Félagsfærni barna og unglinga

Höfundur: Ingibjörg Haraldsdóttir

Þetta er Wikibókin um félagsfærni barna og unglinga og hversu nauðsynlegt er að þjálfa hana vel. Einnig er fjallað um góðar aðferðir til að þjálfa félagsfærnina upp.

Barnahópur í Jenín í Palestínu

Hvað er félagsfærni?

breyta

Félagsfærni er hegðun sem börn læra smátt og smátt allt sitt líf og er því lærð hegðun. Þau læra af foreldrum sínum, systkynum, vinum, kennurum og öðrum mikilvægum einstaklingum í lífi þeirra, hvernig þau eiga að hegða sér. Félagsmótun skiptir gífurlegu máli sem undirbúningur fyrir skóla og lífið sjálft. Hægt er að finna bein tengsl á milli þess hvernig börnum gengur að mynda sambönd við annað fólk og hvernig þeirra félagsmótun fór fram. Ef þau áttu lítil samskipti við þá sem í míkrókerfinu voru þá koma þau til með að eiga lítil samskipti við aðra í kringum sig seinna í lífinu.

En þar með er þó ekki sagt, að ekki sé hægt að breyta þeirri hegðun. Með markvissri þjálfun í félagsfærni er hægt að ná fram góðum árangri og þá eiga sér stað miklar breytingar á hegðun barna. Því fyrr sem byrjað er að þjálfa upp félagslega færni hjá einstaklingi því auðveldara er að læra aðra hegðun. Eins og málshátturinn segir. “Erfitt er að kenna gömlum hundi að sitja”. En það er þó ekki ógerlegt.


Geðraskanir

breyta

Það að eiga erfitt með að eignast og eiga vini gefur oft til kynna að einhverjar geðraskanir liggi að baki s.s. einhverfa, ofvirkni, hegðunarröskun og félagsfælni. Börnum sem gengur illa að byggja upp vináttusambönd eru líklegri til að verða fyrir þessum geðröskunum. Vandamál tengd samskipta- og vináttusamböndum stýra oft þeim lífsgæðum, sem við búum við seinna á ævinni.


Hversu nauðsynleg er hún

breyta

Félagsleg færni einstaklings skiptir sköpum í samskiptum við annað fólk sem í kringum okkur er. Félagsleg færni hefur áhrif á hvernig börn mynda sambönd við fólk sem þau umgangast, hvernig þeim gengur að leysa dagleg verkefni. Félagsleg færni hefur áhrif á það hvernig þau takast á við sig sjálf tilfinningalega. Það að þekkja sínar tilfinningar hefur bein áhrif á samskipti þeirra innan fjölskyldunnar, vinahópsins og samstarfsmanna. Ef félagsleg færni er ekki góð þá er daglegt líf mun erfiðara þar sem þau kunna hreinlega ekki á samskipti, hvernig þau hegða sér gagnvart öðru fólki og hvaða gildi samfélagið sem við búum í setur.

Félagsfærni er mikilvæg og með því að efla ábyrgð, meðvitund í samskiptum og sjálfstæði, styrkjum við hæfni einstaklingsins til þáttöku og samskipta í daglegu lífi. Það er verið að efla þá þætti, sem eru nauðsynleg forsenda sjálfstæðis.

Félagsleg færni eru hæfileikar manna til þess að tjá bæði jákvæðar og neikvæðar tilfinningar í samskiptum við aðra með orðum og með líkamstjáningu. Sá sem hefur náð góðum tökum á sinni félagslegu hæfni er fljótur að átta sig á hvernig andrúmsloft ríkir innan hóps og á auðvelt með að aðlaga sig að því andrúmslofti og hann býst ekki við neikvæðum viðbrögðum þegar hann hefur sig frammi í samræðum.

