<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Halldóra Ósk Hallgrímsdóttir.

Þetta er wikibók um íslenska faldbúninginn, sögu hans og þróun. Hún hentar sem ítarefni með námsefni í Íslandssögu.

Hvað er faldbúningur?

Faldbúningurinn er elstur íslenskra kvenbúninga og dregur nafn sitt af sérstökum höfuðbúnaði, faldinum. Faldbúningurinn er í raun upprunalegur þjóðbúningur íslenskra kvenna, en þeir þjóðbúningar sem við þekkjum í dag, skautbúningurinn, peysufötin og upphluturinn eru búningar sem Sigurður Guðmundsson málari, hannaði á íslenskar konur um miðja 19.öld.


Saga

 
Mynd af konu í faldbúningi frá 1835

Gamlir búningahlutar, málverk, teikningar og ljósmyndir eru helstu heimildir okkar um faldbúninginn. Á Þjóðminjasafni Íslands er til einn af tveimur heilu faldbúningum í heiminum, hinn búningurinn er geymdur á safni Viktoríu og Alberts í Lundúnum. Þeir faldbúningar eru fyrirmyndir búninga sem saumaðir eru í dag.

Búningurinn hefur þróast í aldana rás, undir lok 18. aldar var hann sparibúningur en á síðasta fjórðungi 19. aldar lagðist notkun hans af.

Þróun

Hér verður lauslega gerð grein fyrir nokkrum breytingum sem urðu á búningnum á 18. og 19. öld. Á 18. öld mun faldurinn hafa verið nokkuð hár sívalur vafningur, sem sveigðist í krók að ofan og nefndist þá krókfaldur. Laus svunta var borin við pilsið. Búningurinn var þá oft mjög litríkur en með tímanum dró úr mikilli litanotkun. Búningur sem varðveittur er í safni Viktoríu & Alberts í Lundúnum er af þessari gerð og er í raun besta heimild okkar um gamlan faldbúning. Þegar kemur fram á 19. öldina breyttist faldurinn og á myndum frá fjórða áratug þeirrar aldar er hann þunnur og flatur, breiðastur efst en mjórri neðst þar sem klútur er vafinn um höfuðið. Slíkur faldur nefndist spaðafaldur. Á þeim tíma var einnig farið að afmarka svuntu með bryddingum niður eftir pilsinu að framan fremur en að bera lausa svuntu við búninginn. Þá var skrautbekkur hafður breiðari á svuntuhluta pilsins en á pilsinu sjálfu, líkt og hafði verið á svuntunni þegar hún var laus frá pilsinu. Við þennan búning eru nú notaðir svartir ullarsokkar og látlausir svartir skór.


Búningahlutar

 

Faldbúningstreyjan er úr svörtu klæði eða flaueli, með borðum framan á boðungum. Treyjan nær rétt niður fyrir brjóst og er með þremur breiðum flauelsleggingum á baki, leggingum á axlarsaumum og um handveg og vírsnúrur eða stímur eru lagðar utan með. Treyjan er brydduð með flaueli að neðan og í hálsmáli, einnig er breið flauelislíning framan á þröngum síðum ermunum. Undir treyjunni er borin 19. aldar upphlutur, oftast í rauðum, grænum eða dökkbláum lit.

Pilsið er með bryddingu neðan á faldinum, annað hvort úr flaueli eða klæði en alltaf í öðrum lit en pilsið. Fyrir ofan pilsfaldinn er útsaumaður bekkur eða 4 - 5 flauelisleggingar. Svuntan er úr sama efni og pilsið og yfirleitt í sama lit. Hún er brydduð að neðan og upp með hliðunum með sama lit og neðan á pilsinu. Útsaumsbekkur eða leggingar eru neðan á svuntunni, en munstrið er yfirleitt breiðara en á pilsinu. Svuntan er höfð laus á 18. aldar gerð búningsins, borin yfir pilsið, en á yngri gerðum búningsins er hún felld inn í pilsið með bryddingu og kallast þá samfella.


Krossapróf

 

1 Hver hannaði upphlutinn?

Jónas Hallgrímsson
Hallgrímur Pétursson
Sigurður Guðmundsson
Árni Magnússon

2 Hvað er faldur?

Pils
Höfuðbúnaður
Svunta
Treyja


Ítarefni