Aðalhlutar bulluvéla

<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur: Gísli Sig. Eiríksson.

Þessi wikibók er um aðalhluta bulluvéla og hvaða efni eru í þeim og hvernig þær virka, hún gæti hentað sem hluti af námsefni í byrjunaráfanga í vélstjórn.

Fjórgengisvél

Flokkun véla breyta

Vélar eru oft flokkaðar í tvo aðalflokka, ottóvélar (bensínvélar) og dísilvélar. Síðan eru þær flokkaðar í ýmsa undirflokka t.d eftir vinnuhringnum, þrýstingnum í strokknum, snúningshraða eða byggingarlagi.

Vinnuhringur tvígengisvélar er 360° eða tvö slög, þjappslag og aflslag, en vinnuhringur fjórgengisvélar 720° eða fjögur slög, sogslag, þjappslag, aflslag og útblástursslag. Flestar eiga það þó sameiginlegt að aðalhlutar þeirra eru svipaðir.


Botngrindin og botnskálin breyta

Botngrindin og botnskálin í stærri vélum eru oftast steyptar saman, botnskálin (oft nefnd pannan), er neðsti hluti vélarinnar og notuð sem smurolíugeymir vélarinnar, þegar ekki er sérstakur geymir fyrir olíuna, þaðan er smurolíunni hringrásað um vélina. Botnskálinn er úr steypujárni í stærri vélum, en úr blikki í minni vélum. Botngrindin er oftast úr steypujárni og með þverslám fyrir höfuðlegur vélarinnar, en í þeim hvílir sveifarásinn.


Sveifarhúsið breyta

Sveifarhúsið á stærri vélum er úr steypujárni og boltað ofan á botngrindina, en höfð þétting á milli. Oft er sveifarhúsið og blokkin eitt og sama stykkið, en í blokkina koma strokkfóðringarnar (oft kallaðar slífar). Á sveifarhúsinu eru hafðar lúgur, svokölluð sveifarhúslok til að hægt sé að framkvæma viðhald og viðgerðir á sveifarásnum og legum.


Strokkarnir breyta

Oftast kallað strokkfóðringar þær eru sívalar og opnar í báða enda, efnið í þeim er steypujárn. Strokkfóðringarnar koma ofan í blokkina. Á milli blokkar og strokkfóðringa eru göng fyrir kælivatn til kælingar á fóðringunum. Til að kælivatnið leki ekki af er efst og neðst á fóðringunum komið fyrir sérstökum hitaþolnum gúmmíhringjum. Innan í strokkfóðringarnar eru gerðar fínar raufar eftir ákveðnu munstri (hóningaför), í þessar raufar sest smurolía til smurnings og þéttingar á milli bullu og fóðringar.


Strokklokið breyta

Strokklokið (dexelið) kemur ofan á strokkana. það er úr steypujárni og haft tvöfallt, svo mögulegt sé að koma kælivatni um það, bæði til kælingar á því sjálfu og þeim lokum sem í því eru. Á milli strokkloks og strokka eru þéttingar, annarsvegar til að þétta inn í brunaholið þar er oftast stál eða eirhringur, og hinsvegar hitaþolnir gúmmíhringir sem þétta fyrir kælivatnið sem kemur úr blokkinni í strokklokið.

Strokklokið er hert á strokkana með sérstökum boltum svokölluðum pinnboltum og verður að herða þá í réttri röð og með réttu átaki. Í strokklokinu er komið fyrir þeim lokum sem tilheyra vinnuhringnum ásamt öðrum lokum til öryggis og eftirlits.


Sveifarásinn breyta

Aðalhlutar hans eru höfuðleguvelirnir, sveifararmarnir og sveifarvelirnir. Hann er ýmist krumpaður saman eða steyptur í einu lagi, hann hvílir og snýst í höfuðlegunum í botngrindinni eða er hengdur upp í höfuðlegurnar í sveifarhúsinu, allt eftir hönnun vélarinnar. Höfuðlegurnar eru í tveimur hlutum kallaðir efri og neðri bakki. Sveifarásinn er úr stáli og liggur eftir endilangri vélinni, á honum eru sveifararmar með velslípuðum sveifarvölum þar sem sveifarlegurnar eru. Bullustangirnar tengjast sveifarvölunum. Gegnt sveifarvelinum eru andvægi sem vinna á móti þyngd valanna, bullustangarinnar og bullunnar. Smurrásir eru venjulega boraðar í gegnum ásinn og sveifararmanna til smurnings á höfuð og sveifarlegum.


