Álfaheiði
Höfundur Fjóla Þorvaldsdóttir
Í þessari wikilexíu er kynning á örnefnum í nágrenni leikskólans Álfaheiði í Kópavogi.
Kynning
breytaÍ þessari wikilexíu er kynning á örnefnum í nágrenni leikskólans Álfaheiði í Kópavogi. Reglulega hefja nýjir starfsmenn störf í leikskólanum og ekki allir sem hafa þekkingu á nánasta umhverfi leikskólans. Samkvæmt aðalnámskrá leikskóla er talið mikilvægt að kynna nánasta umhverfi leikskólans fyrir börnunum. Nánasta umhverfi leikskólans er einnig yfirleitt nánasta umhverfi heimila barnanna, en flest búa þau í nágrenni við leikskólann. Þessi Wikilexía er hugsuð sem námsefni fyrir starfsfólk og æskilegt að það kynni sér það áður en farið er í gönguferð um nágrenni leikskólans.
Leikskólinn Álfaheiði
breytaLeikskólinn Álfaheiði er fjögurra deilda leikskóli um 600 fm. að stærð. Leikskólinn tók til starfa 1. desember 1990. Leikskólinn er staðsettur við götuna Álfaheiði á sunnanverðum Digraneshálsi og er stutt í skemmtileg útivistarsvæði s.s. Kópavogsdal og staði sem tengjast sögu bæjarins og þjóðtrúnni um álfa. Í leikskólanum dvelja 84 börn og að jafnaði starfa um 26-28 starfmenn og eru leikskólakennarar í meirihluta starfsfólks. Starfsfólk leikskólans hefur þá trú að börn séu skapandi og getumiklir einstaklingar og það sé mikilvægt að skapa þeim áhugavert umhverfi, jafnt innandyra sem utan, þar sem leikurinn fær að njóta sín. Starfsfólk telur að börn þroskist best í jákvæðu, öruggu, hlýju og tilfinningaríku umhverfi þar sem borin er virðing fyrir þeim og skoðunum þeirra. Lögð er áhersla á hlýlegt og örvandi umhverfi og er leikskólinn skreyttur með listaverkum eftir börnin. Álfaheiði vinnur í anda námsefnisins Lífsmenntar (Living Values). Námsefnið er ávöxtur alþjóðlegs verkefnis sem unnið var í tilefni 50 ára afmælis Sameinuðu þjóðanna árið 1995. Verkefnið fólst í því að beina athygli manna að tólf jákvæðum alheimsgildum undir yfirskriftinni, Deilum gildum til að skapa betri heim sem Álfaheiði hefur gert að einkunnarorðum sínum. Með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (Children's rights)að leiðarljósi var lagður grunnur að markmiði og hlutverki lífsmenntakennslunnar. Skólar sem vinna með gildi leggja aðaláherslu á jákvæðni, gleði og kærleiksrík samskipti. Gildunum er fléttað á fjölbreytilegan hátt inn í námið með það að markmiði að undribúa nemendur betur undir lífið. Í leikskólanum Álfaheiði er einnig lögð áhersla á menntun til sjálfbærni og er leikskólinn handafi Grænfánans frá árinu 2008. Lögð er áhersla á að börnunum gefist tækifæri til að kanna nánasta umhverfi sitt í öryggri leiðsögn leikskólakennara. Sjá nánar í námskrá leikskólans.
Helstu örnefni í nágrenni leikskólans
breytaÁlfhóllinn við Álfhólsskóla-Digranes
Álfhóllinn við Álfhólsskóla-Digranes er kunnasti bústaður álfa í Kópavogi. Við hann er Álfhólsvegur kenndur en sá vegur sveigir fyrir hólinn. Hóllinn er aflíðandi og mun vera um þrír metrar að hæð. Í hólnum er nokkuð stórgrýti og smáklettar. Margir segjast hafa séð álfana þar en ekki eru heimildir um það nema frá tuttugustu öldinni. Seint á fjórða áratugnum hófust vegaframkvæmdir við Álfhólsveg. Vegurinn átti að liggja um Álfhólinn og stóð til að sprengja hólinn. Gekk allt brösuglega og framkvæmdir stöðvuðust þá við vegalagninguna vegna peningamála. Áratug seinna átti að ljúka við vegalagninguna og 1947 átti að leggja veginn áfram gegnum Álfhólinn. Þegar vinna hófst á hólnum fór allt í handaskolum - vinnuvélar biluðu, verkfæri skemmdust og týndust. Fór svo að vegurinn var lagður í bugðu fram hjá hólnum norðanverðum en ekki í gegnum hann. Við lok níunda áratugarins átti að hækka upp veginn og malbika hann. Verkið sóttist vel alveg þangað til leggja átti malbikslag upp með hólnum en til þess til þess þurfti að fleyga stykki úr norðurhlið hólsins. Til þess átti að nota steinbor eins og venja er til við slík verk. Borinn lét undan og brotnaði. Var þá sóttur annar bor en hann brotnaði líka. Borarnir kubbuðust í sundur og verkamennirnir neituðu að koma nærri hólnum með vélar og verkfæri eftir það. Áætlunum um vegarstæðið við Álfhól var þá breytt og hóllinn látinn í friði. Lóð sem liggur að hólnum var úthlutað til húsbyggingar. Sá sem fékk úthlutað skilaði lóðinni en vill ekki gefa upp ástæður. Sagt er að enginn hafi fengist til að taka við lóðinni og byggja þar hús og lóðin því verið þurrkuð út af skipulagi.
