<- Aftur í efnisyfirlit fyrir Wikibækur kennaranema

Höfundur: Sigrún Helgadóttir

Þessi wikibók veitir upplýsingar um þætti tengda ættleiðingu og hentar sem ítarefni fyrir áfanga í uppeldisfræði

Hvað er ættleiðing

breyta

Ættleiðing er þegar fullorðnir taka að sér hlutverk foreldris barns sem er ekki líffræðilegt afkvæmi þeirra. Þetta er löglegt ferli sem felur í sér að barnið verður hjá þeim sem ættleiða til frambúðar. Ættleiðing getur verið góður kostur fyrir mörg barnlaus pör til að eignast barn. Hugleiðingar um ættleiðingar byrja oft snemma hjá þeim pörum sem eiga í erfiðleikum með að eignast börn eða eiga við svokallaða ófrjósemi að stríða. Það tekur langan tíma að ættleiða og ferlið er oftast langt og strangt.

Lög um ættleiðingar

breyta

Í lögum um ættleiðingar (nr.130/1999) kemur fram að ef pör ákveða að ættleiða þurfa þau að fá leyfi til ættleiðingarinnar. Dómsmálaráðherra veitir þetta leyfi. Ekki má veita leyfi nema að viðkomandi barnaverndarnefnd hafi sýnt fram á að það sé barninu fyrir bestu að verða ættleitt af þeim sem þess óska. Þá þurfa umsækendur ættleiðingarinnar að hafa náð 25 ára aldri, en þó eru gerðar undantekningar ef sérstaklega aðstæður eru fyrir hendi að veita þeim sem hefur náð 20 ára aldri leyfi til ættleiðingar. Umsækjendur mega öllu jafna ekki vera eldri en 45 ára en þó hafa verið gerðar undantekningar á þessum aldri. Hjón sem sækja um ættleiðingu þurfa að hafa búið saman í þrjú ár og þar af verið gift í eitt ár. Par í óvígðri sambúð þurfa að hafa búið saman í að minnsta kosti fimm ár til að mega ættleiða barn. Þá má annar aðilinn í sambúðinni eða hjónabandinu ættleiða barn eða kjörbarn hins aðilans. Einnig má ættleiða barn maka síns eða félaga ef hann er horfinn eða geðrænum högum þess er þannig háttað að það beri ekki skyn á gildi ættleiðingar. Í nýrri reglugerð (nr. 238/2005) um ættleiðingar kemur fram að með umsókn um ættleiðingu skulu eftirfarandi gögn alltaf fylgja með. Almennar upplýsingar um umsækjendur, læknisvottorð, lýsing á heilsufari umsækjenda, hjúskapar eða samvistarvottorð, staðfesting frá þjóðskrá um tíma sem fólk er búið að vera í sambúð og skattaframtal umsækjenda frá síðustu tveimur árum. Fram kemur í þessari reglugerð að umsækjendur skulu vera heilsuhraustir og mega ekki þjást af sjúkdómi sem gætu dregið úr getu þeirra til að annast barnið. Taldir eru upp hinir og þessir sjúkdómar sem gætu leitt til þess að umsækjendum sé synjað um ættleiðingu. Í þessari reglugerð kemur einnig fram að umsækjendur verða að ráða yfir húsnæði og vera fjárhagslega vel stæð. Þá mega umsækjendur ekki vera á sakaskrá.

Ættleiðingar á Íslandi

breyta

Á árunum 1996-2004 voru ættleiðingar hérlendis 411 samtals. Í 174 af þessum 411 ættleiðingum var um stjúpættleiðingu að ræða en um frumættleiðingar var að ræða í 237 tilvikum. Alls voru frumættleidd 57 börn hér á Íslandi en 180 börn frá öðrum löndum. Flestar ættleiðingar voru frá Indlandi eða 92 börn þar af 60 stúlkur en 32 piltar. Þá koma einnig mörg börn frá Kína eða 47 börn, 46 stúlkur og einn piltur.

