<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur Guðlaug Erlendsdóttir

Þetta er wikibók um kenningar innan afbrotafræðinnar.


Kenningar í afbrotafræði

breyta

Í gegnum tíðina hafa margar kenningar verið settar fram til að útskýra hvað valdi afbrotum og hvers vegna sumir hneigjast til afbrota en aðrir ekki. Má þar meðal annars nefna sálfræðilegar- og líffræðilegar kenningar sem leitast við að útskýra afbrot með því að horfa á einstaklinginn sjálfan. Svo eru Social process kenningar og Social structure kenningar sem reyna að útskýra af hverju fólk fremur afbrot með því að líta á þjóðfélagið og þjóðfélagsgerðina. Ég mun hér fjalla stuttlega um helstu líffræðilegu kenninguna og höfund hennar, Cesar Lombroso.

Líffræðileg kenning

breyta

Þrátt fyrir að helstu líffræðilegu kenningarnar sem skýra áttu afbrotahneigð voru settar fram á 19. öld eru slíkar skýringar miklu eldri. Hafa þær elstu verið raktar allt aftur til Aristótelesar, sem var uppi á árunum 384 – 322 fyrir Krist. Aristóteles trúði því að lögun höfuðkúpunnar ákvarðaði persónuleika einstaklinganna. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á sambandi milli afbrotahegðunar og líkamseinkenna hafa verið raktar aftur til 15. aldar og rannsóknir á sambandi milli afbrotahneigðar og andlitseinkenna aftur til 17. aldar. Nútíma afbrotafræði hófst hins vegar með rannsóknum og líffræðilegri kenningu Cesare Lombroso.

 

Cesare Lombroso var af ítölskum gyðingaættum og fæddist í Verona árið 1835. Þetta var ein af fáum borgum í Habsborgaraveldinu sem leyfði gyðingadrengjum að afla sér menntunar og greinilegt er að hann nýtti sér það því árið 1858 útskrifaðist hann sem læknir frá Háskólanum í Pavia. Eitt sinn þegar Lombroso var að kryfja lík ofbeldisfulls afbrotamanns, tók hann eftir óvenjulegri dæld í höfuðkúpunni, svipað og finnst meðal nagdýra, fugla og frumstæðari apa. Þessi uppgötvun lagði grunninn að kenningu hans um líffræðilegan mun afbrotamanna og annarra. Hann hélt því fram að einstaklingar þróist mismunandi líffræðilega séð. Sum einkenni, eins og höfuðkúpudældin sem hann hafði uppgötvað, taldi hann þýða afturhvarf til frumstæðari manngerðar. Lombroso flokkaði einstaklinga með slíkt líffræðilegt afturhvarf sem „fædda afbrotamenn”.

Á tímum Lombrosos var áhrifa þróunarkenningar Darwins farið að gæta og samkvæmt henni tók líkamsgerð einstaklinga breytingum með þróuninni og einstaklingarnir urðu sífellt flóknari. Þessi kenning studdi þá trú Lombrosos að afbrotamenn, í samanburði við þá sem ekki fremja afbrot, væru ekki einungis frábrugðnir líkamlega séð heldur væru þeir líkamlega óæðri. Hann taldi þá ekki hafa þróast eins og aðra menn. Einnig hélt Lombroso því fram að hann gæti greint á milli tegunda afbrotamanna. Hann taldi sig hafa komist að leið til þess að greina milli afbrotamanna með því að skoða líkamleg einkenni þeirra.

 

Hann líkti afbrotamönnum við villidýr, það varð að hamla báðum frá því að stofna öðrum í hættu. En hann taldi svo til algjörlega ógerlegt að bæta afbrotamenn. Einnig var hann á móti stuttum fangelsisdómum. Hann hélt því fram að fangavist gerði afbrotamenn ekki að „betri” mönnum, heldur kæmu þeir verr út en þegar þeir fóru inn. Því afbrotamenn myndu einungis læra af öðrum afbrotamönnum. Hann hafði meiri trú á innilokun afbrotamanna á eigin heimilum, lagalegum áminningum, sektum, vinnuþrælkun án fangavistar og líkamlegum hegningum. Hann var talsmaður skilorðsbundinna dóma og taldi að einungis ætti að nota dauðarefsingu sem síðasta úrræði. Hann taldi rétt að fórnarlömb afbrota fengju skaðabætur og lagði mikla áherslu á það sem hægt væri að gera til að fyrirbyggja afbrot.

Lombroso gerði sér þó grein fyrir því að ekki allir afbrotamenn væru fæddir afbrotamenn heldur gerði hann grein fyrir tveimur öðrum tegundum afbrotamanna, þ.e. criminaloid og geðveikum afbrotamönnum. Hann skilgreindi criminaloid sem einstakling sem er knúinn til afbrota sökum heitra tilfinninga sem ásamt öðrum þáttum leiða viðkomandi út í afbrot. Geðveiki afbrotamaðurinn er sá sem þjáist af flogaveiki eða geðrænum kvillum og hann, ásamt andlega vanþroskuðum einstaklingum, á ekki heima í samfélaginu. Eins og fæddu afbrotamennirnir þá geta geðveikir afbrotamenn ekki stjórnað eigin hegðun, en hann taldi ekki eins mikla skömm af geðveikum afbrotamönnum eins og af þeim sem fæðast afbrotamenn.