Gátlisti til hliðsjónar þegar verið er að skoða félaglega færni barna

breyta

Félagslega fær einstaklingur: er vinamargur er duglegur að blanda geði við fólk bjargar sér og kemst auðveldlega úr hinum ýmsu aðstæðum er mikið fyrir hópastarf í skólanum sáttasemjarahlutverkið er honum auðvelt þegar upp koma deilur hópleikir eru honum að skapi sýnir mikla samkennd með tilfinningum annarra er góður ráðgjafi til að leysa hin ýmsu mál vinanna líkar vel að kenna öðrum fæddur leiðtogi

Það er misjafnt hvort samskiptagreindum börnum gengur vel í skóla eða ekki. Mörg þeirra sjá auðveldlega út hvað kennarinn vill, þau vinna vel með öðrum í hópi og þeim gengur ágætlega með námið þótt þau eigi erfitt með lestur eða stærðfræði. Sum eru mjög vinsæl meðal skólafélaganna en eiga í mesta basli með samskipti við fullorðna í skólanum. Þótt barn geti átt erfið samskipti við skólafélagana þá getur það sínt mikla leiðtoga hæfileika við allt aðrar kringumstæður t.d. í félagsstarfi eftir skóla eða á meðal vina sinna.

Upphaf félagsfærniþjálfunar

breyta

Við upphaf félagsfærniþjálfunar þá þurfa bæði "þjálfarinn" og barnið að setja sér markmið til þess að geta metið árangurinn sem næst. Það er best að setja markmiðin í samráði við barnið þannig að barnið upplifi að markmiðin séu þess eigin. Þannig gefum við barninu eignartilfinningu fyrir markmiðum sínum og þannig auðveldar það barninu vinnuna með sjálft sig þar sem markmiðin ættu að vekja áhuga barnsins á þjálfuninni. Það þarf að passa uppá að markmiðin séu raunhæf og að þau séu ekki of háleit. Svo má alltaf endurskoða markmiðin þegar þjálfunin er hafin. Betra er að byrja smátt og vinna sig svo upp. Litlir sigrar skipta sköpum í upphafi þjálfunarinnar og þeir auðvelda barninu að halda áfram og gefast ekki upp. Sú hegðun sem á að taka föstum tökum og breyta eða aðlaga betur þarf að vera vel skilgreind og skýr. Eins skiptir miklu máli að sú hegðun sem breyta á, skili jákvæðum árangri fljótlega þegar þjálfunin er hafin og hún mæti jákvæðum viðbrögðum annarra.

Hugtök þeirra aðferða og tækja sem nýtt verða í félagsfærniþjálfuninni

breyta

Sýnikennsla, Þá sýnir þjálfarinn það sem einstaklingurinn á að læra.

Hlutverkaleikur, leita eftir að einstaklingurinn geti öðlast aukinn orðaforða, efli sjálfsvitund og félagslegan þroska. Auðveldar nemenda að yfirvinna tilfinningalegar og líkamlegar hömrlur og þróa sjálfstraust í daglegum samskiptum.

Reynslunám, gott tæki til að vinna með börn sem eiga við felagsleg vandamál að etja. Hugmyndafræðin á bak við reynslunám er að reynsla barna við að fá að framkvæma hlutina sjálf er mun meiri heldur en ef þau sætu á skólabekk og fengju aðeins að heyra um hana talað

Jafningjafræðsla, með því að vera samvistum við jafnaldra sína og aðra fullorðna lærir barn samskipti og öðlast félagslega hæfni. Eftir því sem samskiptunum er mætt með bæði áhuga og hlýju eflist barnið og verður virkara, en ef lítill áhugi er sýndur og barnið er einangrað þá dregur barnið sig í hlé og verður óvirkt.

Sjálfsmat, við gerð sjálfsmats er einstaklingurinn í raun að ræða við sjálfan sig. Hann er að staðfesta ákveðið mat. Áríðandi er að þetta tal við sitt innra sjálf fari fram á uppbyggilegan hátt. Einstaklingurinn segir við sjálfan sig að hann geti vel gert hlutina eins og allir aðrir. Góð aðferð við sjálfsmat getur verið að standa fyrir framan spegil og tala við sig þar og skoða kosti sína og galla í gegnum spegilmyndina. Sjálfstraust, vitað er að sjálfstraust mótar nánast öll okkar samskipti. Til að við getum haft gott sjálfstraust þarf sjálfsímyndin að vera góð.

Það sem þarf að leggja áherslu á í uppeldi og kennslu er m.a. Sjálfsmynd, Sjálfsvirðing, Jákvæðni og Sjálfsmat.