Ættleiðingarferlið

breyta
 

Ef par ætlar að ættleiða barn erlendis frá sér félagið Íslensk ættleiðing um ættleiðinguna. Þetta félag hefur heimild frá dómsmálaráðuneytinu til að vera milligönguliður um ættleiðingar barna frá sérstökum ríkjum. Til þessa félags geta allir þeir sem óska eftir frekari upplýsingum um ættleiðingar erlenda barna snúið sér. Misjanft er hver kostnaður við ættleiðingu er og er það oft mismunandi eftir löndum. Það sem þarf að greiða fyrir er uppihald barnsins, lögfræði- og dómskostnað sem og ferðakostnaðar. Oftast fara væntanlegir kjörforeldrar sjálfir út til að sækja barn sitt. Ekki er hægt að ættleiða nema eitt barn í einu ekki nema að þær upplýsingar komi fram frá erlendum yfirvöldum um að ættleiða systkin. Biðtími ættleiðinga er oftast um eitt og hálft til þrjú ár. Þessi tími er mismunandi eftir aðstæðum og frá hvaða landi ættleiða á. Ferli ættleiðingar má skipta í tvennt, því ferli sem fer fram hérlendis og því ferli sem fer fram erlendis. Byrjun ferlis hér heima tekur oftast fjóra til sex mánuði. Það fer þannig fram að parið sem ætlar að sækja um ættleiðingu byrjar á að borga biðlistagjald og að leggja inn umsókn sína til félag Íslenskrar ættleiðingar. Félagið sendir umsókn parsins auk þeirra vottorða sem þurfa að koma fram til Dómsmálaráðuneytisins. Ráðuneytið sér svo um að senda barnaverndarnefnd í heimabyggð umsækjenda beiðni um að kannar ástand og hagi parsins. Þessi vinna tekur oftast nokkurn tíma og gengur þannig fyrir sig að parið hittir félagsráðgjafa í nokkur skipti og ræðir við hann um ýmis mál. Til að mynda er farið yfir ástæður ættleiðingar, fjölskylduhagi, menntun, atvinnu, um hjónabandið og væntingar parsins til framtíðarinnar með tilvonandi ættleiddu barni sínu. Þegar þessu er lokið er það svo verk félagsráðgjafans að skrifa umsögn um parið en hún þarf að endurspegla parið, hagi þess og hvaða aðstæður þeir geta boðið barni. Þessi umsögn fer svo fyrir barnaverndarnefnd sem ákveður hvort umsækjendur séu hæfir eða ekki. Það er svo Dómsmálaráðuneytið sem sker úr um hvort að parið fái að ættleiða eða ekki. Ef parið fær samþykki er komið að seinni hluta ferlisins sem fer að mestu leyti fram í því landi sem ættleiða á frá. Þegar yfirvöld þess lands sem ættleiða á frá hafa fengið umsóknina frá parinu getur parið þurft að bíða í einhvern tíma. Þetta er þó misjafnt eftir löndum. Eftir þessa bið fá væntanlegir foreldrar upplýsingar um barn. Þessum upplýsingum fylgir oftast læknisvottorða og mynd af barninu. Á þessu stigi skrifar parið undir yfirlýsingu þess efnis að þau vilji ættleiða þetta ákveðna barn. Þegar parið hefur samþykkt að fá þetta tiltekna barn tekur við biðtími á meðan kerfið í landinu þar sem á að ættleiða frá gengur frá málinu. Þegar yfirvöld í landinu hafa gefið grænt ljós getur parið lagt af stað til að ná í barnið sitt. Eftir að heim er komið þarf svo að sækja endanlega um leyfi til að ættleiða barnið til Dómsmálaráðuneytisins en það er eins konar staðfesting á ættleiðingu sem hefur átt sér stað erlendis. Ef barnið er yngra en 12 ára gamalt fær það íslenskt ríkisfang við ættleiðinguna.

Atriði varðandi ættleiðingu

breyta

Þegar par hefur ákveðið að ættleiða barn er margt sem þarf að huga að. Til að mynda getur verið gott að hafa samband við önnur pör sem hafa ættleitt barn og fá upplýsingar við hinum ýmsu spurningum sem geta verið hjá parinu sem ætlar að ættleiða. Þá getur verið gott að finna stuðningshóp sem hjálpar parinu á meðan ættleiðingarferlið stendur yfir og þegar heim er komið. Parið þarf að gera ráðstafanir í sambandi við frí frá vinnu. Tala þarf við heilsugæslu til að barnið fái heilbrigðisþjónustu þegar heim er komið. Gott getur verið að gera áætlun um hvað skal gera eftir að heim er komið og kynna sér eitt og annað svo sem þroska barnsins, tengslamyndun og fleira. Áður en farið er af stað til að ná í barnið er margt sem hinir verðandi foreldrar þurfa að hafa í huga á heimilinu. Undirbúa þarf barnaherbergi fyrir barnið og barnið þarf að fá sér rúm. Einnig þarf að kaupa leikföng og föt og aðrar nauðsynjar sem fylgja litlu barni rétt eins og allir foreldrar sem eiga von á barni þurfa að sjá fyrir. Ef barnið sem ættleiða á er eldra en tveggja ára hefur reynst vel að útbúa myndaalbúm fyrir barnið sem inniheldur myndir af væntanlegum foreldrum þess, heimilinu, herbergi þess og öðru heimilisfólki og senda það út til barnsins til að venja það við nýjar og breyttar aðstæður sem eru í vændum