Líkamleg einkenni

breyta
 

Lombroso setti fram lista af líkamlegum einkennum sem hann taldi að gera myndi fólki kleift að þekkja afbrotamenn á og verður hér aðeins gerð grein fyrir nokkrum þessara einkenna. • Höfuðkúpa afbrotamanna er annað hvort stærri eða minni en hjá „eðlilegum” einstaklingum. • Framstæðar ennisholur og óhófleg stærð lærvöðva, sem eru jafnframt algeng einkenni meðal spendýra og rándýra. • Mjög stórir kjálkar og kinnbein. • Ósamhverfa í andlitsfalli, þar sem augu og eyru eru oftast staðsett í mismunandi hæð eða eru ójöfn að stærð. • Flóttalegt augnaráð. • Óeðlilega stór eða lítil eyru eða útstandandi eyru, eins og á simpönsum.

Þau líkamlegu einkenni sem hann taldi að greindu á milli afbrotamanna voru til dæmis flatt nef sem hann taldi algengt meðal þjófa. Morðingjar hafa hins vegar arnarnef. Nauðgarar og morðingjar eru líklegri til að hafa þykkar framstæðar varir en svindlara taldi hann hafa þunnar og beinar varir.

Þetta eru þau líkamseinkenni sem Lombroso taldi að afbrotamenn hefðu og er áhugavert hve nákvæmur hann er í þessu, eins og til dæmis með nefgerð og þykkt vara.


Gagnrýni

breyta
 

Það undrar sjálfsagt fáa að þessi kenning Lambrosos hefur fengið mikla og neikvæða gagnrýni og telja sumir að hann hafi orðið til þess að öll þróun innan greinarinnar hafi hreinlega stöðvast í um 100 ár.

Sjaldan er rætt um Cesar Lombroso og kenningu hans á hlutlausan hátt, hann er ýmist lofaður úr hófi fram eða fordæmdur. Í sögu afbrotafræðinnar hefur sjálfsagt ekki nafn neins fræðimanns verið lofsungið eða ráðist á eins og hans.

Kenning Cesars Lombros hefur meðal annars fengið mikla gagnrýni fyrir ofuráherslu hans á líffræðilegar orsakir afbrota á kostnað þátta í umhverfinu. Þó telja margir fræðimenn framlag Lombrosos, og annarra fræðimanna þess tíma sem aðylltust slíkar kenningar, vera mikilvægt. Vegna þess að þeir hafi lagt grunninn að vísinda- og líffræðilegum greiningum á afbrotahegðun.

Krossapróf

breyta

1 Hvað hefur elsta líffræðikenning í afbrotafræði verið rakin langt aftur?

Til 15. aldar
Til Aristótelesar
Til 19. aldar
Til 17. aldar

2 Hvenær er talið að nútíma afbrotafræði hafi hafist?

Á 15. öld.
Á 17. öld.
Á 19. öld.
Á 20. öld.

3 Hvaða menntun hafði Cesar Lombroso?

læknir.
afbrotafræðingur.
hagfræðingur.

4 Hvaða uppgötvun lagði grunninn að kenningu hans um fædda afbrotamenn?

Stór höfuðkúpa afbrotamanns sem hann rannsakaði.
Dæld í höfuðkúpunni á afbrotamanni sem hann var að kryfja.
Flatt nef meðal afbrotamanna.
Lítil augu meðal afbrotamanna.

5 Cesar Lombroso var hlynntur eftirfarandi refsingum:

Fangavist og dauðarefsing.
Sektir, líkamleg refsing og lagaleg áminning.
Dauðarefsing og þrælkunarvinna.
Fangavist og sektir.

6 Hvaða tvær aðrar tegundir afbrotamanna "uppgötvaði" Cesar Lombroso?

Fædda afbrotamenn og criminaloid.
Criminaloid og fæddir afbrotamenn.
Geðveikir afbrotamenn og fæddir afbrotamenn.
Criminaloid og geðveika afbrotamenn.

7 Hvaða líkamlegu einkenni taldi Cesar Lombroso að einkenndu morðingja?

Arnarnef.
Stór eða lítil eyru.
Flatt nef.
Framstæðar ennisholur.

8 Hvaða líkamlegu einkenni taldi hann að einkenndu nauðgara?

Stór eða lítil höfuðkúpa.
Óhóflega stórir lærvöðvar.
Flatt nef.
Þykkar og framstæðar varir.

9 Kenning Cesars Lombrosos hafði eftirfarandi áhrif á afbrotafræði:

Hann stöðvaði þróun innan greinarinnar um 100 ár.
Afbrotum fækkaði.
Afbrotum fjölgaði.
Fleiri fangelsi voru byggð.


Hér er sama krossapróf (í hot potatoes) um líffræðilega kenningu í afbrotafræði

Heimildir

breyta

John E. Conklin. 2001. Criminology. 7. útgáfa. Allyn and Bacon, MA.

Stephen E. Brown, Finn-Age Esbensen og Gilbert Geis. 1998. Criminology: Explaining crime and its context. 3ja útgáfa. Anderson Publishing co, Cincinnati, OH

Sue Titus Reid. 2000. Crime and criminology. 9. útgáfa. McGraw Hill, Florida.

Ítarefni

breyta