Henný Árnadóttir

Eyrarbakki breyta

Þessi lexía fjallar um stað á Suðurlandi sem heitir Eyrarbakki, sögu staðarins og söfn.

Þetta verkefni snýr að sjávarþorpinu Eyrarbakka. Námsefnið snýr að þorpinu og sögu þess. Nemendur skoða efnið og myndirnar og svara síðan spurningum. Efnið er áætlað fyrir 4.- 6. bekk.

Eyrarbakki er lítið sjávarþorp á suðurströnd Íslands. Það tilheyrir Sveitafélaginu Árborg og íbúafjöldi þar er um 600 manns. Á Eyrarbakka var mikil verslun í gamla daga og sóttu bændur á Suðurlandi Eyrarbakka á meðan á einokun danska kóngsins stóð.

Eyrarbakki varð einn stærsti bær á Íslandi og var á þeim tíma mun stærri en t.d. Reykjavík og leit lengi út fyrir að Eyrarbakki yrði höfuðborgin.

Í byrjun síðustu aldar hófst tímabil útgerðar og fiskvinnslu á Eyrarbakka og störfuðu þar þrjú fiskvinnslufyrirtæki fram undir síðustu aldamót. Hafnleysi stóð útgerð þó alltaf fyrir þrifum og með tilkomu brúar yfir Ölfusárósa lagðist útgerð smám saman af. Eyrarbakki er nú vaxandi ferðamannastaður og gömlu húsin gjarnan nýtt sem sumarbústaðir.


 
 

Saga Eyrarbakka breyta

Nafn Eyrarbakka er nátengt siglingum og viðskiptum sunnlendinga við umheiminn. Að fornu var nafnið Eyrar samheiti um alla strandlengjuna frá Ölfusá að Þjórsá. Á 14. öld fær þetta sama svæði nýtt nafn, Eyrarbakki. Það er ekki fyrr en á 19. öld sem merkingin þrengist og það tekur eingöngu til þéttbýlisins vestur undir Ölfusá.

Í íslenskum fornritum er hafskipa oftar getið á Eyrum en á nokkrum öðrum stað á landinu. Á fyrstu öldum byggðar í landinu var þar ein af mörgum höfnum Suðurlands. Frá um 1100 fær höfnin aukna þýðingu og verður helsta höfn á Suðurlandi frá því og allt fram að síðari heimstyrjöld.

Mikilvægi Eyrarbakka í sögu þjóðarinnar byggir á höfninni. Nokkur dæmi skulu um það nefnd. Farmaðurinn Bjarni Herjólfsson var frá bænum Drepstokki á Eyrarbakka, bæ vestur við Ölfusá. Hann sigldi frá Eyrarbakka fyrir um það bil 1000 árum í kjölfar föður síns, sem hafði fylgt Eiríki rauða til Grænlands. Bjarni og menn hann lentu í hafvillum og sigldu í vesturátt sunnan við Grænland þar til þeir fundu land, sem var meginland Norður-Ameríku. Bjarni varð fyrstur Evrópumanna til þess að finna hin miklu lönd í vestri og vísaði hann Leifi Eiríkssyni leiðina, en Leifur sigldi í kjölfar hans nokkrum árum seinna. Höfn biskupsstólsins í Skálholti var á Eyrarbakka. Öll utanríkisverslun vegna staðarhalds og kirkjubygginga á biskupsstólnum fóru því um Eyrarbakka. Jafnvel viðum til fyrstu dómkirkju á biskupssetri norðlendinga á Hólum í Hjaltadal var skipað upp á Eyrarbakka. Á miðöldum var þriðjungi af konungstolli skipað út frá Eyrarbakka.

