Áhrifamiklar kvenkynssögupersónur úr Laxdælu
Laxdæla
breytaLaxdæla er líklega ein vinsælasta Íslendingasagan fyrr og síðar. Hún er kennd í langflestum skólum landsins og sú saga sem margir hrífast af. Mikið er um ástir og átök, svik og hefndir sem höfðar vel til lesenda.[1]
Laxdæla hefst á frásögn af Unni djúpúðgu, kvenskörungi miklum, sem lætur smíða skip og flytur fólk sitt frá Noregi til Íslands í kjölfar stríðsástands og yfirgangs Haraldar hárfagra. Tekið er fram að Unnur hafi verið mikið afbragð annarra kvenna því sagt var að aldrei áður hefði kona komist burt með jafn mikið fé og föruneyti.[2] Sagan fjallar síðan um afkomendur Unnar og Björns bróður hennar, Kjartan, Bolla og Guðrúnu sem megin atburðarás sögunnar snýst um. Vináttu- og ástarsamband þeirra er upphaf ósættis sem verður til þess að miklar illdeilur skapast á meðal fjölskyldna þeirra.
Var Laxdæla skrifuð af konu?
breytaÞrátt fyrir að fjölmargar karlhetjur séu í sögunni nær saga Guðrúnar Ósvífursdóttur yfir stærsta hluta bókarinnar og mætti því í raun segja að hún sé aðalpersóna Laxdælu og að Laxdæla sé eins konar ævisaga hennar. Það verður að teljast frásagnarvert þar sem engin önnur Íslendingasaga státar sig af kvenkyns aðalpersónu. Að því sögðu var hlutverki hennar þó óneitanlega haldið innan marka hefðbundins kvenhlutverks þess tíma.[3] Kenningar um að Laxdæla sé skrifuð af konu komu fyrst fram fyrir nokkrum áratugum. Þegar sagan er borin saman við aðrar Íslendingasögur má sjá greinilegan mun á lýsingum sögupersóna, fjölda áberandi kvenkyns persóna og meira um ástir, fagurleika og afbrýðisemi en fram kemur í öðrum sögum. Þegar höfundur lýsir karlkyns persónum er gjarnan mikið gert úr fegurð þeirra og útliti. Kjartani er t.a.m. lýst sem fríðum, ljósum yfirlitum, fagurlega klæddum með hár sem silki, stórum og sterklegum, góðum vígmanni og allra manna bestum í íþróttum. Bolla er lýst á svipaðan hátt þrátt fyrir að ná þó frænda sínum aldrei almennilega. Kvenpersónum er hins vegar gjarnan lýst vegna mannkosta þeirra fremur en útlits. Konum er gert hátt undir höfði í sögunni og gegna mikilvægu hlutverki. Þrátt fyrir að konur hafi ekki tekið þátt í bardaga eða blóðsúthellingum stýrðu þær atburðarásinni að miklu leyti.[1] Að lokum er einnig vert að nefna að sagan hefst á frásögn af kvenskörungum Unni djúpúðgu og endar á frásögn af ævilokum Guðrúnar Ósvífursdóttur.[4] Því má segja að konum sé gert hærra undir höfði í Laxdælu en í öðrum Íslendingasögum.
Áhrifamiklar kvenkynssögupersónur Laxdælu
breytaMelkorka Mýrkjartansdóttir
breytaMelkorka Mýrkjartansdóttir kemur til sögunnar þegar Höskuldur Dala-Kollsson kaupir hana á þrælamarkaði í Brenneyjum við strönd Svíþjóðar. Höskuldur hrífst strax af ambáttinni en kemst fljótt að því að hún virðist mállaus. Höskuldur fer með Melkorku í búðir sínar og er sagt að þau hafi legið saman um nóttina. Þegar til Íslands er komið flytur Melkorka á Höskuldsstaði og neyðist til að búa þar með Höskuldi og konu hans Jórunni. Melkorka verður barnshafandi og fæðir dreng er fékk nafnið Ólafur og fékk síðar viðurnefnið Ólafur pái vegna þess hve mikill skartmaður hann var og skrautlega búinn. Ólafur var bráðþroska drengur og var nær altalandi um tveggja ára aldur. Dag einn er Höskuldur á gangi í túnbrekkunni fyrir ofan bæinn heyrir hann mannamál, hann sér þá Melkorku ræða við son sinn. Því var þá ekki dulið lengur að Melkorka var ekki mállaus heldur hafði nú neitað að tala. Spyr þá Höskuldur hver hún sé og að ekki þýði að leyna því lengur. Melkorka segir honum að hún sé í raun dóttir Mýrkjartans konungs yfir Írlandi. Hann segir hana hafa þagað heldur lengi yfir svo góðri ætt. Höskuldur segir Jórunni, konu sinni, hverju hann hafði komist að og sagðist Jórunn ekki vita hversu mikið væri satt í því sem ambáttin hefði sagt. Ekki var þetta til þess að bæta samskipti Melkorku og Jórunnar, enda báðar stórlyndar konur, en Höskuldur kom betur fram við hana en áður.
Þegar Ólafur var sautján vetra gamall kom Melkorka að máli við hann og stakk upp á því að hann héldi til Írlands að hitta Mýrkjartan, afa sinn. Ólafur sagðist hafa hugleitt það áður en Höskuldur hefði neitað að greiða fyrir ferð hans út. Melkorku líkaði það ekki og neitaði að ala son sinn upp sem ambáttarson. Hún lagði því á þau ráð að giftast manni er Þorbjörn skrjúpur hét sem hafði lengi haft umsjón með búi Melkorku. Hún var viss um að hann myndi kosta ferð Ólafs til Írlands og giftist honum í því skyni. Melkorka ákvað að brúðkaupið færi fram þegar Höskuldur riði til Alþingis um sumarið. Að auki myndi Ólafur sigla til Írlands á sama tíma. Höskuldur myndi því ekkert vita fyrr en hann kæmi heim af Alþingi. Eins og gefur að skilja varð Höskuldur mjög ósáttur að hafa ekki fengið að vera með í slíkum stórræðum en ákvað þó að aðhafast ekkert. Melkorka sendi son sinn með hring sem hún hafði fengið í tannfé frá föður sínum og hníf og belti sem hún bað Ólaf að láta fóstru sína fá. Þannig hafði hann sannindamerki um hver hann væri í raun og hún kom skilaboðum áleiðis til fjölskyldu sinnar á Írlandi.[2]
Þegar við rýnum í textann og veltum gjörðum Melkorku fyrir okkur sjáum við bersýnilega að hún reyndi að hafa stjórn á erfiðum aðstæðum. Gjörðir hennar voru ekki hugsanalausar. Líta má á málleysi hennar sem uppreisn gegn því óréttlæti sem hún mátti ganga í gegnum. Hún var hernumin, hneppt í ánauð og seld á þrælamarkaði, flutt til annars lands og neydd til þess að sofa hjá manninum sem keypti hana og búa með eiginkonu hans. Áhugavert er að velta fyrir sér orðalagi eða lýsingum á atburðum á þessum tíma. Talað er um að Höskuldur hafi sofið hjá Melkorku þegar ekki er átt við neitt annað en nauðgun. Hægt er að hugsa sér að Melkorka hafi fundið fyrir vanmáttugri reiði í kjölfar þeirra atburða sem áttu sér stað, að eina leið hennar til uppreisnar væri að þykjast vera mállaus, að þar hefði hún einhverja stjórn.[3] Hún tekur síðan aftur stjórnina eftir að hún eignast barn Höskuldar og kennir syni sínum að tala. Hún undirbýr son sinn vel fyrir framtíðina, kennir honum írsku og fær hann til þess að sigla til Írlands á fund við Írlandskonung. Hún ákveður að giftast manni með það í huga að koma syni sínum út og bera föður sínum skilaboð en einnig til þess að Ólafur ætti sér einhverskonar framtíð þar sem framtíð ambáttarsona eða króga var ekki eftirsóknarverð.
