraldsfræði og þjónustu heilbrigðisstofnana. 1858 var hún fyrst kvenna til að fá aðild að Konunglega Tölfræðifélaginu, (Royal Statistical Socity). Hún var einnig frumkvöðull í sjónrænni framsetningu á upplýsingum, t.d. notaði hún kökurit til að lýsa dánarorsökum breskra hemanna í Krímstríðinu.


Áhrif á hjúkrun

Störf Florence og skrif höfðu mikil áhrif á hjúkrunarstarfið. Hún hóf hjúkrun til virðingar sem fræðigrein og breytti ímynd hjúkrunarkvenna. Hún kom á miklum umbótum í heilbrigðismálum og var frumkvöðull í markvissri skráningu hjúkrunar. Hún kom líka á miklum umbótum í hjúkrunarnámi.

Krossapróf

1 Hvaða ár fæddist Florence Nightingale?

1780
1820
1865
1910

2 Hvar fæddist Florence Nighingale?

Englandi
Þýskalandi
Tyrklandi
Ítalíu

3 Florence Nightingale var frumkvöðull í

Heildrænni hjúkrun
Einstaklingshæfðri hjúkrun
Verkhæfðri hjúkrun
Sjúkdómsmiðaðri hjúkrun

4 Þekktasta ritsmíð Florence Nightingale er:

Nursing Principles
Notes on Nursing
Nursing Guidelines
Nursing Instructions

5 Á hvaða sviði hlaut Florence Nightingale verðlaun

bókmennta
náttúrufræði
Myndlistar
Tölfræði


Heimildir

Ítarefni

Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: