Fjölgreindarkenningin fyrir börn

<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur: Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir

Hér á eftir er kynning á fjölgreindakenningunni fyrir börn og unglinga. Kenningin er sett fram á einföldu máli, þannnig að hver og einn á að geta fundið út sína sterku hlið. Einnig fylgja verkefni fyrir nemendur.


Hver er gáfaður?

breyta

Er ég klár, er ég gáfaður, er ég snjall? Hver hefur ekki velt þessu fyrir sér. Margir halda að þeir séu ekki klárir eða gáfaðir af því að þeim gengur illa að læra að lesa eða að læra stærðfræði. Þeir geta hins vegar verið flinkir á mörgum öðrum sviðum t.d. mjög góðir í íþróttum, eða að syngja nú eða að tala, teikna eða smíða. Sumir eru alltaf byrjaðir að stjórna og skipuleggja áður en maður veit af og öðrum tekst á augabragði að sannfæra aðra um eitthvað sem maður hafði aldrei neina trú á. Hvernig getur þetta verið? Getur verið að það sé líka gott að vera góður í einhverju öðru en bóklegum greinum í skólanum? Allir vita að skólinn okkar leggur mikla áherslu á bóklegar greinar og þess vegna eru margir sem ekki líður vel í skólanum eða finna sig í náminu.


Howard Gardner og fjölgreindakenningin

breyta

Árið 1983 setti Howard Gardner taugasálfræðingur, fram fjölgreindakenninguna í bókinni Frames of Mind. Hann hafði lengi verið að velta fyrir sér hugmyndinni um margar gerðir mannshugans. Í kenningum hans kom fram að greind er ekki eins einfalt mál og haldið hafði verið fram, það er ekki bara bókleg greind sem skiptir máli. Gardner sagði að við gætum verið greind á fjölmörgum sviðum og skipti greindunum niður í sjö flokka sem síðar varð að átta flokkum. Og við getum verið snjöll í mörgum flokkum en oftast erum við samt sterkust í einum flokki. Það er mikilvægt fyrir okkur að þróa okkur á þeim sviðum (greindum) sem við erum sterk en líka á þeim sviðum sem við erum ekki sterk því þannig er líklegt að okkur vegni vel. Bubbi Mortens hefur sagt frá því að þegar hann heyrði fyrst í Bob Dylan hafi hann orðið fyrir eins konar vitrun. Hann hitnaði allur að innan og vissi um leið að svona vildi hann vera. Hefur ykkur einhvern tímann liðið svipað? Ef svo er þá er líklegt að það tengist ykkar sterku hlið. Margir leik- og grunnkólar á Íslandi vinna nú í anda kenninga Gardners og hefur hann fengið mikla viðurkenningu fyrir kenningar sínar.

Fjölgreindapizzan

breyta
 


Lítum aðeins nánar á málið. Finnst þér pizza góð? Flestum krökkum finnst pizzur góðar, en samt ekki allar pizzur, það er ekki sama hvernig hún er. Sumum finnst pizzur með mörgum áleggstegundum góðar á meðan aðrir vilja bara Margarítu. Við vitum alla vega alveg hvað pizza okkur finnst góð, ekki satt? Nú skulum við ímynda okkur að gáfurnar séu eins og pizza. Við köllum þetta fjölgreindapizzuna þar sem greindunum eða gáfunum er skipt niður í átta mismunandi sneiðar, snillisneiðar. Skoðaðu myndina vel, lestu síðan um hverja snilli og reyndu að finna út hvaða sneið þér finnst best.

Sjálfsnjall - sjálfsþekkingargreind

breyta

Þú ert mjög sjálfstæður og lætur ekki aðra ráðskast með þig. Þú veist hvað þú vilt og getur. Þú veist líka hvað þú getur ekki. Þú stendur þig oftast vel þegar þú ert að leika þér eða læra. Þú ferð þína eigin leiðir í lífsstíl og námi. Þér er sama hvað öðrum finnst t.d. um fötin þín eða hvað þú ert að gera. Þú ert ekki alltaf að segja öðrum frá áhugamálum þínum eða tómstundum. Þér er sama þó þú vinnir einn og veist oftast hvert þú stefnir. Ef þér líður illa getur rætt það og þú lærir af mistökum sem þú gerir. Þú hefur ágætt sjálfsálit og berð virðingu fyrir sjálfum þér.

Frægir Íslendingar: Björgólfur Þór Björgólfsson athafnamaður, Magnús Scheving


Umhverfissnjall - umhverfisgreind

breyta
 
Dúfa á Kanarí þiggur brauðbita

Þú ert mikið náttúrubarn og elskar dýr og átt þína uppáhaldsstaði í náttúrunni. Þú hefur gaman af því að vera úti í náttúrunni og finnst gaman að fara í heimsóknir í dýragarða og á náttúrusöfn. Þú tekur vel eftir því sem er í umhverfinu, ef þú ferð í gönguferð tekur þú eftir plöntum, fuglum og hvernig himininn er, þú gætir líka tekið eftir bílategundum og fólki sem þú mætir. Ef blómin í skólastofunni eru orðin þurr væri líklegt að einmitt þú myndir vökva þau. Það er afar líklegt að þú eigir gæludýr ef foreldrar þínir leyfa það. Þér finnst gaman í kennslustundum þar sem fjallað er um náttúruna, vistfræði, dýr og plöntur og þú ert líklegur til að hafa áhuga fyrir náttúru- og dýravernd. Ef verkefnið er að safna plöntum, skordýrum eða laufum þá ert þú í essinu þínu.

Frægir Íslendingar: Ómar Ragnarsson, Guðmundur Pálsson náttúrufræðingur

Líkamssnjall - líkams- og hreyfigreind

breyta
 
Pokahlaup á Hvolsvelli 17. júní 2000

Hver er góður í íþróttum í þínm bekk? Ef þú ert einn af þeim er líklegt að þú sért líkamssnjall. Þú æfir líklega eina eða fleiri íþróttagreinar. Þú tekur vel eftir því hvernig aðrir hreyfa sig og líka eftir kækjum og töktum annarra. Þú átt jafnvel til að herma eftir öðrum og finnst gaman að leika leikrit. Þú þarf oft að skoða hluti að innan, taka þá í sundur og handleika helst allt sem þú sérð. Þú ert líka góður í verklegum greinum, finnst gaman í smíði, saumum, leirmótun eða bara kubba. Þér finnst gaman í alls konar þrautum stökkva yfir stóla, hlaupa og glíma. Þú ert flinkur í höndum og finnst gaman ef þú getur gert eitthvað með þeim. Sumir verða stundum pirraðir á þér ef þú ert sífellt á iði, ert að tromma eða banka í borð og átt erfitt með að vera kyrr.

Frægir íslendingar: Magnús Sceving forstjóri Latabæjar, Hólmfríður Magnúsdóttir fótboltakona, Ólafur Stefánsson handboltamaður, Örn Árnason leikari, Nína Dögg Filippusdóttir leikkona.

Myndsnjall - rýmisgreind

breyta
 
Börn að mála

Það er ekki endilega bara þannig að þú sért góður að teikna heldur hefur þú gaman af öllu myndrænu. Kort, línurit og skýringarmyndir höfða til þín. Þegar þú segir frá sérðu allt fyrir þér í myndum. Þú hefur gaman af listrænni vinnu og líklegt er að myndmennt sé ein af uppáhaldsgreinunum þínum. Þér finnst gaman að horfa á kvikmyndir og skoða myndir, einnig höfða alls konar þrautir til þín, púsl, gestaþrautir og sjónræn viðfangsefni. Þegar þú varst lítill elskaðir þú legókubba og finnst enn gaman að byggja flottar þvívíðar byggingar. Ef þú skoðar teiknimyndabækur er ekki endilega víst að þú nennir að lesa textann. Þegar þú ert í tímum er líklegt að þú getir ekki sleppt því að krota í bækurnar þínar eða á borðið, reyndar eru þetta oftast litlar myndir og þér finnst betra að teikna þegar þú þarft að hlusta á kennarann og einbeita þér í tímum en þú gætir reyndar líka gleymt þér í dagdraumum, bara kominn eitthvað allt annað á þess að vita af.

Frægir Íslendingar: Valdimar Harðarson arkitekt, Nína Tryggvadóttir myndlistarkona, Rúrí myndlistarkona, Brian Pilkinton myndlistarmaður

Orðsnjall - málgreind

breyta
 
Wikipedia gæti verið eitthvað fyrir bókaorma

Ertu bókaormur? Finnst þér gaman af bröndurum og alls konar sögum og mannst þær vel og ert alveg til í að segja þær? Ef svo er er líklegt að þú sért orðsnjall. Þér finnst gaman að semja sögur og jafnvel að skrifa ritgerðir, sérstaklega ef þú mátt ráða efninu. Þú skrifar líklega vel og stafsetning er ekki vandmál. Þú kannt að meta bullrím, orðaleiki og tungubrjóta. Þér finnst gaman að hlusta á sögur og hefur góðan orðaforða miðað við aldur. Þú ert mjög góður í munnlegri tjáningu, ræður og frásagnir eru þín sterka hlið. Það er líklegt að íslenska sé ein af þínum uppáhaldsgreinum og ef þú færð að taka þátt í ræðukeppni er líklegt að þér þætti það ekki leiðinlegt. Þú lest meira en flestir vinir þínir og hlakkar til ef þú ert að lesa spennandi bók.

Frægir Íslendingar: Guðrún Helgadóttir rithöfundur, Andri Snær Magnason rithöfundur

Félagssnjall - samskiptagreind

breyta
 
Tvíburar, skyldu þeir vera félagssnjallir?