Guðrún Ósvífursdóttir
breytaGuðrún Ósvífursdóttir er sennilega sú kvenkyns sögupersóna sem gert er hvað hæst undir höfði í Íslendingasögunum. Guðrún fær mjög ítarlegar lýsingar og er sögð vera allra kvenna fegurst, skartgjörn, greind og kunni vel að koma fyrir sig orði.[2] Frá því að lesendur kynnast Guðrúnu fyrst fer ekki á milli mála að hún er skörungur mikill sem veit hvað hún vill og lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Samkvæmt Helgu Kress, sem hefur mikið rannsakað íslenska bókmenntasögu og bókmenntahefð út frá kvenna og kynjafræðilegu sjónarhorni, er uppreins Guðrúnar gegn kvenhlutverkinu ekki einungis í tengslum við ágreining hennar og Kjartans heldur komi hún skýrt fram í öllum hennar hjónaböndum.[5]
Fyrsti eiginmaður Guðrúnar hét Þorvaldur Halldórsson og var bóndi í Garpsdal í Gilsfirði. Þorvaldur kom að máli Ósvífurs, föður Guðrúnar og bað um hönd hennar. Guðrún var þá einungis fimmtán vetra gömul og ekki spurð álits og líkaði henni illa. Þorvaldur var auðugur maður og hét þess að kaupa allt það sem Guðrúnu girntist svo engin kona yrði fegurri eða ætti jafn góða gripi og hún. Eitt sinn bað Guðrún Þorvald að kaupa fyrir sig grip sem hana langaði í. Þorvaldur vildi ekki samþykkja það og sagði henni að hún kynni sér ekki hóf og sló hana í kjölfarið. Reiddist Guðrún mjög og vildi hefna sín. Hún spurði því mann er kom á bæinn sama kvöld og hét Þórður Ingunnarson hvernig hún ætti að launa Þorvaldi löðrunginn. Þórður stakk upp á því að Guðrún saumaði fyrir mann sinn skyrtu með svo flegnu hálsmáli að menn héldu að hann gengi í kvenmannskyrtu, hún gæti síðan skilið við hann fyrir þá sök. Guðrún fór að ráðum Þórðar og skildi í kjölfar við Þorvald Halldórsson.
Annar eiginmaður Guðrúnar var Þórður Ingunnarson, sá hinn sami og ráðlagði henni að sauma kvenmannsskyrtu á Þorvald. Eitt sumarið voru Guðrún og Þórður á Alþingi og var Þórður þá giftur konu er Auður hét og var gjarnan kölluð Bróka - Auður. Guðrún hvetur Þórð til þess að segja skilið við konu sína strax á þinginu. Þórður gerir það og fréttir Auður ekki af skilnaðinum fyrr en nokkru síðar. Þórður og Guðrún gifta sig síða sumarið eftir og setjast að á Laugum í Sælingsdal hjá foreldrum Guðrúnar. Þórður drukknar nokkru síðar og þótti Guðrúnu mikið um andlát hans.
Frændurnir og fóstbræðurnir Kjartan og Bolli böðuðu sig gjarnan í Sælingsdalslaug. Guðrún bjó á Laugum í Sælingsdal og var tíður gestur í sömu laug. Mikill vinskapur myndaðist á milli Guðrúnar og Kjartans og Bolla á þeim tíma og var mörgum ljóst að Guðrún og Kjartan náðu einstaklega vel saman. Kjartan heldur til Noregs ásamt Bolla og biður Guðrúnu að bíða eftir sér í þrjá vetur. Guðrúnu sárnar að fá ekki að fara með og spilar ákveðni hennar og sjálfstæði eflaust stóran þátt í því hvernig allt fór á endanum. Bolli kemur heim frá Noregi og segir Guðrúnu að Kjartan og Ingibjörg Konungssystir séu farin að rugla saman reitum og að hann muni ekki koma heim í bráð. Auk þess bætir hann því við að Kjartan skili ekki kveðju til hennar og lætur í raun líta út fyrir að Kjartan hafi slitið öllum samskiptum við Guðrúnu. Það er þó fjarri lagi. Guðrúnu sárnar og ákveður að taka bónorði Bolla í kjölfarið. Sumarið eftir kemur Kjartan heim til Íslands og fréttir þá af brúðkaupi Guðrúnar og Bolla. Fram kemur að Kjartani hafi ekki brugðið við það og lét sem ekkert hefði í skorist. Síðar kemur í ljós að hann tók fréttirnar mikið inn á sig og sömuleiðis Guðrún. Reiðist Guðrún bónda sínum og segir Bolla hafa sagt ósatt um Kjartan og Ingibjörgu konungssystur. Var þetta upphafið af miklum deilum á milli Kjartans og Bolla og Guðrúnar og fjölskyldna þeirra. Næstu mánuði eiga Kjartan