Eyrarbakki var lengst af verslunarstaður og útgerðarstöð, en hin síðari ár hefur atvinna þorpsbúa verið fyrst og fremst við þjónustustörf margs konar og iðnað. Mikilvægi sjávarútvegs fyrir afkomu íbúanna hefur minnkað á undanförnum árum og höfn var aflögð árið 1988, þegar ný brú á Ölfusárósa var tekin í notkun. Ríkisfangelsið á Litla-Hrauni staðsett á Eyrarbakka og hafa þar margir þorpsbúar atvinnu. Fjölmennur hópur manna sækir vinnu í þéttbýlisstaðina í nágrenninu, t.d. Selfoss og Þorlákshöfn, og margir íbúar á Eyrarbakka vinna í Reykjavík.

Blómatími Eyrarbakka breyta

Blómatími Eyrarbakka var frá miðri 19. öld og á fyrstu áratugum 20. aldar. Þá myndaðist þéttbýliskjarni umhverfis hús dönsku verslunarinnar og íbúum fjölgaði ört. Flestir urðu þeir um 1920 tæplega 1000 manns, en fækkaði upp úr því og hefur íbúatalan verið um 530-550 manns hin síðari ár. Þegar skipin stækkuðu völdu skipstjórnarmenn frekar að sigla fyrir Reykjanes til Reykjavíkur, vegna þess að þar var höfnin betri. Stundum þurftu skipin að liggja fyrir utan Eyrarbakka svo dögum og vikum skipti og bíða eftir því að veður og brim lægði, svo hægt væri að sigla inn á Eyrarbakkahöfn. Flest kaupskipanna sem sigldu frá Danmörku til Eyrarbakka á síðari tímum komu frá bænum Marstal á eyjunni Ærø. Mörg þeirra komu oft á ári, ár eftir ár.

 

Söfn breyta

Á Eyrarbakka eru tvö söfn. Sjóminjasafnið á Eyrarbakka er rekið af Árborg og þar er merkasti safngripurinn áraskipið Farsæll, sem stendur þar inni með rá og reiða. Þá eru í safninu margt muna og minja sem tengjast sjósókn og fiskverkun á Eyrarbakka og í verstöðvunum í nágrenninu. Byggðasafn Árnesinga í Húsinu er rekið af Héraðsnefnd Árnesinga. Má segja að Húsið og Assistentahúsið séu merkustu safngripirnir, en í húsunum hafa verið settar upp sýningar um sögu Hússins og fólksins sem þarf starfaði og bjó, einnig um sögu verslunar á Eyrarbakka og ýmsir munir tengdir sögu Árnessýslu og Árnesinga.

 
 

Húsin á bakkanum breyta

Fyrir tilstuðlan Eyrarbakkahrepps, Þjóðminjasafns Íslands og Skipulags ríkisins var á árinu 1990 gefið út hefti eftir Lilju Árnadóttur sem bar heitið Eyrarbakki – Húsakönnun. Lilja hafði þá um nokkurt árabil safnað saman upplýsingum um gömul hús á Eyrarbakka á vegum Þjóðminjasafnsins og Húsafriðunarnefndar ríkisins. Eyrarbakkahreppur hafði óskað eftir því að slík úttekt yrði unnin í tengslum við gerð nýrrar aðalskipulagsáætlunar fyrir sveitarfélagið. Inga Lára Baldvinsdóttir liðsinnti Lilju við gerð húsakönnunarinnar. Skemmst er frá því að segja að þetta hefti hefur verið ófáanlegt um árabil en þó nokkur eftirspurn hefur verið eftir húsakönnuninni.



 

Spurningar breyta

1. Hvar er Eyrarbakki staðsettur á landinu ?

2. Hvaða atvinnuvegir voru algengir á Eyrarbakka á árum áður og hvað er mest gert þar í dag ?

3. Hvað er mest talað um í fornritum tengt Eyrarbakka ?

4. Hver var blómatími Eyrarbakka?

Heimildir og tenglar breyta

Mynd af Eyrarbakka Kortamynd af Eyrarbakka Wiki um Eyrarbakka Vefsíðan Eyrarbakki.is [https://commons.wikimedia.org/wiki/Category:Eyrarbakki#/media/File:Eyrarbakki_Museum_Church.JPG Husin á bakkanum Húsið Safn