Latur
Latur er nokkuð stór steinn í sunnanverðum Digraneshálsi þar sem nú liggur gatan Hlíðarhjalli. Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn. Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir. Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn. Annars er Latur hinn ágætasti drykkjarsteinn.
Digranesbærinn
Það er ofmælt að kalla minjarnar um Digranesbæinn rústir því sáralítið er eftir af bænum sjálfum en myndarlegt hellulagt bæjarhlað og grasi gróinn hleðsla um kartöflu- og grænmetisgarð er vel sýnileg og vitna um myndarbrag. Bæjarstæðið liggur móti suðri ofarlega í Digraneshálsinum austast og víðsýnt er af hlaðinu. Í dag blasir við þungamiðja höfuðborgarsvæðisins, verslunarhverfið kringum Smáralindina og svo Kópavogsbyggðin sem virðist ná endalaust austur á bóginn. Í Digranesbænum var síðasti ábúandi Jón Guðmundsson. Jón var enginn veifiskati og einstakt kjarkmenni eins og sögurnar færðu sönnur á. Sem dæmi um dugnað Jóns má nefna að hann lagði á sinn kostnað veg frá Hafnarfjarðavegi austur að Digranesbæ á árunum fyrir fyrri heimstyrjöld. Jón varð úti í febrúar 1935 á heimleið frá Reykjavík, nálægt því þar sem Snælandsskóli reis síðar. Ekkja hans Guðbjörg Jónsdóttir hélt áfram búskap til ársins 1938. Þá seldi hún Ísaki á Bjargi á Seltjarnarnesi ábúðarréttinn. Segja má að með fráfalli Jóns og búsetulokum í Digranesi hafi myndast möguleiki á því að úthluta úr landi jarðarinnar sem var í eigu ríkisins, skikum undir nýbýlin norðan megin í hálsinum niður undir Fossvogsdal. Þau nýbýli urðu svo kjölfestan í Kópavogsbyggðinni fyrstu árin.
Víghólar
Víghólar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Þeir eru í um 70 m hæð yfir sjó og er víðsýnt af þeim. Víghólar eru jökulsorfnar grágrýtisklappir með ávölum hvalbökum og jökulrákum sem bera vitni um legu og skriðstefnu jökulsins sem lá yfir Kópavogi fyrir um tíu þúsund árum. Bergið tilheyrir yngri grágrýtismyndun Íslands, en þær jarðmyndanir runnu einkum sem dyngjuhraun á hlýskeiðum ísaldar fyrir um 100.000– 700.000 árum. Upptök grágrýtisins í Víghólum eru óviss, en gætu verið á Mosfellsheiði. Aldurinn er líklega 300.000–400.000 ár. Af hvalbökum og jökulrákum á Víghólum má ráða að jökullinn sem síðast gekk yfir Kópavog hafði stefnuna NV-SA. Líklega hafa ísaskil jökulsins legið austan Bláfjalla og skriðjöklar gengið frá honum bæði út í Faxaflóa og niður í Ölfus. Um tíma stóð til að byggja Digraneskirkju á hólnum, en horfið var frá því þegar búið var að taka grunninn. Digraneskirkja stendur núna á fallegum stað í Digraneshlíðum. þar sem kirkja átti að standa má nú sjá grjóthleðslur í hvamminum sem afmarkar svæðið. Að sögn Erlu Stefánsdóttur sjáanda má sjá merki um álfabyggð á þessu svæði og segir hún að um musteri hulduvera sé þarna á háu stigi.
Kannaðu þekkingu þína
breyta
Heimildir
breytaDóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir (ritstj.). Íslenska Alfræðiorðabókin, 2. bindi. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, 1990.
Árni Waag (ritstj.). Saga Kópavogs - Saga lands og lýðs á liðnum öldum. Lionsklúbbur Kópavogs, 1990.
Adolf J. E. Petersen (ritstj.). Saga Kópavogs - Frumbyggð og hreppsár 1935-1955. Lionsklúbbur Kópavogs, 1983.
Andrés Kristjánsson og Björn Þorsteinsson (ritstj.). Saga Kópavogs - Þættir úr kaupstaðarsögunni 1955-1985. Lionsklúbbur Kópavogs, 1990.
Krækjur
breytahttp://alfaheidi.kopavogur.is/
https://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/nr/3952
http://graenfaninn.landvernd.is/