og Bolli í miklum útistöðum sem fela meðal annars í sér að Kjartan hafnar sáttum við Bolla á haustblóti einu. Bolli býður Kjartani gæðahross en Kjartan gerir Bolla það skýrt að hann sé ekki tilbúinn til að sættast. Kjartan fer þá í nokkurs konar hefndarför gegn Bolla sem felur í sér að svívirða og lítillæka Bolla og fólk hans meðal annars með því að loka þá inni í bæjarhúsum í þrjá daga svo enginn komst á salernið og að kaupa bæ sem hét Sælingsdalstunga en hann hafði fengið fregnir af því að Bolli og Guðrún ætluðu sér að kaupa þann bæ. Í kjölfar þessara atburða egnir Guðrún Bolla með því að segja að Kjartan hefði gert Bolla tvo kosti með þessum athæfum, annað hvort myndi Bolli flytja burt með skömm eða gerast djarfari við Kjartan en áður. Saga Kjartans endar því á þann hátt að Bolli drepur Kjartan að áeggjan Guðrúnar en hún hótar skilnaði við Bolla ef hann hefnir sín ekki á fósturbróður sínum. Bolli er síðan veginn af Helga Harðbeinssyni sem var með bræðrum Kjartans í aðför að Bolla og þótti Guðrúnu missirinn mikill. Stuttu síðar fæðir Guðrún son þeirra Bolla og nefnir hann í höfuðið á föður hans. Þegar Bolli Bollason er tólf vetra gamall og Þorleikur bróðir hans sextán vetra gamall telur Guðrún að þeir séu orðnir nógu gamlir til þess að hefna fyrir víg föður þeirra.
Hún fær mann sem hét Þorgils Hölluson til þess að fara fyrir hefndarförinni gegn því að giftast engum manni samlendum honum. Hann vissi þó ekki að Guðrún hafði ekki í hyggju að giftast honum heldur orðaði hún svar sitt á þennan hátt, í votta viðurvist, svo hún gæti gifst manni er hét Þorkell Eyjólfsson og var jafnframt fjórði og síðasti eiginmaður Guðrúnar. Þorkell var staddur í Noregi á þessum tíma og stóð því loforð Guðrúnar, hún giftist engum öðrum manni á Íslandi er samkomulag þeirra var í gildi. Þorgils reiddist mjög þegar hann áttaði sig á því að Guðrún hefði blekkt hann og gert að athlægi og reið burt frá Helgafelli öskuvondur.[2]
Þegar rýnt er í hjónabönd og ástarsambönd Guðrúnar, ásamt þeim ávörðunum sem hún tók og ástæðum sem lágu þar að baki, má sjá skýr merki um uppreisn hennar gegn kvenhlutverkinu. Hún var ósátt við fyrsta eiginmann sitt enda barnung og ekki spurð álits um ráðahaginn, hún eyðir því fé Þorvalds og skilur við hann þegar hann reiðist henni. Hún sannfærir síðan Þórð um að skilja við Auði, eiginkonu sína og giftist honum stuttu síðar. Helga Kress[5] bendir á að það samband sé einnig uppreisnargjarnt þar sem Guðrún eigi frumkvæðið að hjónabandinu. Samband Kjartans og Guðrúnar er síðan stormasamt og virðist líf þeirra snúast um að skaprauna hvort öðru. Hún reiðist Kjartani mjög fyrir að fara til Noregs og þvinga hana í leið til að sinna hefðbundnu kvennahlutverki sem felur í sér að hugsa um bræður sína og föður (Auerbach, 1998). Hún situr sár eftir en ákveður þó að bíða eftir honum í þá þrjá vetur sem hann var utan. Bolli segir síðan Guðrúnu ósatt og særir Guðrúnu því enn frekar. Mætti því segja að Guðrún hefði gengið í hjónaband við Bolla til þess að hefna sín á Kjartani. Hún er einnig valdur að dauða Kjartans líkt og komið hefur fram og tekur dauða hans inn á sig þrátt fyrir að hafa gert lítið úr atburðinum út á við og fer með þau fleygu orð að „misjöfn séu morgunverkin", hún hafi spunnið tólf álna garn en Bolli drepið Kjartan og best þótti henni að Hrefna, eiginkona Kjartans, myndi ekki ganga sæl til rekkju sinnar það kvöldið. Að lokum mætti segja að síðasta hjónaband Guðrúnar hafi orðið til vegna uppreisnar Guðrúnar og hefnd gegn banamönnum Bolla.[5] Það má því með sanni segja að Guðrún hafi haft afdrifarík áhrif á líf persóna í sögunni og að ákvarðanir hennar hafi mikil áhrif á söguþráð Laxdælu.