Að ættleiðingarferlinu loknu

breyta
 
Þegar barnið kemur heim er mikilvægt að mynda tengsl við það eins fljótt og auðið er

Þó svo að sjálfu ættleiðingarferlinu ljúki þegar foreldrar fá nýja barnið sitt í hendurnar taka við nýir tímar sem að kannski er hægt að segja að sé hluti af ættleiðingarferlinu. Þegar heim er komið er mjög mikilvægt að barnið fái eins mikla ró og næði og hægt er. Foreldrar nýja barnsins verða að hafa hugfast að þau eru barninu nánast ókunn og allar aðstæður barnsins er nýjar og líklegast framandi. Því getur barnið orðið óöruggt og óvært. Mikilvægt er að byrja að mynda tengsl við barnið strax við heimkomu, það hjálpar til að hafa mikla reglu á öllu heima fyrir. Best er að foreldrarnir séu einir með barninu fyrst um sinn til að mynda þessi tengsl og öllum utanaðkomandi sé haldið frá heimilinu til að byrja með. Það að ættingjar og vinir séu að koma í heimsókn í tíma og ótíma er bara til að lengja tengslamyndunarferli milli foreldra og barnið. Ef börn hafa verið á barnaheimili í sínu upprunalandi þekkir það ekki að leita til einnar manneskju heldur fer til þeirrar manneskju sem er tilbúið að sinna því. Börnin eiga líka oft erfitt með svefn og vakna oft á næturnar vegna martraða. Oft virðast börnin vera óhuggandi en svefninn lagast oftast á nokkrum mánuðum eftir heimkomu. Matarvenjur í upprunalöndum barnanna eru ólíkar þeim sem þekkast hér á landi og því eru börnin oft óörugg við að smakka nýjan mat. Gott getur verið að gefa þeim svipaðan mat og þau fengu í upprunalandi sínu fyrst um sinn eftir heimkomu. Hafa skal í huga að það er ekki einungis barnið sem finnur fyrir breytingum eftir heimkomu. Gerð var könnun á líðan foreldra eftir að barnið kom heim. Af þeim foreldrum sem svöruðu voru 77% sem sögðu að þau hefðu þjást af þunglyndi í kjölfar ættleiðingarinnar. Einkennin vöruðu frá tveimur mánuðum og allt upp í meira en tvö ár. Fram kom að 70% af þeim sem svöruðu sögðu að þunglyndið væri tengt ferlinu að tengjast ættleidda barninu. Þunglyndi hjá foreldrum í kjölfar ættleiðingar er vel þekkt fyrirbæri, að mati sérfræðinga um ættleiðingar. Samkvæmt áliti þeirra sálfræðinga sem vinna með foreldrum sem hafa ættleitt börn getur streitan sem fylgir því að verða foreldri, svo sem ef svefn barnsins er óreglulegur og lélegur stuðningur, leitt til þunglyndis. Hins vegar vita sérfræðingar í ættleiðingum ekki hversu algengt þunglyndi í kjölfar ættleiðingar er.

Krossapróf

breyta

1 Hvað þarf fólk að vera gamalt að öllu jöfnu til að geta ættleitt?

18
22
25
30

2 Hvað voru margar ættleiðingar á árunum 1996-2004 hérlendis?

899
555
109
411

3 Frá hvaða landi eru flest börn ættleidd til Íslands?

Indlandi
Kína
Bandaríkjunum
Ítalíu

4 Hver er milligönguliður fyrir dómsmálaráðuneytið og sér um ættleiðingar hérlendis?

Ættleiðingarstofan
Ættleiðinarstofnun Íslands
Íslensk ættleiðing
Íslenska ættleiðingarstofan

5 Hvað þurfa hjón að hafa verið saman lengi til að geta ættleitt?

Búið saman í 3 ár og þar af gift í 1 ár
Búið saman í 1 ár og verið gift í jafnlangan tíma
Þurfa að hafa verið gift í 6 mánuði
Þurfa að hafa búið saman í 3 ár og gift í 4 ár

6 Getur fólk ættleitt ef það er með alvarlegan sjúkdóm?

Nei
Með sérstakri undanþágu
Ef sjúkdómurinn er ekki ættgengur


Sama krossapróf á Hot Potatos formi

Heimildir

breyta

Ítarefni

breyta