Þú bara gleymir þér þegar þú ert með vinum þínum, því það er skemmtilegast. Þú ert dálítill leiðtogi í þér og finnst eins og þú eigir að ráða. Ef vinir þínir eiga í vanda ertu góður í að hjálpa þeim. Þú ert fljótur að átta þig á aðstæðum og varast hættur. Ertu í einhverju félagi eða klúbbi, eða langar þig að starfa í nemendaráði? Ef svo er er líklegt að þú sért félagssnjall. Þér gæti jafnvel fundist gaman að kenna og ráðleggja öðrum krökkum. Þér finnst gaman að vera í leikjum og átt örugglega góða vini, tvo eða fleiri. Þú átt auðvelt með að setja þig í spor annarra og sýna samkennd og umhyggju og aðrir sækjast í að vera með þér, með öðrum orðum þú ert einn af þessum vinsælu krökkum. Það er nokkuð öruggt að þér finnst gaman í hópvinnu í skólanum og líklegt að þá takir þú stjórnina í þínar hendur.

Frægir íslendingar:Jóhanna Vilhjálmsdóttir þáttarstjórnandi.

Talna- eða röksnjall - rök- og stærðfræðigreind

breyta

Þér finnst endilega að þú verðir að vita hvernig hlutirnir virka. Stærðfræði er líklega uppáhaldsgreinin þín í skólanum, eða eðlis- og efnafræði. Þér finnst gaman í tölvu- og vísindaleikjum sem reyna virkilega á kollinn. Þér finnst gaman að vinna og leika þér með tölur. Getur verið að þú sért góður í Sudoku? Þá er líklegt að þú sért röksnjall. Skák og alls konar spil höfða til þín. Þér finnst gaman að flokka hluti, og gera tilraunir og setja hluti í þrepakerfi eða nota rökleg mynstur. Þú hefur virkilegan áhuga á raunvísindum og tengdum greinum og stendur þig vel á prófum þar sem reynir á rökhugsun.

Frægir Íslendingar: Kári Stefánsson forstjóri

Tónsnjall - tónlistargreind

breyta
 
Bono í Prag árið 2000, forsprakki U2, frægur rokkari

Varstu bara pínulítill þegar þú byrjaðir að syngja og tralla og hreyfa þig í takt við tónlist? Hefur þú gaman að tónlist og ertu kannski að læra á hljóðfæri eða í kór? Fer í taugarnar á þér ef einhver syngur falskt, eða spilar vitlausar nótur? Ef svo er þá er líklegt að þú sért tónsnjall. Þú ert fljótur að læra lög og hefur líklega góða söngrödd. Þú talar og hreyfir þig á taktfastan hátt og ert oft að söngla eða raula lög fyrir munni þér. Kennarinn þinn verður stundum pirraður af því þú getur ekki hægt að tromma á skólaborðið. Einn æðsti draumur þinn er að spila í hljómsveit, læra að syngja eða verða hljóðfæraleikari og tónmennt er ein af uppáhaldsgreinunum. Þú heyrir hljóð í umhverfinu vel og t.d. þegar þú ert í tjaldi þá geta regndropar myndað heila sinfóníu í huga þínum.

Frægir Íslendingar: Bubbi Mortens, Björk, Mugison.

Verkefni

breyta

Þegar þú ert búinn að kynna þér fjölgreindaspizzuna vel skaltu leysa eftirfarandi verkefni:

  1. Skrifaðu niður hvað snilli á best við þig og hvers vegna.
  2. Hugsaðu um hvað skólinn þinn gerir til að þú fáir að njóta snilli þinnar?
  3. Hvenær er gaman í skólanum?
  4. Er líklegt að skólinn þinn gæti gert betur til að þú fengir að njóta þín? Þá í hverju?
  5. Hefur þér einhvern tímann verið hrósað þegar þér finnst þú njóta snilli þinnar? Segðu frá hvers vegna og fyrir hvað var þér hrósað?
  6. Hefur þú einhvern tímann verið skammaður fyrir eitthvað sem tengist snilli þinni? Hvað gætir þú gert til að laga það?
  7. Lokaðu augunum og hugsaðu um sjálfan þig eftir 20 ár. Hvernig muntu líta út? Hvernig verður fjölskylda þín? Við hvað muntu starfa?
  8. Þegar þú hefur fundið út við hvað þú munt starfa skaltu huga um hvernig þér mun líða? Verður þú hamingjusamur og sáttur?
  9. Telur þú að þér muni takast að velja starf þar sem greindirnar þínar (snilli þín) fær að njóta sín?

Heimildir

breyta

Tomas Armstrong 2001. Fjölgreindir í kennslustofunni, Erla Kristjánsdóttir þýddi og staðfærði. JPV, Reykjavík.

Ýtarefni

breyta