Bullustangir breyta

Tengja saman bullu og sveifarás. Þær eru úr stáli og annað hvort sívalar eða þverskurðurinn er H laga. Í neðri enda stangarinnar kemur sveifarlegan sem leikur á sveifarásnum og í efri enda hennar er er önnur heldur minni lega sem bulluvölurinn gengur í gegnum og tengir stöngina við bulluna, þá er bullan föst á stönginni en hún getur samt hreyfst til hliðanna þá kallast hún fljótandi. Bullustangirnar eru oftast gegnumboraðar fyrir smurolíu, eftir að olían hefur smurt sveifarleguna fer hún upp um bullustöngina, smyr bulluvölinn og síðan oft upp undir bullukollinn til að kæla hann.

Bullur breyta

Eru sívalar, venjulega úr steypujáni eða áli. Þær eru oft í tveimur hlutum, efri hlutinn nefndur bullukollur í hann eru fræstar raufar fyrir þéttihringina, og neðri hlutinn nefndur skjört í hann eru oft fræstar raufar fyrir skraphringina. Um miðja bulluna eru styrktarbitar, þar eru boruð göt þvert í gegnum hana fyrir bulluvölin sem er úr hertu stáli og tengir bulluna við bullustöngina. Bullutoppurinn er mjög mismunandi eftir vélagerðum, hann getur verið sléttur, skálarlaga, með topp í miðjunni eða hærri í annari hliðinni, lag hans eftir hvaða eiginleikum er verið að ná fram með brunaholunum. Ef þvermál bullu fer yfir 100 mm. þarf að kæla hana sérstaklega, annaðhvort með smurolíu eða vatni.


Stjórnásinn breyta

Er úr stáli og liggur eftir endilangri vélinni. Hlutverk hans er að stjórna opnunar og lokunartíma sog og útblástursloka og að knýja eldsneytisdælurnar sem dæla eldsneyti til eldsneytislokans, þetta er gert með sérstaklega löguðum kömbum sem eru á honum. Stjórnásinn er knúinn af sveifarásnum í gegnum tannhjól oft nefnd tímahjól eða með keðjudrifi. Í fjórgengsvélum snýst stjórnásinn helmingi hægar en sveifarásinn.

Lokarnir breyta

Sem tilheyra vinnuhring vélarinnar er oftast komið fyrir í strokklokinu. Hversu margir þeir eru fer eftir vélagerðum. Þeir helstu eru sog og útblásturslokar sem eru keilulokar, þeir eru úr stáli eða öðrum málmblöndum sem þola mjög hátt hitastig, opnunar og lokunartími þeirra verður að vera mjög nákvæmur þar sem þeir sjá um skolunina. Eldsneytisloki hefur það hlutverk að ýra eldsneytinu inn í brunaholið í fínum úða og undir háum þrýstingi. Öryggisloki ef þrýstingur í brunaholinu verður of mikill. Myndritaloki sem hægt er að setja myndrita á til að skoða vinnuhring vélarinnar. Ræsiloki ef vélin er gangsett með þrýstilofti inn á bullur.


Kasthjólið breyta

Oft nefnt svinghjól það er ýmist framan eða aftan á vélinni, og tengist sveifarásnum. Hlutverk þess er að jafna gang vélarinnar yfir vinnuhringinn, stærð þess fer eftir snúningshraða og strokkafjöld vélarinnar. Hafi vélin marga strokka, eða því meiri sem snúningshraði hennar er, því minna getur kasthjólið verið.


Hljóðdeyfirinn breyta

Hlutverk hans er tvíþætt eftir því hvort um tvígengis eða fjórgengisvél er að ræða, þeir eru af ýmsum og mismunandi gerðum. Í fjórgengisvél er hlutverk hljóðdeyfisins fyrst og fremst að deyfa hljóðið eins og nafnið gefur til kynna, í tvígengisvél hinsvegar er hann nokkuð stór, enda hefur hann þar tvíþættu hlutverki að gegna, að deyfa hljóðið og að taka á móti afgasinu frá strokknum þannig að þrýstingur í strokknum falli nógu snöggt til að skolunin verði nægjanlega góð.


Ítarefni breyta

Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt:
Wikimedia Commons hefur upp á að bjóða margmiðlunarefni tengt: