Actor-Network Theory - Viðbragðanet

<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Actor-network theory, eða kenningin um viðbragðanet, er tíðum kölluð ANT, eftir upphafsstöfum sínum.

ANT er til orðin sem sambland af félagsvísindum og tæknihyggju, þar sem greiningaraðferðum þeirra er beitt á óhlutbundinn hátt á ósamkynja hluti, innbyrðis tengsl þeirra og táknmál (semiotics). Sérstakur gaumur er gefinn að atriðum á borð við

  • Flækjufræðum (Complexity) og mikilvægi staðbundinna atvika,
  • virknikenningunni (activity theory),
  • félagsfræði þekkingar og
  • tæknilegri kerfisfræði.


Félagsfræðileg útlistun á þekkingu og tólum hefur annað hvort verið byggð á andstæðunum náttúru eða menningu, en í ANT koma aukreitis til sögunnar þau áhrif sem af venslum þeirra stafa. Þessari kenningu vex nú óðum fiskur um hrygg, en margt í henni á hliðstæður í hugsmíðakenningum Vígotskíj, eins og í virknikenningunni, sem fjallar um hvernig huglægir smíðagripir menningarinnar móta samskiptalíf okkar.

Viðfangsefni breyta

Þau ferli sem einkenna vísindalega þekkingarleit, mótun skoðana og innleiðingu tóla og tækja, eru miðlæg viðfangsefni. Þar koma við sögu útskýring og túlkun félagslegrar og tæknilegrar þróunar þar sem bæði manneskjan sjálf og vélar hennar skulu lúta sömu túlkunarreglum sem gerendur (actants). Hér eru það áhrifavaldar (actors) sem setja ferli (actants) í gang í kerfinu. ANT leggur til grunns að innan tengslanets séu mörg tengslin bæði efnisleg og táknræn í senn og fjallar um hvernig þessir eiginleikar endurspeglast í heildrænni virkni þeirra. Eðli og sjálfsvitund hluta er miðuð út frá mannlegum og eða vélrænum hlutverkum þeirra og í kjölfarið koma sameiginlegar skilgreiningar, þátttakendur og samvinna.

ANT stendur í stórum dráttum nær því að vera hugsmíðahyggjulegs eðlis en að styðjast við tilvistarkenningarlegar útlistanir á atburðum eða nýjabrumi sem aftur byggja á mati á sannleiksinnihaldi kenninga. Hér eru það hugsmíðaferlin í samspili samfélags og náttúru sem vefa viðvarandi net. En vegna sérstakrar áherslu sinnar á efnis-táknfræðilega nálgun greinir ANT sig frá mörgum öðrum kenningum um félagsleg net og vísinda-tæknilegar nálganir, einkum þar sem öllum þáttum netsins verður að lýsa á sama hátt, hvort sem þeir eru lifandi eða ekki.

Þetta hefur meðal annars leitt til áleitinna spurninga um sjálfsvitund, sjálfstæða stöðu mannsandans eða nauðhyggju gagnvart því gangverki sem umlykur umhverfi hans. En hver er eiginlega grunnhlutur þess sem uppgötvar, útskýrir og skilgreinir þá þætti sem eru að störfum í hinum ærið víðáttumiklu fjölbreyttu samspilanetum manna og hluta? Getur hann markað sér stað innna þeirra?

Ekki fjallar ANT um hvers vegna slík net taka á sig ákveðna mynd, heldur frekar um hvernig þau myndast, haldast saman og fjara loks út, allt í samhengi við annað sama eðlis.

Margir fræðimenn halda því fram að þau séu í eðli sínu afar brothætt og verða að sækja endurnæringu í viðvarandi notkun eða dofna út ella og verða að engu. Þau eru ekki pottþétt í eðli sínu en virknin næst þrátt fyrir ágalla af ýmsum toga.

ANT var beitt til greiningar á upplýsingakerfum (Tatnall og Gilding 1999) í kjölfarið á árangursríkri notkun þess við greiningu ferla innan fagsviðs landafræðinnar, en upprunann má rekja allt aftur til níunda áratugar síðustu aldar (M. Callon (1991) og B. Latour (1992)).

Önnur mikilvæg hugtök innan ANT eru virknisígildi (regimes of delegation), miðlægni miðlunar (centrality of mediation) og það að framsetning náttúru og samfélags sé ekki orsök heldur afleiðing af vísinda og tæknistarfi mannanna. Það að líta megi á staðreynd sem afleiðingu, en ekki forsendu, er og grunnatriði í hugsun bandarískra hagnýtingarsinna (pragmatista).

Þá glímir ANT sérstaklega við að brúa bilið milli hins smáriðna og hins stórskorna, sem félagsvísindin hafa jafnan átt svo erfitt með að kljást við á sannfærandi hátt.

Það sem er verið að framkvæma og allt sem hefur áhrif á hvernig það er gert, jafnvel á gagnvirkan hátt, skyldi skoðast í samhengi undir merkjum ANT. Vísindalegt starf er til dæmis sett saman úr mörgum þáttum, svo sem rottum, tilraunaglösum, samstarfsfólki, vísindagreinum, sjóðum, styrkveitingum, innlögnum á ráðstefnur og svo framvegis, sem allt krefst stjórnunar. Það er yfirstandandi endurbygging þess félagslega umhverfis sem það er hluti af og endurnýjun tengsla milli þeirra félagslegu og náttúrlegu fyrirbæra sem það tilheyrir. Í slíkum ferlum geta „leikendurnir“ verið af hinu margvíslegasta tagi. Það, sem fæst við félagsfræði, þarf til að mynda ekki nauðsynlega að vera manneskja. Það nægir að „það“ sé einhver „hálf-hlutur“, myndaður úr áþreifanlegum eða félagslegum þáttum og „orðræðu“ fagsins.

Áhrifavaldar breyta

ANT tekur á sig lit frá öðrum kenningum efnistengdrar táknfræði (material-semiotics) einkum framlagi heimspekinganna Gilles Deleuze, Michel Foucault og vísinda-tæknilegra hugmynda feministans Donnu Haraway. Einnig má líta á ANT sem skilgetið afkvæmi félagsháttafræðinnar (ethnomethodology). Hér eru og augljós tengsl við víxlverkunarhugmyndir táknfræðinnar (symbolic interactionist), til að mynda nýjustu útlistanir á grunnaðri kenningu (grounded theory) á borð við stöðugreiningu (situational analysis) sem leitast við að skoða félagslegar kringumstæður í ljósi hinna mismunandi tengsla sem að verki eru í hveri stöðu. Helstu hugsuði ANT má kalla þá B. Latour, M. Callon, J. Law, M. Lynch, S. Woolgar og S. L. Star.

Vinnulag breyta

Þeir sem starfa í anda ANT nota tvær meginaðferðir í rannsóknum sínum: Rekja sig áfram með viðtölum og þjóðlýsingarlegum (ethnograpic) rannsóknum eða styðjast við fram settar og fyrirliggjandi upplýsingar, texta, myndir og gagnasöfn.


ANT sem námskenning breyta

Þessa kenningu má auðveldlega heimfæra upp á nám og allt sem námi tilheyrir, hvort heldur það eru félagslegir eða náttúrulegir þættir eða tengslin þar á milli. En það er erfitt að lýsa námi sem opnu hlutmengi innan ANT sem er í gangvirku sambandi við umhverfi sitt og sennilega vonlaust að nota slíka lýsingu sem haldbæran grunn fyrir námskenningu sem unnt væri að prófa á megindlegan hátt. Eftir því sem rafrænni miðlun af öllu tagi vex ásmegin, ber meira á aðgreiningu kennslu sem gjörnings (performance) kennara og miðlun hlutar (þekkingar eða námsefnis). Í netstuddu námi virðist gjörningurinn sem slíkur vera að færast af herðum kennarans og yfir á umræður og samvinnu milli nemenda. Sömuleiðis er margt á huldu um höfundarétt að afmörkuðu námsefni sem þróast smám saman og breytist í meðförum margra. Þá mætti leita til ANT til að gá að áhrifavöldum (actors) og greiða úr flækjunum um hvað er hvurs og hvurs er hvað í einu námsferli, því margt er á hverfanda hveli og nýjabrum í hverju horni.

Lesefni breyta

Benda má á

  • Actor Network Theory and After, ritstýrt af John Law og John Hassard,
  • Aramis, or the love of technology, eftir Bruno Latour,
  • Science in action: How to follow scientists and engineers througt society, eftir Bruno Latour.

Helstu heimildir breyta