Fimleikar
Þessi wikibók er um fimleika. Markmiðið er að nemendur kynnist sögu, uppbyggingu og þróun fimleika. Fjallað er um keppnisgreinar innan fimleika og hvernig iðkun og keppni er frábrugðin í karla- og kvennaflokki. Neðar er svo að finna spurningar og krossapróf auk þess sem bent er á ítarefni og áhugaverða tengla.
Upphaf fimleika
breytaHægt er að rekja upphaf fimleika aftur til ársins 1811 þegar Þjóðverjinn F.L. Jahn opnaði fyrsta íþróttasvæðið sem ætlað var til fimleikaiðkunar. Á næstu árum vann hann að því að þróa og bæta við æfingum og smám saman náðu þessar æfingar útbreiðslu og um aldamótin 1900 breiddust fimleikaæfingar út til annarra Evrópulanda. Reyndar vilja sumir rekja upphaf fimleika aftur til Forn-Grikkja og íbúa Spörtu sem stunduðu ýmsar íþróttir og æfingar til að undirbúa sig fyrir hermennsku og bardaga.
Keppnisgreinar
breytaÍ dag eru vinsælustu keppnisgreinar innan fimleika áhaldafimleikar, hópfimleikar og nútímafimleikar. Á Íslandi er ekki keppt í nútímafimleikum en bæði áhaldafimleikar og hópfimleikar njóta mikilla vinsælda.
Áhaldafimleikar
breytaÍ áhaldafimleikum er bæði keppt í karla- og kvennaflokki. Karlar keppa á sex áhöldum þ.e. gólf, bogahestur, hringir, stökk, tvíslá og svifrá. Konur keppa aðeins á fjórum áhöldum sem eru stökk, tvíslá, jafnvægisslá og gólf. Áhaldafimleikar eru einstaklingskeppni og er meðal annars keppt í þeim á Ólympíuleikum. Þar eru bæði veitt verðlaun fyrir einstök áhöld og fyrir samanlagðan árangur en sá sem er með bestan árangur samanlagt kallast sigurvegari í fjölþraut. Núverandi Ólympíumeistari í fjölþraut kvenna er Simone Biles en í fjölþraut karla er það Kōhei Uchimura.
Hópfimleikar
breytaÍ hópfimleikum er keppt í karla-, kvenna- og blönduðu liði. Liðin keppa í samhæfðum gólfæfingum, stökki, með og án hests, og á fiber gólfi. Ekki er keppt í hópfimleikum á Ólympíuleikum en íþróttin nýtur vaxandi vinsælda á Íslandi meðal annars vegna þess árangurs sem íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum hefur náð á Norðurlanda- og Evrópumótum.
Nútímafimleikar
breytaNútímafimleikar eru meðal keppnisgreina á Ólympíuleikum. Aðeins er keppt í kvennaflokki og geta þær bæði keppt sem einstaklingar eða í liðum. Allar æfingar fara fram á gólfi en keppendur sýna listir sínar með bandi, borða, bolta, keilum, húllahring eða prikum.
Fimleikar á Íslandi
breytaFyrsta íþróttafélagið til að bjóða upp á fimleikaæfingar var ÍR en það var árið 1907. Í dag bjóða mörg félög upp á fimleikaæfingar en meðal stærstu félaganna má t.d. nefna Ármann, Gerplu, Björk, Fylkir, Stjörnuna, Gróttu og Fimleikafélag Akureyrar. Aðeins tveir Íslendingar hafa náð að keppa í fimleikum á Ólympíuleikum en það eru þau Rúnar Alexandersson og Irina Sazanova.
Spurningar
breyta- Nefnið þrjár tegundir fimleika sem keppt er í.
- Á hvaða áhöldum keppa konur í áhaldafimleikum?
- Hver er munurinn á áhaldafimleikum og nútímafimleikum?
Krossapróf
breyta
Ítarefni
breytaHeimildir
breyta- Fimleikar (e.d.). Wikipedia. Sótt dags 11. febrúar 2019 af https://is.wikipedia.org/wiki/Fimleikar
- List of Olympic medalists in gymnastics (women) (e.d.). Wikipedia. Sótt dags 11. febrúar 2019 af https://en.wikipedia.org/wiki/List_of_Olympic_medalists_in_gymnastics_(women)
- List of Olympic medalists in gymnastics (men) (e.d.). Wikipedia. Sótt dags 11. febrúar 2019 af https://en.wikipedia.org/wiki/List_of_Olympic_medalists_in_gymnastics_(men)
- Kristín Ösp Benediktsdóttir, Thelma Eir Stefánsdóttir og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvenær urðu fimleikar til og hver fann þá upp?“ Vísindavefurinn, 21. júní 2017. Sótt 11. febrúar 2019 af https://www.visindavefur.is/svar.php?id=71766.