Þorgerður Egilsdóttir
breytaÞorgerður Egilsdóttir var dóttir Egils Skalla-Grímsonar og talin besti kvenkostur í öllum Borgarfirði og þótt víða væri leitað. Höskuldur kemur að máli við Ólaf páa, son sinn, einn daginn og sannfærir hann um að biðja um hönd Þorgerðar. Þeir ríða á Alþingi þar sem Höskuldur ræðir við Egil, föður Þorgerðar. Egill segir að Þorgerður verði sjálf að svara bónorði Ólafs og taki ákvörðun um ráðahag sinn sjálf. Þorgerður er ekki sannfærð í byrjun þar sem Ólafur pái er ambáttarsonur en samþykkir bónorð hans á endanum. Þau byggðu bæ er kallaðist Hjarðarholt og eignast synina Kjartan, Steinþór og Halldór og dótturina Þuríði. Þau tóku einnig frænda Ólafs, Bolla Þorleiksson í fóstur og unnu honum ekkert minna en eigin börnum.
Eftir dráp Kjartans síðar í sögunni vill Þorgerður blóðhefnd og reiðist eiginmanni sínum mjög þegar hann lætur sér nægja að Bolli greiði fégjöld fyrir son sinn. Þorgerði þykir það niðurlægjandi en Ólafur reynir að halda friðinn og tekur ekki frekari mannvíg í mál. Þrátt fyrir að Þorgerður þurfi að sætta sig við ákvörðun Ólafs um tíma er hún enn sömu skoðunar, hún sinnir því þeim verkum sem húsmæðrum ber og bíður þar til Ólafur deyr.
Eftir það reynir hún aftur að sannfæra syni sína um að hefna fyrir dráp bróður þeirra. Þeir fallast ekki á ráðagerð móður sinnar í fyrstu en hún endar á að ríða með þeim framhjá bæ Guðrúnar og Bolla og segir við syni sína að þeir hefðu sæmt sér betur sem dætur föður síns en synir þar sem þeir hefðu ekki dug og þor til þess að ráðast að Bolla.[2]
Þorgerður er því örlagavaldur í atburðarás sögunnar og veldur dauða Bolla og þar með fleiri manna í kjölfarið. Þorgerður er sama sinnis og óvildarmaður hennar, Guðrún Ósvífursdóttir, en báðar vilja þær auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.[6] Heiður fjölskyldunnar er í hávegum hafður hjá þeim sama hvaða afleiðingar það muni hafa fyrir þær sjálfar eða fólkið í kringum þær.
Heimildir
breyta- ↑ 1,0 1,1 Bergljót Soffía Kristjánsdóttir. (2008). Introduction. Í: The Saga of the People of Laxardal and Bolli Bollason’s Tale. Penguin Classics.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 Gunnar Karlsson. 2017. Laxdæla saga. Menntamálastofnun, Kópavogi. https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/LAXDAELAsaga/2/
- ↑ 3,0 3,1 Helga Kress. (1993). Máttugar meyjar: Íslensk fornbókmenntasaga. Háskólaútgáfan.
- ↑ Einar Ólafur Sveinsson. (1934). Formáli. Laxdæla saga. Íslenskt fornrit V. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík.
- ↑ 5,0 5,1 5,2 Helga Kress. (1980). „Mjǫk mun þér samstaft þykkja“. Um sagnahefð og kvenlega reynslu í Laxdæla sögu. Konur skrifa : til heiðurs Önnu Sigurðardóttur. Sögufélag, Reykjavík.
- ↑ Íris Dungal. (2016). Klækir og kvennaráð – kalla fram hetjudáð: Hugleiðingar um stöðu kvenna í Njálu., Laxdælu og Eyrbyggju. Óbirt MA-ritgerð: Háskóli Íslands, Hugvísindasvið.